30.03.1927
Neðri deild: 42. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í C-deild Alþingistíðinda. (2819)

8. mál, samskólar Reykjavíkur

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg þarf varla að lýsa yfir því, að jeg er fylgjandi því frv., sem hjer liggur fyrir. Það hefir komið fyrir bæjarstjórn Reykjavíkur, og er hún því einhuga fylgjandi, og hygg jeg, að hún hafi þar alla Reykvíkinga á bak við sig.

Viðvíkjandi brtt. hv. frsm. meiri hl. vil jeg segja það, að jeg mun greiða henni atkvæði, en finst þó sú athugasemd, sem kom fram frá hæstv. atvrh. (MG), vera rjett, að síðari hluti till. eigi ekki vel heima á þeim stað. Vil jeg því skjóta því til hv. flm., hvort hann vildi ekki geyma þessa brtt. til 3. umr., og gæti hann þá breytt henni svo, að síðari hluti hennar yrði tekinn upp í frv., sem bráðabirgðarákvæði, því að það liggur í rauninni ekkert á að ganga til atkv. um þessa brtt.