08.04.1927
Neðri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í C-deild Alþingistíðinda. (2828)

8. mál, samskólar Reykjavíkur

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Jeg vil þakka hæstv. kenslumálaráðh. fyrir yfirlýsingu hans um stjórnarfrv. um almenna unglingafræðslu á næsta þingi, sem mjer virðist þess eðlis, að hv. minni hl. geti með góðri samvisku tekið brtt. sínar aftur.

Jeg þarf ekki miklu að svara hv. frsm. minni hl., því að um kjarna málsins erum við sammála. Meiri hl. fylgir einmitt þeirri stefnu, að sem mestur jöfnuður komist á milli sveita og kaupstaða um fræðslumálin.

Annars var það ræða hv. þm. Ísaf., sem kom mjer til þess að kveðja mjer hljóðs.

Það hefir verið á það minst, að ekki hafi í tíma verið talað við stjórn samvinnuskólans um að sameina hann verslunarskólanum, svo að óþarft er að rifja það frekar upp nú, enda hefir verið vitanlegt, að forgöngu- og stuðningsmenn skólans hafa ekki óskað eftir þeirri sameiningu. Hinsvegar hefir hæstv. kenslumálaráðh. lýst því yfir, að samvinnuskólinn geti komist í þetta samband hvenær sem er og án þess að leggja fram stofnkostnað. Er því óþarft að deila frekar um þetta, nema þá að menn vildu nota það til að vekja illindi og tortrygni um þetta mál. Mjer var frá upphafi ljóst, að þetta samskólafyrirkomulag mundi komast inn á hættulegt tundurduflasvæði með því að taka verslunarskólann með. Jeg hefði í upphafi borið fram till. um að taka verslunarskólann út úr, ef jeg hefði haldið, að það gæti orðið málinu til bjargar. En jeg sá við nánari rannsókn, að sú leið mundi ekki verða til þess að auka þessu máli fylgi. Þess vegna bar jeg fram brtt. mína á þskj. 254 og vildi með henni tryggja það, að ekki yrði farið aftan að samvinnuskólanum með samþykt frv.

Síðari hluti brtt. minnar, sem hv. þm. Ísaf. leggur til að fella niður, snertir að vísu ekki samskólann, en getur þó á sínum tíma haft talsverða þýðingu, þegar leitað verður fjárveitingar handa samvinnuskólanum. Þegar leiða ætti það mál til lykta, gæti síðari liðurinn orðið til þess að draga úr þeim ofsa, sem annars kynni að standa um slíka fjárveitingu. Það er ekki síst vegna samskólans sjálfs, að jeg legg mikla áherslu á að fylgja því fast fram, að brtt. mín verði samþ.

Annars gladdi mig að heyra það í ræðu hv. þm. Ísaf., að hann og enda fleiri hv. Íhaldsmenn teldu sjálfsagt, að samvinnuskólinn hjeldi sínum styrk á meðan sambandið vildi halda honum sjerstökum utan við samskólafyrirkomulagið. Mín till. stefnir því í þá átt að undirbúa jarðveginn sem best fyrir væntanlega sameiningu og að fyrirbyggja alla tortrygni í garð samvinnuskólans á meðan hann verður rekinn með sjerstökum styrk úr ríkissjóði. Mín till. er fram borin vegna þess að málið komst inn á þetta tundurduflasvæði, þar sem mörgum þm. er örðugt að halda tilfinningum sínum og skynsemi í jafnvægi. Hún er útlátalaus, en þó til gagns, því jeg hygg, að með henni mundi auðveldara í framtíðinni að stýra samskólanum fram hjá ýmsum tundurduflum, sem annars kynnu að verða á leið hans; hjer er því ekki um annað að ræða en öryggisráðstafanir vegna framtíðarinnar. Þess vegna vænti jeg, að hv. þdm. skilji, af hvaða hvötum brtt. er fram komin og samþ. hana. Hún er skynsamleg og velviljuð ráðstöfun þessu máli til góðs og vegna málsins sjálfs.