11.04.1927
Efri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í C-deild Alþingistíðinda. (2836)

8. mál, samskólar Reykjavíkur

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg veit ekki, hvort hv. 1. landsk. er það nokkuð kærkomið, að fá upplýsingar í málinu. Hann byrjaði á því að staðhæfa, að straumhvörf hefðu orðið síðan Jón Magnússon forsrh. fjell frá. En eins og jeg tók fram áður, hefir stjórnin altaf talið það vafasamt, að rjett væri að gera að ríkisskólum þá skóla, er hv. 1. landsk. nefndi, svo að hjer er ekki um nein straumhvörf að ræða.

Jeg skal þá, vegna þeirrar nefndar, er fær mál þetta til meðferðar, svara því, er nokkru máli skiftir í ræðu hv. 1. landsk.

Hann spurði, hvort ekki væri ætlast til, að skólar í sveitum hefðu sömu hlunnindi og þessi skóli af hálfu ríkisins. Ójú, og þeir fá meira til, því að það ætti hv. þm. (JJ) að muna, að einn þann skóla verður ríkið að kosta að öllu leyti, og aðrir ungmennaskólar úti um land fá meiri styrk úr ríkissjóði en þessum skóla er ætlaður.

Þá hjelt hv. þm. því fram, að þetta fyrirkomulag, að hafa samskóla, mundi verða dýrara en núverandi fyrirkomulag, og tók þar til samanburðar Flensborgarskólann. Við greiðum nú þeim skóla 16 þús. kr. á ári. (JJ: Kennarar þar eru á lágum launum.) Dæmið er rangt hjá honum fyrir því, og jeg veit ekki, hvort það er svo eftirsóknarvert, að hafa kennara á 1200 kr. árslaunum. Hv. þm. gekk út frá því, að svo gæti farið, að 40 yrðu kennarar við þennan skóla eftir nokkur ár. Jeg skal ekkert deila við hann um þetta, en jeg geri harla lítið úr þeirri getgátu. Jeg skil ekki annað en það sje hægðarleikur fyrir fræðslumálastjóra að hafa þar hönd í bagga, en þetta gæti skilist sem vantraust hv. þm. á flokksbróður hans, núverandi fræðslumálastjóra, sem er frv. þessu fylgjandi, þótt það sje komið frá öðrum en honum.

Þá sagði hv. þm., að sumir skólar í sveit hefðu átt erfitt með að fá 2/5 hluta byggingarkostnaðar úr ríkissjóði. Jeg mótmæli þessu, því að þeir hafa allir borið jafnt úr býtum. En svo skildist mjer á hv. þm., að hann hjeldi því fram, að aðrir landshlutar yrðu að bíða eftir Rvík með að fá ungmennaskóla. Þetta er ósatt. En þegar á að fara að koma á nýju kerfi um ungmennafræðsluna, þá verður Rvík ekki sett hjá, þar sem þeir, er kenslunnar eiga að njóta, eru mörgum sinnum fleiri hjer heldur en í ýmsum sveitum.

Þá sagði hv. þm., að stjórnin hefði brotið lög á Árnesingum í fyrra, með því að veita ekki fje til hins fyrirhugaða skóla þar. Hann veit þó vel, hv. þm., að það komu áskoranir frá sýslubúum um að fresta málinu, og þar sem skólinn á að verða hjeraðseign, fæ jeg ekki skilið, hvernig hv. þm. getur haldið því fram, að hjer hafi verið framið lögbrot. Það þurfti að fresta málinu, vegna þess hvað mikill hiti var kominn í það — og það ætti hv. þm. ekki að vera ókunnugt um, því að hann lagði sitt lið til þess að gera þetta mál að æsingamáli. Og það var verst fyrir skólahugmyndina, að hafa andúð fjölmargra sýslubúa.

Enn spurði hv. þm., hvort hægt væri nokkuð að spara við mentaskólann, og get jeg svarað því, að jeg geri ráð fyrir, að það verði hægt og verði gert. Það er erfitt að vísa nemendunum frá skólanum, meðan ekki er hægt að vísa á neina aðra mentastofnun. En þegar hún er fyrir hendi, er það miklu hægra. Þá vildi hv. þm. halda því fram, að heimavistirnar mundu auka aðsókn að mentaskólanum. En jeg held nú, að það verði ekki. Það má vera, að fleira komi af sveitapiltum; þeim eru þær ætlaðar, og um þá er það að segja, að það er vanalega hin mikla mentaþrá, sem knýr þá af stað til námsins, og yfirleitt eru þeir efnilegustu mennirnir, svo að það er fengur að fá þá í skólann. — Þá talaði hv. þm. um fjárframlag til landsspítalans og hjelt, að hann yrði að sitja á hakanum, meðan verið væri að koma samskólanum upp. En það stendur í frv., að byggja skuli yfir samskólana, þegar fje er veitt til þess í fjárlögum. Hann gerir lítið úr Alþingi, ef honum getur dottið í hug, að þingið fari að veita fje til þessa, ef það getur ekki staðið við samninga sína um byggingu landsspítalans. Nei, það verður auðvitað staðið við gerða samninga um byggingu landsspítalans, meira að segja, ef hart er í ári, er heimilt að taka lán til þess að geta það.

Um stofnkostnaðinn er það svo, að ríkið hefir greitt 2/5 af stofnkostnaði skóla út um land. (JJ: Ekki í Flensborg.) Nei, en það var gjöf. Ætlast hv. þm. til, að ríkið endurgreiði erfingjum gefandans nokkuð af þeirri gjöf? (JJ: Bæta við skólann.) Um það liggur engin beiðni fyrir.