11.04.1927
Efri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í C-deild Alþingistíðinda. (2834)

8. mál, samskólar Reykjavíkur

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Þetta frv. hefir gengið í gegnum hv. Nd., og þó að allir væru ekki sammála um einstök atriði þess, hjelt það leiðar sinnar með mjög litlum. breytingum. Vænti jeg, að eins fari hjer, og leyfi jeg mjer að mælast til, að frv. verði vísað til hv. mentmn., þegar lokið er þessari 1. umr.

Út af spurningum hv. 1. landsk., þá get jeg vísað til þess, sem jeg sagði um málið í hv. Nd. Þar lýsti jeg því yfir, að stjórnin ætlaði sjer að leggja fyrir næsta þing lagafrv. um skipulag unglingafræðslunnar í landinu. Ástæðan til þess, að þessi leið var farin, að taka Rvík út úr nú, var sú, að svo margir aðilar standa að þessu máli hjer og eiga að safna fje, í þeim tilgangi, að samskólinn komist upp, en ekki hægt að vita nú, hvernig þeim tekst sú fjársöfnun. Mjer skildist, að hv. 1. landsk. teldi lengra gengið með þessu frv. um fjárframlag til þessara skóla en venja hefir verið um alþýðuskóla. En jeg held, að það sje gengið skemra. Hjer er t. d. vjelstjóraskólinn tekinn með, sem ríkið kostar alveg, og hann verður altaf dýr, vegna vjelahússins, sem hann þarf og ætlast er til, að verði bygt. Gert er ráð fyrir, að tillag ríkissjóðs til samskólabyggingarinnar nemi um 250 þús. krónum. En húsameistari ríkisins hefir áætlað, að vjelasalurinn fyrir vjelstjóraskólann gæti ekki kostað minna en í kringum 150 þús. krónur. Það er því ekki rjett, að með frv. sje lengra gengið en venja er til, enda viðurkendi fræðslumálastjóri, hv. þm. V.-Ísf., undir umr. í Nd., að skemra væri gengið.

Þá virtist hv. 1. landsk. lengra gengið en áður að því leyti, að kennarar við samskólann skuli skipaðir af stjórninni og að laun þeirra greiðist úr ríkissjóði. En þó að svo verði, veit jeg ekki, hvort svo langt er gengið sem hann vill vera láta, því að nú er það svo, að ríkið leggur fram 2/3 alls kostnaðar við skólana. Jeg get ekki sjeð, þó að skólakennararnir sjeu ráðnir af stjórninni og launaðir að mestu leyti af ríkinu, að það breyti miklu frá því, sem nú tíðkast um rekstur skólanna. Enda eru það svo margir aðilar, sem standa að samskólanum, að hann hlýtur að verða rekinn eins mikið af þeim og ríkinu. Annars mætti geta þess hjer, að mentmn. hv. Nd. feldi sig betur við það fyrirkomulag, sem stundið er upp á í frv., heldur en það, sem notast hefir verið við. Og væri gott að fá sömu yfirlýsingu frá mentmn. þessarar hv. deildar.

Jeg drap lítils háttar á það í upphafi ræðu minnar, hvers vegna þessu hefði verið flýtt, að taka Rvík út úr og bera fram þetta samskólafrv. En það má telja aðra ástæðu, sem einnig var þess valdandi, og það er hina miklu aðsókn að mentaskólanum, sem hefir farið svo vaxandi síðari árin, að skólinn verður að leigja húsnæði úti í bæ fyrir nemendur sína. Og að mentaskólinn yfirfyllist svona, stafar af því, að hjer vantar unglingaskóla. Foreldrar, sem vilja láta börn sín njóta framhaldsnáms, geta ekki látið þau annað fara en í mentaskólann. Þetta teygir líka fleiri inn á mentabrautina en holt er fyrir þjóðfjelagið. Margir unglingar eru svo skapi farnir, að þeim þykir leiðinlegt að skilja við fjelaga sína, eftir að hafa orðið þeim samferða gegnum neðri bekkina, og halda svo áfram, þó að þeir hefðu í rauninni ef til vill kosið annað fremur.

Þá spurði hv. 1. landsk., hvenær yrði bygt hús það, sem frv. nefnir. Því get jeg ekki svarað. Þarna er um marga aðila að ræða og tekið fram í frv., að ekki verði ráðist í bygginguna fyr en þeir hafi allir komið sjer saman. Alþingi er einn aðilinn og getur eitt ráðið því, hvenær af framkvæmdum verður. Þeir bjartsýnustu segja, að líklegt sje, að byrjað verði á byggingunni á næsta ári, en ekki vil jeg spá neinu um það. Hins má geta, að borgarstjórinn í Rvík, sem þessu máli er manna kunnugastur, telur, að ekki muni hægt að byrja á skólabyggingu þessari fyr en lokið er við að reisa nýja barnaskólann hjer í bænum. En úr því mundi hægt að byrja.

Þá spurði hv. 1. landsk., hvers vegna ekki hefði verið hægt að taka upp í frv. alþýðuskóla þá, sem hv. þm. Dal. og hv. 2. þm. Eyf. báru fram brtt. um við 3. umr. málsins í hv. Nd. Það var nú skýrt frá því þar, og meira að segja sjálfur fræðslumálastjórinn, hv. þm. V.-Ísf. benti flm. á, að þetta væri ekki hægt, vegna þess að það væri svo illa undirbúið, ekki nógu hugsað og komið alt of seint, auk þess sem einni fræðslugrein væri alveg slept, sem þó hefði sjálfsagt verið rjett að taka með. En það var húsmæðrafræðslan.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, og má þó vel vera, að jeg hafi gleymt að svara einhverju, sem um var spurt. En sje svo, geri jeg ráð fyrir, að hv. 1. landsk. muni minna á það, og reyni jeg þá að bæta úr því, eftir því sem hægt er.