08.03.1927
Neðri deild: 24. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í C-deild Alþingistíðinda. (2855)

53. mál, strandferðaskip

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg tók ekki eftir, að hv. flm. óskaði eftir að máli þessu yrði vísað til nefndar. Jeg legg því til, að því verði vísað til samgmn. Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til að ræða málið við 1. umr. Eins og hv. flm. tók fram, var það allmikið rætt í fyrra, og því minni ástæða til að ræða það ítarlega nú. — Viðvíkjandi skipinu, sem fengið var til aðstoðar Esju s. l. haust, skal jeg taka það fram, að ekki var kostur á að fá betra skip. Framkvæmdastjóri Eimskipafjelagsins gerði það sem hægt var í því efni, svo að það er ekki hægt að ásaka stjórnina fyrir þetta. Að skipið hafi siglt áætlunarlaust, er ekki rjett. Áætlun var samin og birt, áður en ferðir hófust.