08.04.1927
Neðri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í C-deild Alþingistíðinda. (2827)

8. mál, samskólar Reykjavíkur

Frsm. minni hl. (Jón Guðnason):

Jeg þarf ekki mörgu eða miklu að svara hv. andmælendum mínum, hæstv. kenslumálaráðh. (MG) og hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), því að það, sem ræður þeirra snerust um, hafði að miklu leyti verið rætt til fulls áður, og þarf jeg því ekki að eyða að því mörgum orðum.

Jeg mun fyrst snúa mjer að hv. þm. V.-Ísf., frsm. hv. meiri hl., og því sem hann sagði sjerstaklega um brtt. okkar minnihlutamanna. Hann hafði margt út á þær að setja; í fyrsta lagi, að ákvæðin væru ekki nógu ljós, og ennfremur að brtt. væri ekki nógu víðtækar, næðu ekki yfir alla ungmennafræðslu í landinu. Jeg mun ekki neita, að þessar aths. sjeu að nokkru leyti á rökum bygðar. En þess er heldur ekki að vænta í slíku máli, að ítarlegar og skipulegar till. verði samdar á skamri stundu. Það var minni hl. mentmn. ljóst, og því lagði hann til, að frestað yrði að gera ákvarðanir um málið að þessu sinni, uns betri undirbúningur fengist. En þegar við sáum, að frv. mundi ganga í gegnum þessa hv. deild, ákváðum við að bera fram brtt. um að gera frv. að víðtækari grundvelli undir ungmennafræðslu landsins. Það er því ofur eðlilegt, að finna megi ýms atriði, er betur gæti á farið, í brtt. okkar. En þótt orðalaginu kunni að vera nokkuð ábótavant, er það eitt ekki næg ástæða til að fella till. og byggja alveg á grundvelli stjfrv. því að það, sem brtt. okkar kann að vera áfátt, er áreiðanlega ekki meira en svo, að auðvelt er að lagfæra það, án þess að stofna málinu á nokkurn hátt í hættu. Í því sambandi vil jeg minna á, að nokkrir dagar eru síðan þetta frv. kom fyrst á dagskrá til 3. umr., og allan þann tíma hafa brtt. okkar legið frammi. Hefði verið auðvelt fyrir hv. frsm. meiri hl. og hæstv. kenslumrh. að gera á þeim tíma brtt. við till. okkar, sem gerðu þær aðgengilegri í þeirra augum og sniðu af þá galla, er þeir hafa rætt um. Annars get jeg ekki fallist á, að allar aðfinslur hv. frsm. meiri hl. sjeu á rökum bygðar. T. d. sagði hann, að ekki væri minst á húsmæðrafræðsluna í brtt. okkar. Er það vitanlega rjett hjá honum. En húsmæðrafræðslan er ekki ungmennafræðsla í venjulegum skilningi. Fanst okkur, að ákvæði um hana ættu ekki frekar heima í frv. en t. d. ákvæði um bændaskólana, sem eru henni mjög hliðstæðir. En jeg hefi ekki heyrt nokkurn mann fara fram á, að þeim skólum verði komið í þetta kerfi. Annars má geta þess enn á ný, að okkar aðaltill. var, að málinu væri frestað til betra undirbúnings. Að öðru leyti hygg jeg óþarft að fara út í aths. hv. frsm. meiri hl. Jeg get mjög fúslega kannast við, að betra hefði verið að hafa sum ákvæði í brtt. ítarlegri, en jeg kannast ekki við, að þau sjeu svo óljós, að vandræði þurfi af að hljótast. Á hinn bóginn er svo mikið unnið með þeim í að tryggja grundvöllinn undir ungmennafræðslunni, að frv. má alls ekki ná fram að ganga án þess að þær verði samþyktar.

Þá kem jeg að ræðu hæstv. kenslumrh. Þar er ekki heldur sjerlega mörgu að svara, því að ræða hans var mestmegnis endurtekningar, sumpart á því, sem hv. frsm. meiri hl. hafði sagt, og sumpart á því, sem hæstv. ráðh. hafði sjálfur sagt við 2. umr.Hæstv. ráðh. vjek tali sínu að samvinnuskólanum, og þótti honum vera gert of hátt undir höfði í samanburði við aðra sjerskóla í brtt. En brtt. okkar gera einmitt ráð fyrir, að sömu reglu sje fylgt um greiðslu hans á stofnkostnaði og til er ætlast um verslunardeild samskólanna. Þá fann hæstv. ráðh. að því, að í brtt. væri ákveðinn kennarafjöldinn, og taldi það óeðlilegt, þar sem enginn gæti vitað fyrir um nemendafjöldann. En jeg vil benda á, að sú er venjan nú um ýmsa af skólum okkar, sem eru heild út af fyrir sig, t. d. Eiðaskóla, Akureyrarskóla o. fl., að tiltekinn er með lögum fjöldi fastra kennara. Þetta er ekki miðað eingöngu við þann nemendafjölda, sem búast má við að í skólanum verði, heldur eins mikið við það, að hafa færa kennara í öllum greinum. Og sje óvíst um nemendafjölda í samvinnuskólanum, er það eins um alla aðra skóla. Þá fann hæstv. ráðh. að því, að í brtt. er ekki gert ráð fyrir, á hvern hátt kennarar verði skipaðir. En við gerum í brtt. ráð fyrir, að samin verði reglugerð og staðfest af stjórnarráðinu, og þar má og á að taka þetta fram, eins og annað, viðvíkjandi skipulagi skólans. — Þetta voru nú aðalatriðin í því, sem hæstv. ráðh. hafði að segja um brtt. minni hl. Síðan vjek hann að því, sem jeg hafði sagt, að samvinnuskólanum hafi ekki verið gert tilboð um að ganga inn í samskólana, og vitnaði hann í því sambandi í samtal sitt við fræðslumálastjóra, hv. þm. V.-Ísf. Út af þessu vil jeg taka það fram um afstöðu samvinnuskólans til samskólanna, að jeg hefi sagt það eitt, að mjer þætti ekki líklegt, að Samband íslenskra samvinnufjelaga mundi óska eftir að skólinn yrði með í samskólastofnuninni, úr því sem komið væri. En um hitt sagði jeg ekkert, hvernig farið hefði, ef aðstandendur skólans hefðu verið hafðir með í ráðum frá upphafi.

Jeg fæ ekki skilið, hvernig hæstv. kenslumálaráðh. hefir fundið það út, þó að við minnihlutamenn sjeum ekki sammála fræðsulmálastjóra um þetta atriði, að við treystum honum ekki til að fara með fræðslumál þjóðarinnar. Og mjer kemur enn kynlegar fyrir, að hæstv. ráðh. skuli halda því fram, í alvöru að mjer skildist, að afstöðu okkar til þessa máls mætti skilja sem leiðbeiningu um það, að stjórnin hefði ekki verið heppin í vali á núverandi fræðslumálastjóra. Eftir þessum kenningum að dæma ætti ekki að vera hægt að hafa traust á neinum manni, nema vera honum sammála í einu og öllu. En í flestum málum er um ýmsar leiðir að ræða, er menn greinir á um, hverjar fara skuli, til þess að komast að sama marki að lokum. Og þetta á sjer ekki hvað síst stað um fræðslumálin, á meðan ekki er búið að marka leiðina.

Þess vegna sje jeg ekki annað, en að við minnihlutamenn gætum borið fult traust til hv. frsm. meiri hl. sem fræðslumálastjóra, þó að okkur hefði greint meira á við hann um þetta mál en komið hefir á daginn. Mjer finst þessar athugasemdir hæstv. kenslumálaráðh. svo undarlegar og óskiljanlegar, að jeg get freistast til að halda, að honum hefði snúist hugur og að hann væri með þessu að reyna að búa sjer til útgöngudyr, til þess að veita öðrum manni fræðslumálastjórastarfið.

Þó að hæstv. ráðh. færi nú svona langt í aðdróttunum til okkar minni hl., þá get jeg ekki betur skilið orð hans við 2. umr., en að hann sjálfur sje mjög ósammála settum fræðslumálastjóra, hv. þm. V.-Ísf., og teldi á litlum rökum bygðar brtt. hans um samvinnuskólann. Þetta á kannske að skoðast sem fullkomið vantraust á hv. þm. V.-Ísf. sem fræðslumálastjóra af hálfu þeirrar stjórnar, sem setti hann til þess að gegna starfinu.

Jeg skil ekki, hvað hæstv. kenslumálaráðh. og fleiri hv. þdm. geta haft á móti brtt. hv. þm. V.-Ísf. Hjer er ekki um annað en bráðabirgðaákvæði að ræða. Þar stendur: „Samvinnuskólinn hefir rjett til að ganga í samband við samskólana, þegar stjórn Sambands íslenskra samvinnufjelaga óskar þess, enda sje þá kensla í almennum verslunarfræðum sameiginleg.“

Hæstv. ráðh. talaði um undarlega tortrygni, sem við minni hl. hefðum gagnvart þessu frv., og boðaði í því sambandi, að hann mundi leggja fyrir næsta þing frv. um skipun unglingafræðslunnar í landinu, og vildi víst með því útiloka alla tortrygni.

Það er náttúrlega gott og gleðilegt að eiga von á þessu. En jeg vildi þá óska þess, að með því frv. mætti honum takast að tryggja eins vel rjett sveitanna, hvað viðkemur unglingaskólunum, eins og honum hefir tekist, hvað Reykjavík snertir, með þessu samskólafrv.

Annars vildi jeg segja það, að tortrygni okkar er ekki ástæðulaus, eins og best sýndi sig hjer á dögunum við 2. umr. fjárl. í sambandi við stofnun húsmæðradeildar við Laugaskólann. Það mun víst flestum hv. þdm. í fersku minni, að í þeim umr. rjeðst einn af aðalstuðningsmönnum hæstv. stjórnar ekki aðeins á stærstu fjárveitinguna til húsmæðrafræðslunnar, heldur og á þá stefnu, er hann taldi, að ríkjandi væri um unglingafræðsluna yfirleitt og fylgt hefði verið hjer á þingi undanfarið. Það var hv. þm. Ak. (BL), sem notaði tækifærið til þess að hella úr reiðiskálum sínum yfir unglingaskólann í hans eigin hjeraði, sem sje Laugaskólann, sem talinn er þó að vera einhver efnilegasti og fullkomnasti unglingaskóli á landinu. Hv. þm. Ak. setti sig mjög á móti því, að stofnuð væri húsmæðradeild við skólann, og aðalástæðan fyrir því var sú, eins og hann sjálfur orðaði það, að hann væri móti öllu „auknu skólafargani“. Og á meðan slík orð falla frá einum aðalstuðningsmanni hæstv. stjórnar, jafnhliða því, að talað er um skipulagsleysi um stjórn Laugaskólans, sem þó er í besta lagi — og þetta alt er borið fram samhliða því, sem talað er um að leggja grundvöll undir bætta og aukna unglingafræðslu — þá finst mjer ekki undarlegt, þó að við sjeum tortryggir og látum okkur jafnvel koma til hugar, að þessi efling unglingaskólanna eigi ekki óskorað fylgi íhaldsflokksins. Annars var jeg hissa á því, hvernig hæstv. kenslumálaráðh. gat látið árás hv. þm. Ak. á unglingafræðslu landsins eins og vind um eyru þjóta. Það má segja, að oft væri þörf, en þ á var áreiðanlega nauðsyn að andmæla, er svo hörð orð voru höfð um mentamál sveitanna, og það sömu dagana sem verið er að leggja grundvöllinn að aukinni fræðslu landsmanna. Og þar sem hæstv. kenslumálaráðh. þagði við slíkri árás, þá er mjer næst að halda, að honum sje þetta mál ekki jafnmikil alvara og hann vill láta í veðri vaka.

Hæstv. ráðh. sagði, að við minni hl. hefðum í brtt. okkar þrætt frv. stjórnarinnar, og vildi af því draga þá ályktun, að við hefðum þó fallist á, að frv. væri vel undirbúið af hálfu stjórnarinnar. Það var nú óþarft fyrir hann að draga þessa ályktun af brtt. okkar, því þó að við, eftir því sem málið horfði, færum þessa leið, er ekki þar með sagt, að frv. okkar hefði orðið í þessu formi, hefðum við átt að semja það frá upphafi. Fyrir okkur vakir ekkert annað en að tryggja þeim skólum, sem þegar eru stofnaðir út um landið eða verða stofnaðir á næstu árum, sama rjett og þeim skólum í Reykjavík, sem þetta frv. nær til. Og þó við tækjum ekki fleiri skóla, þá var það af því, að við álitum þess ekki þörf, svona í bráð. Hitt væri mest um vert, að sú stefna, sem við vildum fylgja um unglingafræðslu sveitanna, væri mörkuð skýrum línum, enda auðveldast að bæta við, þegar erfiðustu sporin væru stigin. En það teljum við að sje gert, með því að samþ. brtt. okkar.