08.04.1927
Neðri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í C-deild Alþingistíðinda. (2825)

8. mál, samskólar Reykjavíkur

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg þarf ekki að ræða mikið brtt. hv. minni hl. mentmn., því að hv. þm. V.-Ísf. hefir nú rifið þær og tætt í sundur, svo að segja má, að þar standi ekki steinn yfir steini. En af því að hann mintist ekki á brtt. þær, sem minni hl. hefir gert viðvíkjandi samvinnuskólanum, þá skal jeg athuga þær lítið eitt.

Það er nú fljótsjeð, að minni hl. vill setja þennan skóla ofar öllum hinum skólunum. Honum nægir ekki, að skólinn verði tekinn upp í skólasambandið, heldur á ríkissjóður líka að greiða 2/5 hluta af stofnkostnaði hans, eftir mjög lauslegri áætlun, sem á gera sem fyrst eftir að lög þessi öðlast gildi. Auk þess er þetta eini skólinn, sem ákveðið er um, hve margir kennarar skuli vera þar, fyrir utan skólastjóra, án tillits til nemendafjölda. Þar eiga þeir að vera tveir. Mjer er sagt, að nú sje milli 20 og 30 nemendur í samvinnuskólanum, svo hjer er vel í lagt með kennara, þar sem um aðra ungmennaskóla er svo fyrir mælt, að kennarafjöldi skuli miðast við 25 nemendur í bekk. Annars er það auðsætt, að ef setja á kerfi um þetta og ef taka á samvinnuskólann inn í það kerfi, þá verða sömu reglur að gilda um hann og hina skólana. Þá er ekki nefnt, hver eigi að skipa skólastjóra og kennara; laununum hefir ekki verið gleymt, en því gleymt, hver eigi að skipa mennina. Þá er alt annan veg um reglugerð þessa skóla. Hana á að setja „eftir tillögum“ Sambands íslenskra samvinnufjelaga, en reglugerðir annara skóla á að setja „að fengnum tillögum“. Það er sýnilega ekki meining hv. flm., að sömu reglur eigi að gilda um þennan skóla og hina skólana, og skil jeg þá ekki, hvað meint er með því, að taka hann upp í sambandið.

Það eru nokkur atriði, sem jeg þarf að svara hv. flm. (JG) frá 2. umr. Hann sagði, að Í. S. Í. hefði ekki verið um það spurt, hvort það vildi láta taka skólann upp í kerfið. En það skiftir nú að vísu ekki máli, því að hv. þm. sagði sjálfur að S. í. S. hefði aldrei sætt sig við að ganga inn í samsteypuna. En jeg spurði hv. þm. V.-Ísf., þegar verið var að undirbúa frv., hvort hann hjeldi, að það væri til nokkurs að bjóða Sambandinu að taka samvinnuskólann með, en hann kvað nei við því. Alt tal hv. þm. (JG) um það, að það hafi í móðgunarskyni verið gengið fram hjá þessum skóla, er því út í loftið. Þá sagði hv. þm., að jeg hefði komið fram með spurningu um það, hvort fræðslumálastjórinn væri forsvaranlega valinn, úr því að minni hl. mentmn. gæti ekki fylgt honum. Jeg kom ekki fram með neina spurningu, en jeg sagði, að það væri ekki nema eðlilegt, að jeg færi að athuga, hvort mjer hefði ekki mistekist val á fræðslumálastjóra. Þegar sjálfir flokksmenn hans gætu ekki verið með honum í þessu mentamáli. Hv. þm. svaraði þessu á þann veg, að það væri svo langt frá því, að hann vantreysti núverandi fræðslumálastjóra, að hann treysti honum manna best í þessum efnum. Mjer finst, að hv. þm. hefði vel getað tekið einn mann undan, nefnilega sjálfan sig, því að hann hlýtur að treysta sjálfum sjer betur en hv. þm. V.-Ísf., annars mundi hann fylgja honum. Hv. þm. sagði, að andstaðan gegn þessu frv. væri bygð á rjettmætri tortrygni á því, að ekki mundi verða lagt fyrir næsta þing frv. um unglingafræðslu. Hann margtók það fram, að þetta væri framfaraspor, en hann vildi ekki stíga það, vegna þess að hann var ekki viss um, að annað framfaraspor yrði stigið á næsta þingi. Þetta virðist mjer nú næsta einkennileg skoðun. En út af þessari tortrygni hv. frsm. minni hl. og að gefnu tilefni frá hv. þm. V.-Ísf., skal jeg geta þess, að jeg mun leitast við að leggja fyrir næsta þing frv. í þessa átt, ef það þing verður ekki háð fyr en á venjulegum tíma.

Hv. þm. sagði, að unglingaskólar hefðu hingað til átt svo erfitt uppdráttar hjer á þingi, að því væri ekki að treysta, að næsta þing samþykti sæmilega löggjöf um þá, og gat þess sem dæmis, að styrkur Laugaskólans hefði ekki verið samþyktur í einu hljóði. Fyr má nú gagn gera og kemur að sömu notum, þótt ekki sje samþykt í einu hljóði, ef meiri hluta fylgi er örugt, og mun þurfa lengi að leita hjer á þingi að því, að allir sjeu sammála.

Annars verð jeg að segja það, að það er eitt með þessar brtt., sem gleður mig, en það er, að þær fela nákvæmlega í sjer þau spor, sem aðalfrv. markar. Þetta sýnir, að flm. brtt. álíta, að frv. fari í rjetta átt. Þegar þessar brtt. eru bornar saman við ummæli hv. frsm. (JG) við 2. umr., þar sem hann sagði, að undirbúningur þessa máls væri slæmur, þá verð jeg að segja, að verkin sýna alt annað álit, þar sem hann fitjar aftan við frv. með alveg sömu prjónatökunum sem eru í aðalfrv. sjálfu.

Viðvíkjandi brtt. á þskj. 254 skal jeg geta þess, að þó jeg geri ekki svo mikið úr henni, að jeg verði á móti frv., ef hún verður samþ., þá mun jeg greiða atkvæði á móti henni. Jeg álít, að seinni setning hennar eigi ekki heima í frv., og mun því greiða atkv. með brtt. hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) á þskj. 278. En annars skal jeg lýsa yfir því, að þegar þetta frv. var borið fram, þá var engin afstaða tekin til samvinnuskólans, vegna þess, að jeg hafði það fyrir satt, eftir orðum hv. þm. V.-Ísf., að hann vildi ekki ganga inn í samsteypuna, svo og vegna þess, að jeg bjóst við því, að það mundi framvegis eins og að undanförnu verða veitt fje til hans á fjárlögunum.