08.04.1927
Neðri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í C-deild Alþingistíðinda. (2830)

8. mál, samskólar Reykjavíkur

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það skulu ekki verða mörg orð, en hv. frsm. minni hl. þarf jeg þó að svara að nokkru. Hann sagði, að það hefði verið mín skylda og hv. frsm. meiri hl. að koma með brtt. við brtt. þeirra, að því leyti sem þær eru óframbærilegar. En jeg verð að segja honum, að af því að jeg álít ekki það mál nægilega undirbúið á þessu þingi, þá teldi jeg ekki unt — í því annríki, sem nú er — að koma því við, án þess að málið drægist svo lengi, að það dagaði uppi á þinginu.

Annars er það dálítið einkennileg játning af hálfu hv. frsm. minni hl., að hann þurfi ekki að fara ítarlega út í ræðu hv. frsm. meiri hl. Hann hefir einmitt sýnt fram á, að tillögur minni hl. eru óframkvæmanlegar. Það væri þess vegna full ástæða fyrir hv. frsm. minni hl. að hrekja þetta, ef kostur er. En því er nú ekki að heilsa, því að till. eru óframkvæmanlegar, eins og þær liggja fyrir.

Um kennarafjöldann við samvinnuskólann vildi hann halda fram, að nauðsynlegt væri að hafa þá svo marga, til þess að tryggja þar góða „fag“-menn. En jeg held það sje ekki hægt að komast hjá því, ef sama regla skal gilda um hann og aðra skóla, að láta kennarafjölda fara eftir nemendafjölda. Hann viðurkendi, að það væru ekki nein ákvæði í till. þeirra um það, hvernig ætti að skipa kennarana, og áleit hægt að gera það með reglugerð. En slíkt er yfirleitt ákveðið með lögum, og er þá undarlegt að láta þennan skóla hafa sjerstöðu. Annars er auðsætt af þessum orðum, að það er S. Í. S., sem á að skipa kennara við þennan skóla; og þá sýnist mjer rjettast að segja það í lögunum sjálfum.

Hann kvaðst ekki vita, hv. frsm. minni hl., hvað S. Í. S. mundi segja, ef því hefði verið boðið upp á að koma í þetta skólasamband. (JG: Jeg sagðist ekkert hafa sagt um það). Þá vildi jeg biðja hann að gera svo vel að segja, hvað hann álítur um það. En mjer skilst það alveg vafalaust, að S. Í. S. hafi ekki viljað það. Fyrir því hefi jeg orð ekki ómerkari manns en hv. fræðslumálastjóra. Enda skildist mjer líka á hv. 2. þm. Eyf., að hann drægi ekki neina dul á það. Það sem hjer hefir verið gert, er ekki annað en það, að láta undir höfuð leggjast að spyrja aðila, sem maður var fyrirfram viss um, að ekki mundi kæra sig um samband. Annars skal jeg geta þess, til þess að taka af allan efa, að samvinnuskólinn er margvelkominn í þetta samband, þegar hann vill, og meira að segja með þeim kjörum fram yfir verslunarskólann, að hann þurfi ekki að leggja til neinn stofnkostnað.

Út af orðum hv. þm. Dal., að jeg væri ef til vill farinn að veiklast í þessu máli, þá verð jeg að segja, að jeg veit ekki, hvernig hann getur fundið það út, þar sem jeg er sammála hv. þm. V.-Ísf. um þetta frv. Og þó að jeg vilji taka fult tillit til orða hv. þm. Dal., þá tek jeg ekki svo mikið tillit til þeirra, að jeg snúist vegna þeirra. Hv. þm. (JG) áleit það ekki ástæðulaust, þótt hann sýndi tortrygni í þessu máli, vegna undirtekta um Laugaskóla mjer skildist frá hv. þm. Ak. Hann var að ræða um kvennaskóla eða ungmennaskóla fyrir konur; en hv. minni hl. hefir alveg gleymt að taka það inn í sitt frv. Svo að það kemur ekki þessu máli við. Annars man jeg ekki betur en að hv. þm. Ak. hafi lýst yfir því, að hann væri samþykkur þeim grundvelli, sem hv. þm. V.-Ísf. stakk upp á í fyrra viðvíkjandi ungmennafræðslunni. (BL: Rjett!). Það er því engin ástæða fyrir hv. þm. Dal. að tortryggja mig eða hv. þm. Ak. út af þeim ummælum, sem hann ljet falla um daginn um Laugaskólann. Það var af alt öðrum toga spunnið. En um minni hl. er það að segja, að hann hefir gleymt eða viljandi slept allri húsmæðrafræðslu í sínu nýja kerfi, sem hann ætlar að prjóna aftan við frv., sem fyrir liggur. En ef hann nú þykist hafa ástæðu til tortrygni út af því, að jeg hefi ekki mótmælt orðum hv. þm. Ak., hvað mættum við þá segja, sem höldum fram þessu frv., út af mótstöðu hv. minni hl., ef við vildum beita tortrygni?

Út af orðum hv. frsm. meiri hl. þarf jeg ekki mikið að segja. Jeg veit það, af því sem okkur fór á milli, að það er rjett, sem jeg sagði, að samvinnuskólinn skal vera velkominn í þetta samband, þegar hann vill. Og jeg skil ekki hans till. sem neina tortrygni í minn garð, en frekar á þann veg, að hann vilji eyða tortrygninni hjá sínum eigin flokksmönnum. Enda er þetta frv. alls ekki borið fram af minni hálfu til höfuðs samvinnuskólanum. Það eina, sem jeg er ósamþykkur hv. þm. V.-Ísf. um, er það, að jeg álít ekki, að hann ætti að gera samþykt þessarar till. að skilyrði um fylgi sitt við frv. Jeg lýsti yfir því, að jeg vildi ekki gera svo mikið úr henni. Jeg get ekki sjeð, að þetta atriði sje nema lítill brothluti af því, sem ber á milli meiri og minni hl. nefndarinnar. — Hv. 2. þm. Eyf. þarf jeg litlu að svara, því að hann tók mjög hóglega á málinu. En hann spurði, hvers vegna þetta mál gæti ekki beðið eftir ungmennafræðslunni í heild sinni. Vil jeg svara honum því, að þessu máli liggur meira á, vegna þess að það þarf miklu meiri undirbúning. Þótt svo færi, að við samþ. þetta mál á þessu þingi, þá verður það samt á eftir aðalmálinu, þótt það verði samþ. á næsta þingi. Það er vegna þess, hve margir aðilar eru hjer, sem þurfa að leggja fram fje, og þeir þurfa mikinn tíma til þess að safna fjenu. Þá fyrst er hægt að byrja á framkvæmdum, er allir aðilar hafa lagt fram það, sem þeir hafa skyldu til. En það er ekki hægt að búast við, að slík fjársöfnun byrji fyr en sýnt er, að Alþingi gangi að þeim skilmálum, sem hjer eru í boði.

Og þá er önnur ástæða, sem rekur eftir, en það er plássleysið í mentaskólanum. Það er nú orðið óhjákvæmilegt að leigja úti í bæ fyrir allmarga nemendur þess skóla. Það er svo komið, að jeg býst ekki við, að hægt sje að halda áfram á þeirri sömu braut, sem farin hefir verið undanfarin ár, án þess að finna ný ráð.

Mjer virðist ágreiningur um þetta mál ekki vera mikill. Hann er í rauninni ekki annar en sá, hvort þetta frv., sem hjer liggur fyrir, skuli samþ. nú eða látið bíða eftir lögum um ungmennafræðslu í landinu yfirleitt. En það eru þessar tvær sjerstöku ástæður fyrir að flýta þessu máli, sem jeg hefi nefnt — fjársöfnun aðila, sem Alþingi ræður ekki yfir, og plássleysið í mentaskólanum.