20.04.1927
Neðri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í C-deild Alþingistíðinda. (2866)

53. mál, strandferðaskip

Frsm. minni hl. (Jón Ólafsson):

Eins og hv. frsm. meiri hl. hefir tekið fram, höfum við ekki getað orðið samferða í þessu máli. Svo mikið skilur okkur, að hv. meiri hl. virðist fara beint norður, þar sem við förum í suður. Við leggjum sem sje til, að frv. þetta verði felt. En jeg sje á nál. á þskj. 295, að þar kemur þó fram sú gætni í fjármálum, sem jeg átti von á, einkum hjá hv. 1. þm. Rang. og reyndar öllum meiri hlutanum, sem sje sú, er liggur í orðunum, að ekki megi dragast lengi að fá þessa samgöngubót. Minni hl. getur að nokkru leyti tekið undir þetta. Okkur finst æskilegt, ef hægt væri að láta þetta ekki dragast lengi. Hins vegar álítum við enga knýjandi nauðsyn að hrinda þessu máli í framkvæmd strax, því að samgöngur okkar á sjó eru nú svo viðunandi, að annað er miklu meira aðkallandi. Við í minni hl. viljum fyrst og fremst gera okkur grein fyrir því, sem sjálfsagt er í þessu máli, nefnilega, hvort við höfum ráð á að taka fje frá öðrum framkvæmdum til þessa fyrirtækis. Við höfum komist að þeirri niðurstöðu, að ýmsar samgöngubætur sjeu miklu meira aðkallandi, sem engin efni eru til að framkvæma, af því að óeðlilega mikið fje fer í einstök atriði. Jeg hygg, að ekki sje hægt að neita því, að þegar farið er yfir kort það, sem liggur fyrir af ógerðum vegum og brúm, meira að segja í stórum og mannmörgum hjeruðum, eins og t. d. Árnessýslu og Rangárvallasýslu, sje þörfin þar miklu meiri og krafa á því sviði þess vegna sanngjarnari en það, sem farið er fram á í þessu frv.

Það er alveg rjett hjá hv. meiri hl., að um ýmislegt, sem við kemur þessu máli, hafa heyrst háværar raddir og þingmálafundasamþyktir liggja fyrir víðsvegar að, en þær raddir eru þó ekki að neinu leyti háværari en raddir um vegabætur úr sveitunum. Þegar háttv. frsm. meiri hl. mintist á smáhafnir, þar sem að liggja 1–2 býli, verður manni ósjálfrátt litið til þeirra fjallabúa, sem ekkert hafa, sem heitir samgöngur, nema eldgamla troðninga, og geta engar vonir gert sjer um bætur. Það er fjöldi af býlum til fjalla, sem eru slægjulítil, en hafa ótakmarkað beitiland. En þar er stopult og áhættusamt að búa, því að ekki er hægt að flytja að hey eða nauðsynjar til búskaparins, nema á hestum. Jeg veit um nokkrar jarðir í Árnessýslu, sem voru taldar afbragðsjarðir, en hafa nú bókstaflega lagst í eyði vegna samgönguleysis. Jeg nefni þetta aðeins til samanburðar við smáhafnirnar, þar sem lítið er um aflaföng bæði á sjó og landi, og þar af leiðandi hafa lítið að flytja að og frá. þegar þetta er athugað og borið saman við framkvæmdir undanfarinna ára, sjest, að samgöngubætur á sjó hafa orðið miklu betur úti, enda eðlilegt, að þar sjáist stærri spor en í samgöngubótum á landi, sem bæði eru seinunnar og dýrar.

Ef maður lítur á tekjur ríkissjóðs undanfarin ár og ráðstöfun þeirra, þá sjest, að vegna vissra, ákveðinna gjalda er ekki hægt að leggja nema lítinn skerf til samgöngubóta, þó þjóðin hafi lagt ríkissjóði til 10–11 miljónir árlega, eða sem svarar 110 kr. á hverja sál í landinu. Hugsa jeg, að hv. frsm. meiri hl. (SvÓ) verði mjer sammála um það, að ekki sje forsvaranlegt að fara fram á, að þær tekjur verði auknar á næstu árum. Af þessu leiðir þann sjálfsagða hlut, að ekki má auka neina „pósta“ verulega, því að það kemur þá fram á óákveðnu „póstunum“, nefnilega verklegum framkvæmdum, meðal annars vega- og brúargerðum. Þegar verið er — ofan á þessar 10 –11 miljónir, sem jeg tel mjög háar skattaálögur, í samanburði við efnahag þjóðarinnar — að stofna til meiri gjalda, bæði í kenslumálum og heilbrigðismálum, get jeg ekki annað sjeð en að á sínum tíma hljóti svo að fara, að alt of lítið verði afgangs til þess að leggja fram til nauðsynlegra umbóta, svo að þjóðin geti notið sín og fært sjer í nyt gæði landsins. Ef maður síðan athugar, eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, að Esja hefir undanfarin ár verið rekin með tekjuhalla, hefir ekki einungis tapað 207 þúsundum síðastliðið ár, heldur verður að bæta þar við 7% vöxtum af því fje, sem stendur í skipinu, 800 þúsundum króna, og hækkar það drjúgum tekjuhallann. Auk þess er í lögum ákveðið 6% fyrir fyrningu á skipinu. Við þessu er auðvitað ekkert að segja, þar sem skipið er nauðsynlegt, en allir geta sjeð, að hjer er um stórfje að ræða og því full þörf á athugun, áður en ráðist er í frekari framkvæmdir á þessu sviði.

Þá kemur hitt, hvort þörf er fyrir meiri samgöngur á sjó. Jeg get ekki gripið neitt hendi nær en það, að síðasta þing samþ. að leigja skip, og það var gert. E.s. „Nonni“ var tekinn á leigu og sigldi í 3 mánuði, einmitt á þeim tíma, sem álitinn var bestur, sem sje haustmánuðina, en með 10 þúsund króna tekjuhalla á mánuði. Það má nærri geta, að þegar farið er að gera út annað skip í kjölfar Esju, sem er látið hlaupa í kringum landið aðeins með fólk, eins og hv. frsm. meiri hl. vill vera láta, þá er hæpið bæði um nauðsynina og það, hvort nokkurt vit er í því, að láta skipið einungis flytja fólk, en engan flutning. Jeg held, að þeir, sem fróðir eru um þessa hluti, sjeu á annari skoðun en hv. frsm. meiri hl. Jeg hugsa, að ef slíkt skip ætti að sigla sömu leið og á sömu hafnir eða kanske fleiri, þá færi líkt um það og e. s. „Nonna“, að það yrði rekið með mjög miklum tekjuhalla. Jeg held, að gera megi ráð fyrir, að bæði skipin mundu sjaldan komast af með minna en ½ miljón króna tekjuhalla. Jeg læt svo hv. meiri hl. um að meta, hvort honum sýnist landið hafa ráð á að leggja þá upphæð í slíkan fastan tekjuhalla.

Þá fór hv. frsm. meiri hl. mörgum orðum um það í ræðu sinni við 1. umr. málsins, að einstakir firðir yrðu ver úti með samgöngur en fyrir styrjöldina miklu. Jeg hefi ofurlítið rannsakað þetta og komist að þeirri niðurstöðu, að samgöngur á sjó nú sjeu ólíkt betri en þær voru fyrir stríð, enda er það ekki að undra, þar sem mikið hefir verið til þeirra kostað hin síðari árin. Jeg verð að segja það Eimskipafjelagi Íslands til maklegs lofs, að það hefir í alla staði reynst landsmönnum hið besta. Það er ekki langt að minnast, að í mars var eitt af stóru skipunum látið fara langt úr leið til þess að verða við ósk tveggja manna, er þurftu að fara á sjúkrahús. Með hjálp loftskeytanna geta skipin þannig altaf orðið að liði, ef á liggur.

Það virðist vera það, sem sjerstaklega vakir fyrir hv. frsm. meiri hl., að bera Hornafjörð fyrir brjósti. Jeg skal taka undir það með hv. þm., að Hornafjörður verður einna verst úti með ferðir hjá þeim skipum, sem nú annast ferðir kringum land, en það er vegna þess að fjörðurinn er þannig gerður frá náttúrunnar hendi, að hvaða skip sem vera vill getur ekki siglt þangað inn. Þrátt fyrir það held jeg ekki, að vert sje að smíða sjerstakt skip fyrir þennan fjörð, svo sem þó virðist vaka fyrir meiri hl. Það er kunnugt, að talsvert fje er veitt sjerstökum báti, sem nú annast alla flutninga að og frá útgerðinni á hinum ýmsu fjörðum, og ekki síst Hornafirði. Jeg held, að hv. frsm. meiri hl. geti verið mjer sammála um það, að slíkir smábátar sjeu miklu heppilegri heldur en dýr skip, sem þurfa að standa lengi við til þess að geta afgreitt slíka vöru, fisk sem látinn er laus í skip; það tekur ærið langan tíma og getur tæplega borgað sig með skipum, sem eru eins dýr í rekstri og strandferðaskipin okkar.

Jeg hefi gert yfirlit yfir samgöngur á sjó fyrir styrjöldina miklu sem svo mikið hefir verið talað um. Það virðist sem þær hafi verið í nokkuð góðu lagi árin 1910–12. 1910 og 1911 voru þeir hjer Austri og Vestri og hafa farið 6 ferðir hvor, þ. e. a. s., þeir koma 12 sinnum á sömu höfnina hvor yfir árið, á þá viðkomustaði, sem þeim er ætlað að koma, en auk þess voru milliferðaskip, sem komu á vissar hafnir, en það voru nokkuð strjálar ferðir, því að skip voru þá fá í förum og fóru helst ekki á aðrar hafnir en þær, sem höfðu töluverðan flutning til, t. d. skip Thore-fjelagsins. Það fjelag hafði töluverðan flutning fyrir sig, en heldur lítið fyrir aðra, og þess vegna sneyddu þau skip alveg hjá þeim höfnum, sem lítinn flutning höfðu. En ástandið verður betra árin 1912 og 1913. Þá eru það „Hólar“ og „Skálholt“, sem annast strandferðirnar. Þau hafa alveg sömu áætlun, koma á 51 höfn í flestum sínum ferðum, og það má segja, að litlu muni á því, sem þau hafa int af hendi, og því, sem Esja gerir nú ein. Þau hafa komið á þessar vissu hafnir, sem Esja tínir upp nú, og koma þar 12 sinnum á ári. Aftur á móti ef tekið er árið 1927, þá á Esja að koma 15 sinnum á þær hafnir, eða þrem sinnum oftar heldur en þessir bátar gerðu þá. Það er því engin ástæða til að halda því fram, að samgöngurnar sjeu orðnar verri en þá var. Þar á ofan eru ýms skip, sem hafa hjer áætlunarferðir miklu tíðari og miklu öruggari en þá var, svo að það er algerlega sjeð yfir sannleikann í þessu, hvað strandferðirnar snertir með því að halda slíku fram. Þær eru miklu betri en þá var, auk þess sem mikið er gert til þess að hjálpa ýmsum hjeruðum með flóabátum. Það er ekki svo lítið, sem lagt er í það, í samanburði við það, sem þá var, ef það þá hefir verið nokkuð.

Jeg hefi nú til skýringar á þessu tekið upp nokkuð af þeim höfnum, sem siglt var á þá og siglt er á enn. Jeg hefi athugað samgöngur hjer frá Reykjavík vestur um land, og komist að raun um, að þar eru samgöngur í svo góðu lagi, að jafnvel ekki er um eina einustu kvörtun að ræða, nema frá Breiðafirði, en sem vitanlega er flói og verður að hafa sinn flóabát til að flytja allar vörur til og frá viðkomustöðum strandferðaskipanna, og vonandi kemst það á sínum tíma í það lag, enda nú á þessu þingi ætlaður ríflegur styrkur til bátaferða um Breiðafjörð.

Það er þá um Norðurland, alt austur að Eyjafirði að segja, að þar eru miklu betri samgöngur heldur en fyrir stríðið, enda engar kvartanir þaðan um samgönguleysi, heldur þvert á móti, og hafa margir norðlendingar látið þá skoðun í ljós. Aðalkvartanirnar, sem Alþingi berast yfir slæmum samgöngum, eru frá Austfjörðum, og heldur hv. frsm. (SvÓ) því fram, að þar sjeu þær lakari en fyrir styrjöldina miklu. Þessu til mótmæla læt jeg tölurnar tala um áætlunarferðir árin 1913, 1914 og 1927.

Viðkomustaðir strandferðaskipa:

1913

1914

1927

Hornafjörður

5

5

10

Djúpivogur

12

11

24

Breiðdalsvík

12

7

14

Stöðvarfjörður . ..

4

6

9

Fáskrúðsfjörður ...

22

11

35

Reyðarfjörður

18

4

41

Eskifjörður

19

19

48

Norðfjörður

23

15

54

Mjóifjörður

19

15

18

Seyðisfjörður

42

25

58

Borgarfjörður

0

7

20

Vopnafjörður

23

9

22

Bakkafjörður

10

6

9

Skálar

0

0

9

Þórshöfn

12

18

24

Raufarhöfn

7

6

9

Kópasker

9

4

22

Húsavík

33

13

46

Ef menn vilja á þessari töflu bera saman þær samgöngur, sem þessir staðir áttu við að búa fyrir stríð, og þær samgöngur, sem þeir hafa nú, þá held jeg, að hver og einn hljóti að geta sannfært sig um, að það er ekki rjett, að samgöngurnar sjeu í afturför hjá okkur, heldur er hjer um mjög mikla framför að ræða.

Hv. frsm. meiri hl. taldist svo til, að mikið gæti sparast með því að láta skipið ekki flytja farm, og lítur svo á, að mikil eftirvinna mundi sparast við það. En þó mun það í flestum tilfellum borga sig að láta vinna yfirvinnu við fermingu og affermingu skipa, enda annast farmeigandi þá vinnu á sinn kostnað, en skipið leggur til sitt fólk, sem hvort sem er gengur sínar vökur á skipinu.

Þá eru bryggjugjöldin, sem frsm. hygst að spara með því að flytja aðeins póst og farþega, en ekki farm. En sá hængur er á þeim sparnaði, að bryggjugjöld eru á flestum höfnum algerlega hin sömu fyrir skipið, hvort það tekur mikinn eða lítinn flutning, því bryggjugjald af vörum bera sendandi vara eða móttakandi. Það er því ekki hægt að leggja mikið upp úr þeim sparnaðartillögum, sem hv. frsm. meiri hl. kom með, því enda þótt hann hafi rætt þetta mál við einhvern skipstjóra á strandferðaskipi, þá sje jeg enga ástæðu til að taka það sem vísindalega sönnun, en trúi betur athugun þeirra manna, er staðið hafa árum saman fyrir rekstri strandferðaskipa og hafa þar að auki verið skipstjórar á slíkum skipum.

Jeg get látið við þetta sitja að svo komnu máli, og er þá tillaga minni hl., eins og nál. hans á þskj. 343 ber með sjer, að þetta mál verði felt í þesari hv. deild. Þetta álit hans byggist á því, eins og jeg hefi áður tekið fram, að við álítum ekki, að þjóðin hafi ráð á að festa það fje, sem hún hefir afgangs frá lögákveðnum gjöldum, sem er mikill hluti af tekjum ríkissjóðs, og að það sje mjög hæpið að gera meira að því að taka ákveðnar fjárhæðir í tekjuhalla, án þess að hafa rannsakað málið nægilega, og í öðru lagi af því, að við álítum samgöngurnar, eftir því sem jeg hefi lýst þeim, mjög viðunandi, og meira að segja góðar eftir efnum og ástæðum þjóðarinnar. Þar á ofan álítum við, að þing og stjórn eigi að vinna að því framvegis að koma þessum strandferðum yfir á aðrar hendur, svo að við þurfum ekki að greiða rekstrarhalla nema af þessu eina skipi, sem sje Esju. Af þessum ástæðum er það, að við leggjum algerlega á móti þessu frv. Þriðja ástæða minni hl. er sú, að við álítum, að flóabátar komi að langmestu gagni við smærri flutninga um flóa og firði, og að á sínum tíma eigi að vinna að því að flytja sem mest með flóabátum í veg fyrir þau skip, sem taka flutning kringum landið og til annara landa. Því að það getur hver maður sjeð, sem vill athuga þetta mál, að það verður alt of kosnaðarsamt að hafa dýrt skip í förum til þess að snatta með smáflutninga kringum land, og inn á hverja vík og vog. Þetta hefir líka sýnt sig. Jeg hefi hjer dálítið yfirlit yfir þær tekjur, sem Esja hefir fengið síðastliðið ár á ferðum sínum um Austfirði, og sýnir það, að Austfirðir hafa fengið sinn fulla hluta af þeim raunverulega tekjuhalla, sem mjer telst til, að orðið hafi á Esju á síðastliðnu ári, sem sje kr. 311 þús., ef alt er reiknað, svo sem vera ber. Hv. frsm. meiri hl. telur Esju komast af með 1200 kr. á dag, og veit jeg eigi, hvernig hann fær þessar tölur, því víst er það, að Esja hefir brúkað um 1600 kr. á dag, þá daga, sem hún gekk á síðasta ári, en þá gekk hún í 9 mánuði, en var í höfn 3 mánuði, með mjög litlum kostnaði. Sannleikurinn er sá, að það er alstaðar of lítið að flytja, bæði af fólki og farangri, og alstaðar of litla peninga að fá. Mjer telst svo til, að það hafi ekki verið hægt að fá meiri tekjur en 7–800 kr. á dag á þeim höfnum, sem jeg hefi gert reikning fyrir, sem sje Austfirðir. Það kemur auðvitað líka fram, að sumir firðir gefa ekki meira af sjer en 22 til 70 kr. í ferð. Það getur vel verið, að þeim höfnum sje jafnmikil nauðsyn á að hafa þessar ferðir, þó þær verði ekki til að styrkja slíka útgerð. Annars vil jeg leggja áherslu á það, að vegakerfi landsins líður altaf við það, að lagt er í þessi tekjuhalla-fyrirtæki, sem eru meðal annars samgöngur á sjó, og vill minni hl. sjerstaklega benda hv. deild á, að það er á kostnað búskapar landsmanna, ef við förum ógætilega í þessum sökum eða tökum meira en nauðsynlega þarf til þeirra. Því að það er mjög aðkallandi nauðsyn í landinu fyrir brýr og vegi, sem mun leggja landið í auðn, ef ekki er unnið að með framsýni og festu.

Minni hl. þykist ekkert harðdrægur, þótt hann leggi til, að þetta frv. verði felt, því að það er sannarlegt hermdarverk að leggja það á þjóðina að byggja skip, sem gefur ekki minna en 150–200 þús. kr. í tekjuhalla á ári og jafnvel meira, samkvæmt undanfarandi reynslu. Fer jeg svo ekki fleiri orðum um málið að sinni.