10.03.1927
Neðri deild: 26. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í C-deild Alþingistíðinda. (2859)

53. mál, strandferðaskip

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Við fyrri hluta umr. um þetta frv. á þskj. 72, gerðust tveir hv. þm. til þess að mæla á móti því, þeir hv. þm. V.-Sk. og hv. þm. N.-Ísf. Hinum fyrri hefir hv. þm. A.-Sk. svarað, svo að jeg þarf ekki að víkja að honum sjerstaklega. En að því leyti sem mótbárur þeirra andstæðinganna eru hliðstæðar, þá hlýtur svar mitt að snerta báða. Báðir andmælendur bygðu á líkum ástæðum, þótt misjöfn áhersla væri á þær lögð, og voru þær aðallega þrjár: Fyrsta ástæðan var sú, að rekstur strandferðaskipanna ætti að vera í höndum Eimskipafjelags Íslands, en ekki ríkissjóðs. Ætti því fjelagið, skildist mjer, að hafa forgöngu í málinu, en landsmenn að bíða, þangað til því fyndist málið tímabært, og aðhafast ekkert á meðan. Önnur ástæðan var sú, að framtíðarskipulagið yrði að vera það, að nota mótorbáta til strandferða, en ekki gufuskip, og mundu þeir reynast haganlegri. Þriðja ástæðan — og sú þyngsta á metunum, að þeirra dómi — var sú, að kostnaðurinn af skipakaupum yrði ofvaxinn ríkissjóði og að tekjuhalli, þegar bætt væri skipi við Esju, yrði svo mikill á strandferðunum, að hann yrði ríkissjóði algerlega um megn. Þessu fylgdu svo olnbogaskot frá hv. þm. N.-Ísf., sem ekkert þarf um að hugsa.

Viðvíkjandi 1. ástæðunni vil jeg minna á það, að lögin frá 1913 gerðu ráð fyrir því, að Eimskipafjelagið fengi 400 þús. kr. fyrir tvö strandferðaskip og tæki að sjer ferðirnar. En það hafnar boðinu. Mjer þykir sennilegt, að svo færi enn, að það vildi ekki líta við 400 þús. kr. úr landssjóði, þótt boðnar væri, fyrir 2 skip til strandferða, jafnvel ekki upphæðinni tvöfaldri. Og það, sem aðallega stendur í vegi fyrir því, að Eimskipafjelagið geti eða vilji rækja strandferðirnar, er það, að fjelagið er einstakra manna eign og mundi litla hagnaðarvon eiga í strandferðum. Það verður að hugsa um hag hluthafanna og reyna að skila þeim arði. Þess vegna er engin von til, að það vilji taka að sjer strandferðirnar og áhættu af þeim, jafnvel þótt álitlegur styrkur fylgdi. Það er því aðeins til þess að drepa málinu á dreif, að vera að bollaleggja um svo fjarlæga möguleika. Og þótt Eimskipafjelagið tæki einhverntíma að sjer þessar ferðir, þá má samt ekki láta framkvæmdir í strandferðamálinu bíða þess vegna.

Önnur viðbáran, sem fram kom hjá báðum, framtíðarskipulagið með vjelbátasiglingar, virðist mjer enn fráleitara. Þessir farkostir voru reyndir til þrautar á stríðstímanum, þegar Sterling ein var til ferða, og þó stundum í utanlandssiglingum höfð. Ferðir þeirra voru yfirleitt takmarkaðar við stutta kafla af ströndinni, og þóttu neyðarkostur fyrir mannflutninga, enda skortir þá og hefir altaf skort farþegaútbúnað. Ferðir þeirra fyrir utan andnes og á úthafsleiðum, einkum að vetri, eru alls ekki sambærilegar við samgöngur annara þjóða. Og þeir, sem hafa reynt þá á þeim leiðum, vita, að það er þjóðfjelaginu til minkunar að bjóða slíka farkosti til mannflutninga að vetrarlagi, að jeg ekki nefni meðferð sjúklinga, sem með þeim ferðast. Annað mál er það, að slíka báta má vel nota t. d. á Ísafjarðardjúpi, Eyjafirði og annarsstaðar innanskerja, þar sem skamt er milli hafna og sjór kvikulaus.

Hafi nú hv. andmælendur haft fyrir augum vönduð vjelskip, svo sem ,diesel‘-skip, í stað gufuskipa, þá er öðru máli að gegna. En þannig skildi jeg þá ekki, heldur svo, að þeir ætluðu vjelbátafleytum, líkum og verið hafa hjer, að annast ferðirnar. Ætti hinsvegar að hugsa um vjelskip með dieselvjel í stað gufuskips, þá mundi vart kostnaðurinn verða að því minni. Jeg verð því að líta á þessa ástæðu eins og fyrirslátt einan, og getur þetta ekki verið fram borið í fullri alvöru.

Þriðja mótbára hv. þm. gegn frv. er kostnaðaraukinn, sem skipkaupin og reksturinn mundi hafa í för með sjer. Vitanlega er hann talsverður. Það gengur enginn að því gruflandi. Eftir brjefi, er jeg hefi frá Emil Nielsen framkvæmdastj., dags. 15. mars 1926, út af fyrirspurn, er hann gerði til „Flyde-dokken“ um skip eins og það, er hjer um ræðir, er áætlað, að skipið, með 2000 teningsfeta kælirúmi og albúið fargögnum, mundi kosta 489 þús. kr. Í áliti milliþinganefndarinnar 1925 var gert ráð fyrir, að tekjuhalli á slíku skipi yrði um 160 þús. kr. á ári. Við þessar tölur verður að miða. Þetta eru háar upphæðir, en ekki hærri en ýmsar aðrar, sem lagt er til að veittar verði. Hjer er lagt til að veita öllum landshlutum þau þægindi og mikilsverða samgöngubót, sem fæst með hentugu strandferðaskipi, og þótt árlegur rekstrarhalli yrði 160 þús. kr., sem óvíst er þó að verði, þegar skipulegar og tíðar ferðir komast á, þá mundi því fje vel varið. Yfir hálfa miljón króna eru nú veittar til vegalagninga á ári á mjög takmörkuðu svæði, sem þó kemur ekki að almennu gagni fyr en eftir tugi ára. Nefna má aðrar stærri upphæðir, sem lagðar eru fram í þarfir alþjóðar og engan beinan arð færa ríkissjóði. Jeg nefndi eina um daginn og gæti nefnt fleiri, ef þörf væri á. En úr því að hv. þm. N.-Ísf. fór að tala um þetta eins og strandferðirnar ættu að vera gróðafyrirtæki, þá verð jeg a. m. k. að minna hann á það, að frá upphafi hefir orðið að gefa mikið með þeim. Þær hafa rjettilega verið taldar þjóðþrifafyrirtæki, en ekki gróðafyrirtæki.

Hv. þm. nefndi eitt dæmi um tap á strandferðum, sem átti víst að vera mjög sannfærandi, en um leið olnbogaskot til mín. Hann tók Mjóafjörð til dæmis og sagði, að á síðasta ári hefði Esja farið þangað 10 sinnum og fengið í farmgjöld 310 krónur (JAJ: 305 kr.). Jeg hefi ekki rannsakað þetta mál og ekki talið saman, hve mikil farmgjöld skipið hefir fengið fyrir flutning þangað og þaðan. Geri jeg ráð fyrir því, að þessi upphæð sje rjett talin hjá hv. þm. En þessi skýrsla hans er þó í mesta lagi villandi; hún er aðeins lítið brot af sannleikanum. Esja kemur á Mjóafjörð vegna pósts og farþega, eins og margar líkar hafnir. Flutningur þangað eða þaðan er sáralítill. Millilandaskipin skila þangað innfluttum vörum, og innlendar afurðir eru sendar að miklu leyti beint til útlanda. Það er því ljóst, að Esja kemur þarna ekki vegna flutninga, heldur vegna pósts og farþega, og af því hljóta aðaltekjur hennar að vera á slíkum höfnum. Hafi nú farmgjöld Esju næstl. ár numið 310 kr. frá Mjóafirði og þangað, þá er vafalaust, að mannflutningur hefir numið miklu meira, jafnvel helmingi meira, en með því væri sannað, að viðkomur skipsins þarna hefðu verið útgerðinni skaðlausar, því að 10 viðkomur skipsins þar geta ekki kostað meira en 750 kr., eins og síðar skal sýnt, og ef 310 kr. hafa goldist í farmgjöld, þá efa jeg ekki, að fargjöldin samsvara mismuninum.

Annars er það ósannað mál, að Esja skaðist mest á því að koma á smáhafnir, ef greiðfærar eru og lítið úr leið. Skal jeg þar taka Mjóafjörð aftur til dæmis, af því að hv. þm. (JAJ) var svo vænn við mig að draga hann inn í umræður. Frá beinni siglingaleið milli Norðfjarðar og Seyðisfjarðar inn að afgreiðslunni í Mjóafirði eru rösklega 4 sjómílur, eða um 9 sjómílur krókurinn fram og aftur. Þá vegalengd fer Esja á einni klst. Á Mjóafirði varpar hún aldrei akkerum, heldur kemur altaf bátur á móti henni út í fjörðinn og tekur við farþegum og pósti, og flutningi, ef nokkur er. Er því áreiðanlega nógu hátt reiknað, að viðkoman á Mjóafirði tefji skipið um 1–1½ klst. í hvert skifti. — Nú kostar rekstur skipsins um 1200 kr. á sólarhring eða 50 kr. um klukkustundina. Kostnaðurinn við að láta Esju koma við á Mjóafirði verður því ekki meiri en 50–75 kr. í hverri ferð. Í mörgum tilfellum fær skipið áreiðanlega þessa upphæð greidda, og jafnvel stundum meira. Það er því fráleit fjarstæða að tala um stórtjón af viðkomum á svona stöðum, en þessu líkt er háttað um margar aðrar smáhafnir á Austfjörðum, sem og Norðurlandi, sem lítið eru úr leið. En þó að strandferðaskip kæmi við á þessum stöðum fyrir aðeins hálft kaup, þá væri það meira en skylt, eftir minni skoðun. Við smáhafnirnar búa menn, sem fulla þörf hafa samgangnanna og oft leggja sinn ríflega skerf til ríkis þarfa, en njóta oft lítilla eða engra fríðinda frá ríkinu, nema ljelegra strandferða og strjálla, og oftast eru slíkir staðir þó einangraðir af vegleysum. Þótt hv. þm. N.-Ísf. vilji bjóða afkomendum okkar í 3. og 4. lið að þjóta í bílum um andnesin, þá gagnar það núlifandi kynslóð lítið. Það er vafalaust, að mannsaldrar líða þangað til bílvegir eru komnir um öll andnes á Austurlandi. Þess vegna eru svona tylliboð hjegómi einn og rugla aðeins málið. Miklu hefði verið nær sanni að benda á loftsiglingar; þær eiga varla eins langt í land eins og bílvegir um fjalllendin torsóttu.

Að lokum vil jeg aðeins minna á, að hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) og V.-Sk. (JK) voru í samgmn. á síðasta þingi, og bar sú nefnd fram till. til þál. um leigu á strandferðaskipi. Í greinargerð fyrir till. (þskj. 60) standa þessi orð, fyrir munn allra nefndarmanna töluð: „Vjer álítum að vísu, að stefna beri að tíðari og meiri strandferðum en fengist geta með Esjuferðum og leiguskipi að haustinu, og að rekstur þeirra geti ekki haganlegur orðið fyr en aðgreindir eru að mestu vöruflutningar og flutningur pósts og farþega og hentugt, innlent flutningaskip fer strandferðir ásamt Esju ....“ (TrÞ: Heyr!). Get jeg ekki betur fundið, en að með þessum orðum lýsi þeir sig sammála okkur flm. frv., og lít jeg á þessi orð sem mikilsverðan stuðning við okkar mál. Jeg veit, að þessir hv. þm. (JAJ og JK) hafa fult leyfi til að skifta um skoðun, sem þeir nú virðast hafa gert, en þeir verða þó að hafa til þess sæmilegar ástæður og frambærilegar.

Jeg veit, að hv. þm. þykjast nú hafa þörf fyrir að svara einhverju, og vil jeg ekki tefja hv. þd. með lengra máli. En óneitanlega hefði mjer fundist, að málið hefði mátt ganga með minni hávaða til nefndar, og aðfinslurnar eins getað komið eftir að hún hafði athugað það.