10.03.1927
Neðri deild: 26. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í C-deild Alþingistíðinda. (2858)

53. mál, strandferðaskip

Þorleifur Jónsson:

Jeg hafði ekki hugsað mjer að þurfa að taka til máls um þetta frv. við þessa umr. Hv. aðalflm. (SvÓ) hefir talað svo vel fyrir því, að jeg hefi engu þar við að bæta. Jeg hjelt líka, að frv. mundi ekki mæta neinni sjerstakri mótstöðu við þessa umr., heldur yrði því leyft að ganga hljóðalaust til 2. umr. og samgmn. En þá koma tveir hv. þm. og hefja harða hríð á móti frv., sjerstaklega hv. þm. V.-Sk. (JK), er talaði helst um aukaatriði, er koma þessu máli ekkert við.

Jeg ætla nú ekki að fara neitt út í aðalmálið að þessu sinni, en vil svara hv. þm. V.-Sk. nokkrum orðum. Aðalefni ræðu hans var að sýna fram á, að bátastyrkirnir væru misnotaðir, og dró dæmi af Hornafjarðarbátnum.

Hv. þm. V.-Sk. byrjaði með því að tala um það, hve mikið fje færi til samgangna á sjó, um 350 þús. kr. Svo sagði hann, að rjettara væri að athuga áður en bætt væri við þann kostnað, hvort öllu því fje sje vel varið. — Og þá kom hann strax að Hornafjarðarbátnum og nefndi hann sem dæmi um misnotkun fjárins. Vildi hann og jafnframt sýna, að ekki væri það Alþingi að kenna, að Hornafjörður væri hafður einn útundan, eins og allir vita að hann er, því að það hefði lagt til Austfjarðabátsins 8000 kr., heldur hefði verið farið gálauslega og ráðleysislega með bátastyrkinn, og það væri Hornfirðingum að kenna. Styrkurinn kæmi ekki að gagni sýslunni, af því að sýslunefndin rjeði meðferð styrksins, og hún veitti hann tveimur atvinnurekendum. Honum væri ennfremur ekki rjett skift, því að til vetrar- og vorferða hafi aðeins verið veittar 3000 kr. Þórhalli Daníelssyni, en kaupfjelagið hafi fengið 5000 kr. fyrir haustferðirnar. En þetta er rangt; styrknum var skift jafnt milli hlutaðeigenda. Þórhallur fjekk 4 þús. og kaupfjelagið 4 þús. Svo hefir það líka ætíð verið, að styrknum hefir verið skift til helminga. Mjer finst þetta vera slæm aðdróttun, bæði til oddvita sýslunefndar, Gísla Sveinssonar sýslumanns, og sýslunefndarinnar, að báðir þessir aðilar sjeu samtaka í því að fara illa með opinberan styrk og verja honum þannig, að hann verði ekki sýslubúum að notum. Mjer finst ekki vera hægt að taka þessu með þökkum. Vissulega hefir sýslunefndin einmitt álitið, að styrksins yrðu mest not á þennan hátt. En það, sem jeg aðallega hjó eftir hjá hv. þm. (JK), var það, að hann hefði ekkert að athuga við annan hluta styrksins en þann, sem kaupfjelagið fjekk, svo að jeg ætla að taka þann hlutann til athugunar.

Hv. þm. sagði, að þær ferðir, sem kaupfjelagið hefði haldið uppi, hefðu ekki fullnægt sýslubúum. Jeg skal þá geta þess, að síðastliðið haust hafði fjelagið á leigu mb. „Faxa“ til ferða milli Hornafjarðar og Fáskrúðsfjarðar aðallega, og kom báturinn á alla firði milli Seyðisfjarðar og Hornafjarðar. Fór „Faxi“ 5 ferðir í okt. og nóv., og þori jeg að fullyrða, að hann var látinn koma á allar hafnir á þessu svæði, þar sem þörf var að hann kæmi, hvort heldur til að taka fólk, hvaðan sem kom og hvert sem það fór, eða til að taka farangur, svo að hans urðu fult eins mikil not eins og þó að hann hefði siglt eftir fastri áætlun, eða jafnvel meiri. Því að með þessu móti var ferðum bátsins aðallega hagað eftir þörfum sýslubúa. Báturinn flutti allar haustvörur frá Hornafirði til Fáskrúðsfjarðar og tók vörur á öllum fjörðum, hvar sem þurfti með. Auk þessara 5 ferða ljet kaupfjelagið bát fara 12 ferðir innan sýslu til flutninga, 5 ferðir til Suðursveitar og 7 ferðir til Lóns. Þar sem samgöngur eru eins erfiðar og í Skaftafellssýslu, engir vegir út í fjarsveitirnar, ófær vatnsföll o. fl., þá er hin mesta þörf á því, að greiða fyrir flutningum innan sýslunnar á sjó, og það var gert á þennan hátt. Svona var það árið 1926. Árið 1925 var styrkurinn til Hornafjarðarbáts 5 þús. kr., og jafnt skift milli hlutaðeigenda af sýslunefnd. Kaupfjelagið ljet þá fara 8 ferðir milli Austfjarða og Hornafjarðar, og var komið á flestar hafnir milli Hornafjarðar og Seyðisfjarðar. — Nei, það er einmitt undravert, hve miklum samgöngum hefir verið haldið uppi með ekki meiri styrk en þessum. Og jeg skil ekki, að nokkur sýslubúi geti borið annað en að ferðunum hafi verið hagað þannig, að þær yrðu að sem mestum notum öllum, sem á þeim þurftu að halda.

Jeg skora nú á hv. þm. V.-Sk. (JK) að segja, hver hafi sagt honum, að ferðunum hafi verið illa hagað. Jeg skil ekki, að hann hafi sjálfur nokkra tilhneigingu til að vilja spilla fyrir styrk til okkar. En rjett er, að hann komi með þann mann í dagsljósið, sem hefir frætt hv. þm. um, að það sje eiginlega kaupfjelaginu að kenna, hve slæmar samgöngur við höfum.

Mjer skildist á hv. þm., að hann teldi, að betra væri að veita einhverju útgerðarfjelagi styrkinn; það kæmi sýslubúum betur að liði. Það getur nú vel verið, þótt jeg telji, að honum yrði þá ekkert betur varið en þótt sýslunefndin hafi hann í sínum höndum. Útgerðarfjelagið „Faxi“ hefir nú sótt um ferðirnar í ár og fer fram á 8 þús. kr. styrk. eins og verið hefir. Áætlun liggur fyrir. Fjelagið hygst byrja ferðir sínar 1. mars og fara 4 beinar ferðir milli Hornafjarðar og Seyðisfjarðar frá því í mars og þangað til í maí. Þeim ferðum á að haga með tilliti til fiskflutnings og útgerðarinnar, eins og gert hefir verið áður. Auk þessara ferða ætlar svo fjelagið að láta bátinn fara 3–4 strandferðir á sama tíma. Svo á báturinn að hætta ferðum 25. maí og byrja aftur 1. okt. og fara á tímabilinu 1. okt. til nóvemberloka 5 ferðir milli Fáskrúðsfjarðar og Hornafjarðar, með viðkomu á ýmsum höfnum. Þetta er svipað og verið hefir áður. Nú get jeg fullvissað hv. þm. V.-Sk., að þótt aðrir fengju þessar ferðir, kæmi styrkurinn alls ekki betur að notum, nema síður væri, og ekki mundi „Faxi“ eða aðrar slíkar bátaútgerðir taka að sjer flutningaferðir í Lón og Suðursveit, ásamt ferðum milli Hornafjarðar og Austfjarða, án viðbótarstyrks, sem heldur er ekki von, því hentast er að nota til þess smærri báta, sem heima eiga í Hornafirði. Þótt jeg segi þetta, er jeg ekki neitt að mæla á móti umsókn „Faxa“.

Þá talaði hv. þm. um það, að bátarnir sendu engar skýrslur og væri óforsvaranlegt að veita þeim styrk, er svo væri. Ef hjer er átt við „Faxa“, þá vil jeg geta þess, að mjer er kunnugt um það, að kaupfjelagið hefir ætíð sent skýrslu, að afloknum ferðum, til sýslumannsins, og hann svo aftur til stjórnarráðsins. Skýrslur þessar eru vottaðar af óvilhöllum mönnum. Jeg hefi hjer fyrir framan mig skýrslu um árin 1925 og 1926; hirti ekki um að taka fleiri, því að þær eru allar til í stjórnarráðinu, og hefir styrkur ætið verið veittur eftir þeim, þangað komnum.

Hitt er annað mál, að styrkurinn er alls ekki fullnægjandi fyrir Hornfirðinga, hver sem með hann fer. Þær ferðir, sem nú eru, eru aðeins þær nauðsynlegustu til að flytja að og frá verstöðvunum á vorin og landafurðir að og frá á haustin. En svo höfum við engar vissar ferðir frá því í maí og fram í okt. Það er öllum kunnugt, að Esja er of stór fyrir Hornafjörð; og þegar hún kemur, fer hún aðeins inn í ósinn. Þar er mikill straumur, en viðkoma utan óss er neyðarúrræði og notast aðeins til þess að koma fólki að og frá borði. Upp- og útskipun er þar ómöguleg. Jeg álít, að væri minna skip í förum, gæti það komist lengra inn í fljótið.

Jeg ætla að þessu sinni ekki að fara út í aðalatriðið; vildi aðeins bera blak af sýslubúum gegn þeirri ásökun, að þeir hafi misnotað styrkinn.