08.03.1927
Neðri deild: 24. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í C-deild Alþingistíðinda. (2854)

53. mál, strandferðaskip

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Það má rjettilega svo að orði kveða, að gamall gestur sje á ferðinni, þar sem er frv. þetta, um byggingu og rekstur strandferðaskips, því að strandferðamálið hefir verið hjer á dagskrá síðan fyrir aldamót, eða síðan strandsiglingar hófust. Að vísu var ekki gerð alvarleg tilraun um að koma á innlendum strandferðum fyr en laust fyrir stríðsbyrjun, eða þegar tilraunin var gerð til þess að kaupa Austra og Vestra. Sú tilraun mistókst, illu heilli, þótt um eitt skeið liti vel út með hana, en þingið 1913 ákvað þá að útvega tvö strandferðaskip og láta þau annast strandferðir umhverfis land, ef ekki næðust samningar við Eimskipafjelag Íslands um að það tæki að sjer ferðirnar með tveim skipum gegn 400 þús. kr. framlagi til þeirra, eða byggingarinnar, úr ríkissjóði.

Þingið 1913 hafði fyrir augum svipaða tilhögun um strandferðirnar eins og meðan Thorefjelagið annaðist þær og hafði hjer þrjú skip í strandferðum, eða sjerstakt skip til þess að sigla á hinar vandgæfari smáhafnir austan og norðan lands. Þingið batt fjárveitingu og framkvæmd laganna við árið 1916, og skyldu skipin þá komin í strandferðir. En svo kom stríðið og breytti öllu þessu, svo að lögin frá 1913 komust ekki í framkvæmd og engar reglulegar strandferðir fyr en löngu seinna, eða þá fyrst, er ráðist var í það 1917 að kaupa Sterling. Það var þá líka stríðsástandið, sem olli því, að ekki var útvegað nema þetta eina skip. Er því framkvæmd laganna frá 1913 ekki komin lengra enn í dag en að við höfum aðeins eitt strandferðaskip, þar sem Esja er, en hún kom í staðinn fyrir Sterling, eftir að það skip týndist.

Það, sem stefna verður að, er að koma strandferðunum í líkt horf eða ekki lakara en þær voru í fyrir stríð. Því að þótt nokkuð hafi að sumu leyti áunnist með strandferðum millilandaskipanna, þá tekur það helst til stærri hafna. Millilandaskipin eru ekki fleiri nú en þau voru áður, þegar Thorefjelagið og „Sameinaða“ höfðu 5–6 skip í förum hingað, og stundum fleiri. Hjer hefir því í raun rjettri orðið afturför í samgöngum með ströndum fram, síðan fyrir stríð.

Árið 1925 var skipuð milliþinganefnd til þess að athuga þetta mál, og skilaði hún áliti sínu á síðasta þingi. Voru tillögur hennar í 5 þáttum og breytilegar, svo að Alþingi gæti valið úr eftir ástæðum. Aðaltillögurnar lúta að skipakaupum, en Alþingi fjelst á síðustu till., sem var um það, að leigja skip að haustinu til strandferða með Esju. Var það svo gert, en af því varð sáralítill árangur, vegna þess að skipið var ófullnægjandi, bæði um stærð og útbúnað, og sigldi áætlunarlaust. Kom því stundum fyrir, að menn frjettu fyrst um ferðir þess, þegar það var komið fram hjá viðkomustöðunum og erindin orðin eftir.

Það er oftlega deilt um það, hvort þörf sje á auknum strandferðum, og halda sumir því fram, að millilandaskipin bæti svo úr samgönguþörfinni, að eitt strandferðaskip í föstum ferðum nægi. En eins og jeg áður tók fram, eru millilandaferðir nú ekki fleiri eða meiri en þær voru fyrir stríð, enda eru skipin nú færri heldur en þau voru þá. Og hitt skiftir þó mestu máli, að millilandaskipin sigla aðallega á þær hafnir, þar sem mest er flutningsvon, en smáhafnirnar verða útundan. Jafnvel þær hafnir ýmsar, sem höfðu hálfsmánaðar skipaferðir fyrir stríð, hafa á síðasta ári fengið viðkomur á 4–6 vikna fresti. Og reyndin er sú, að því tíðari sem skipaferðir eru til stærri hafnanna, því lakar verða minni hafnirnar settar, hlutfallslega. En það sem mestu skiftir í þessu efni er einmitt að koma þeim í reglubundið og stöðugt samband við hafnarstaðina stærri. Jeg vil t. d. benda á, og held því fram í fylstu alvöru, að öruggasta ráðið til þess að hindra útstreymi fólks úr sveitunum sje einmitt að láta það finna sem minst til einangrunar og greiða götu allra viðskifta með samgöngum. Samgöngur á landi kosta bæði mikið fje og eru erfiðar, og um mörg hjeruð landsins er það svo, að ekki getur verið um að tala neinar verulegar samgöngubætur nema á sjó.

Jeg veit það fyrirfram, að aðalmótbárurnar gegn frv. þessu verða eins og áður þær, að ekki sje til fje til að ráðast í skipakaupin. En því er til að svara, að upphaflega áformið frá 1913 var miðað við lántöku, og hjer er því, eins og oftlega áður, ráðgert að nota lán í bili. Það er ekki viðurhlutameira í þessu máli heldur en ýmsum öðrum. Jeg vil ekki fara að bera þetta litla frv. saman við annað frv., sem fram er komið í þinginu og ráðgerir margfalt stærri lántöku, gerir ráð fyrir miljónaláni vegna járnbrautarlagningar austur yfir heiði. Sú samgöngubót er vissulega dýr, og hún tekur ekki nema til lítils hluta landsmanna, en þessi samgöngubót, sem hjer er farið fram á, kemur öllum landslýð að notum.

Jeg álít ekki þörf á að fjölyrða mjög um þetta mál, því að á síðasta þingi var flest tekið fram, sem þurfti, þessu efni viðvíkjandi. Nokkrir þm., sem e. t. v. eru þessu máli ekki fylgjandi, hafa látið svo um mælt, að fáar fundarsamþyktir hafi komið fram, sem að þessu hafi lotið. En slíkar samþyktir hafa, eins og vænta má, nær því undantekningarlaust komið frá hinum afskektari sveitum, þar sem fæstir þingmálafundir eru haldnir. Kauptúnin stærri finna lítið til einangrunar og bera því síður fram óskirnar um auknar strandferðir. Millilandaskipin fullnægja að svo miklu leyti þörfum þeirra.

Af því að þetta er 1. umr., mun jeg ekki fara frekar út í málið. Jeg býst við, ef það kemst til 2. umr., að tækifæri verði til að líta á það frá fleiri hliðum síðar og athuga mótbárur.