22.04.1927
Neðri deild: 57. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í C-deild Alþingistíðinda. (2872)

53. mál, strandferðaskip

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Jeg get að miklu leyti látið mjer lynda þau svör, sem hv. þm. A.-Sk. hefir borið fram gegn andmælum þeim, sem frv. hefir mætt.

Það eru aðallega tvær mótbárur, sem hv. andstæðingar frv. hafa borið fram. Sú fyrri er getuleysi ríkissjóðs til þess að ráðast í byggingu strandferðaskips. Hin er sú, að samgöngurnar sjeu svo góðar að þeirra dómi, að við þær megi hlíta um stund. Alt annað eru gagnsæjar umbúðir utan um málið og að engu hafandi. En viðbárurnar tvær, sem jeg nefndi, hafa þeir allir borið fram, hver í sínu lagi, hv. 3. þm. Reykv., hv. þm. Barð. og hæstv. atvrh.

Jeg ætla fyrst að líta á aðalmótbáruna, sem þeir leggja einna mesta áherslu á, getuleysi ríkissjóðs. Það er sameiginlegt þeim öllum að hringja þessari barlómsbjöllu, sem klingt hefir á undanförnum þingum, og ekki hvað síst á seinasta þingi.

Þegar meta á þessa mótbáru, þá verður líka að líta á, hvað þessir sömu menn leggja til málanna, þegar um aðrar framkvæmdir er að ræða. Jeg mun fara rjett með það, að allir þessir hv. þm. hafi rjett upp hendur með ábyrgðarheimild ríkissjóðs nýlega, vegna miljónalánsins, sem leggja á í mjög hæpinn atvinnurekstur eða í fyrirtæki, sem sumpart verður að telja á völtum fæti, eða þá í dauðateygjunum. Jeg held líka, að jeg fari rjett með, þegar jeg bendi á, að allir þessir sömu menn hafi með atkvæði sínu stutt að því, að lagðar verði á sínum tíma 2 miljónir króna úr ríkissjóði til þess að fá afardýra — en margþráða — samgöngubót við hjeruðin austan fjalls, járnbraut að Þjórsá. Einnig má benda á það, að til síma, vita, vega- og brúagerða eru áætlaðar um 2 miljónir króna í fjárlögum þeim, sem hjer eru á ferðinni, en ekki nema tæpar 350 þús. krónur til samgangna á sjó.

Það getur altaf verið álitamál, hvað af þessum fyrirtækjum eigi mestan rjett á sjer eða sjeu mest aðkallandi. Við, sem að þessu frv. stöndum, teljum nauðsynlegt að fá bættar samgöngur á sjó. því að sjórinn er þó sú samgönguleiðin með ströndum fram, sem oftast er greiðfær. Og eins og áður hefir verið bent á, er hjer um tiltölulega litla fjárupphæð að ræða, borið saman við þær framkvæmdir, er jeg nefndi áðan.

Um hina mótbáruna, að strandferðir sjeu fullnægjandi, hefir verið svo mikið rætt, að jeg tel, að þar þurfi litlu við að bæta. Mótstöðumennirnir halda því fram, að strandferðirnar sjeu við vort hæfi og vel viðunandi. En jeg neita því, að þetta gildi um smáhafnirnar. Jeg skal játa, að stærri höfnunum er sæmilega borgið, af því að millilandaskipin koma þar við í flestum ferðum sínum. Millilandaskipin haga ekki ferðum sínum eftir þörf póstgangna eða ferðamanna, eins og eðlilegt er, heldur eftir flutningaþörf frá landinu og til þess, og oftast fara þau hálfhring um norðurhluta landsins. Þess vegna eru póstgöngur þeirra notalitlar og því nær eingöngu fyrir stærri hafnir. Jeg vil ekki endurtaka samanburðinn, sem aðrir hv. þdm. hafa gert um strandferðir hjer við land fyrrum og nú. En þótt samgöngur sjeu að ýmsu leyti skárri á stöku stöðum, svo sem Breiðafirði, en þær voru t. d. um aldamót, þá er lítil ástæða til að miklast af því. Þess er ekki að vænta, að menn láti sjer lynda 6 mánaða strandferðir á ári, eins og þá voru, en ástandið er þó engu betra en þá var, þegar litið er til afskektustu hafnanna.

Jeg ætla ekki að tefja tímann með því að svara orði til orðs því, sem mótstöðumenn þessa frv. drógu fram, en jeg verð þó að víkja að nokkrum fullyrðinguin hjá hæstv. atvrh. Hann vildi halda því fram, að verkaskifting sú um strandferðir, sem jeg hafði bent á, þannig, að annað skipið annaðist mannflutninga og póstflutninga, en hitt vöruflutninga, væri óheppilegt fyrirkomulag. En hví skyldu aðrar þjóðir á undan okkur hafa farið þessa leið og aðgreint þetta svo? Mundi það ekki vera einmitt fyrir þá skuld, að það hafði komið í ljós að þetta er hagfeldara. Það varðar auðvitað miklu, að póstferðir sjeu reglubundnar og greiðar og póstskip verði ekki fyrir töfum, sem leiða af vöruflutningi og afgreiðslu hans. Hæstv. ráðh. vildi álíta það, að það væri mikið hagræði fyrir landsmenn yfirleitt, að Esja flytti varning úr millilandaskipum til þeirra smærri hafna, sem þau ekki koma á, og eins í veg fyrir þau, þegar um útlendan farm er að ræða. Jeg veit, að þetta er hagræði fyrir Eimskipafjelagið og fyrir þau skip, sem milli landa flytja. En það er ekki hagræði fyrir útgerð Esju, það er alveg áreiðanlegt. Á þetta benti jeg nógsamlega í gær, hvernig þetta ber sig, miðað við rekstur póstskipsins. Það spillir fyrir útgerð Esju á tvennan hátt; bæði fær skipið minni farmgjöld, þegar það flytur umhleðsluvarning en aðrar vörur, og auk þess skirrast farþegar við að nota skip, sem er langtímum að snúast við tafsama og arðlausa umhleðslu, og skaðinn af þessu er miklu meiri.

Hæstv. ráðh. sagðist ekki skilja í, að tekjuhalli af þessum tveimur skipum, er þau sigldu með ströndunum, yrði svo lágur sem jeg áætlaði, að hann færi ekki langt fram úr 250 þús. kr. Við stöndum sjálfsagt báðir heldur illa að vígi með að fullyrða um það, hvað tekjuhallinn verður mikill; en jeg hefi þó fyrir mjer áætlun framkvæmdastjóra Eimskipafjelagsins. Hann áætlaði tekjuhalla af þessu nýja skipi á síðasta þingi 150–160 þús. kr. á ári. Í öðru lagi þykist jeg hafa nokkuð fyrir mjer, þar sem áætlað var, að rekstrarhalli á Esju mundi minka niður í 99–100 þús. kr. Hann var 1925 aðeins 139 þús. kr., þrátt fyrir alt tjónið af umhleðslubaukinu. Jeg hefi áður sýnt með tölum, að það tjón er mikið, og þegar hún er laus við þann vöruflutning og fer tafarlaust með ströndinni með póst og farþega, þá muni koma í ljós, að farþegar noti hana miklu meira. Hún er þá alveg sjálfkjörin til þess að keppa við þau útlendu skip, sem nú taka mestan farþegaflutning frá henni á Norður- og Austurlandi og yfirleitt stöðum fjarlægum Reykjavík.

Hæstv. ráðh. skírskotaði til ummæla framkvæmdastjóra Eimskipafjelagsins um það, að óheppilegt mundi að fá þetta litla skip til þess að sigla með ströndinni og hafa vöruflutninga; það mundi taka farm frá Esju. Líkt kom fram hjá hv. þm. Barð. Hann gat þess, að hann hefði borið þetta undir framkvæmdastjórann og hann teldi þetta óhapparáð. Jeg get ekki að mjer gert að setja stórt spurningarmerki við þessa yfirlýsingu hæstv. ráðh. og hv. þm. Barð., vegna þess, að það liggur fyrir frá síðasta þingi álitsgerð milliþinganefndar, sem framkvæmdastjórinn var skipaður í, á þskj. 60. Hann hefir skrifað með hinum undir nál. Nefndarmenn hvöttu til þess, að skipið yrði útvegað og tekinn upp rekstur þess, líkur þeim, sem hjer er lagður til. Og ef framkvæmdastjórinn kemur nú þannig í baksegl við sjálfan sig frá því á síðasta þingi, þá furðar mig mjög á því. Jeg verð þess vegna að segja, þangað til hv. mótstöðumenn hafa sýnt mjer svart á hvítu, að hann hafi gefið þessa yfirlýsingu, þá læt jeg stóra spurningarmerkið standa.

Hæstv. ráðh. sagði, að við eyddum óvenjulega miklu til strandferða, jafnvel meira en forsvaranlegt væri, miðað við okkar efnahag. 445 þús. kr. nefndi hann. Til þess að fá þessa upphæð, tók hann með þann styrk, sem veittur er Eimskipafjelaginu. En sá styrkur er í raun og veru alls ekki vegna strandferða; hann er, eins og áður er getið, sjerstaklega veittur vegna þess, að fjelagið stendur í harðri samkepni við útlend fjelög og flytur á smáhafnir, sem útlend skip hlaupa fram hjá, hafnir, sem annars mundu verða mjög útundan. En það eru ekki strandferðir í venjulegum skilningi, þótt skip fari með ströndum fram, þegar þau eru að skila farmi. Eins og jeg tók fram, er það, sem ætlað er til strandferða í fjárlagafrv., sem liggur fyrir, tæpar 350 þús. króna. Það þarf ekki að vaxa neinum í augum, sem ber það saman við þá upphæð, sem varið er til vega og nú er langdrægt 1 milj.

Hæstv. ráðh. vildi halda því fram, að í stað þess að ráðast í slík fyrirtæki sem skipakaup, lægi nær að leggja áherslu á vegarlagningu milli Suður- og Norðurlands, svo að bílfært yrði. Jeg hefi ekki á móti því í sjálfu sjer, að lögð sje nokkur áhersla á þetta, en jeg felst hinsvegar ekki á það, að slíkur bílvegur, þó að fullgerður væri, myndi geta fullnægt þörfunum eins vel og hagfeldar strandferðir. Hæstv. ráðh. veit eins og jeg, að fyrir koma þeir tímar á árinu — og stundum langir — þegar bílar fara alls ekki yfir fjöll, og ennþá er ekki kominn sá eftiræskti snjóbíll, sem geti kafað fannir; og þar að auki hljóta að líða margir áratugir — já, mannsaldrar, þangað til flest hjeruð á landinu hafa gott af vegi norður fyrir Holtavörðuheiði. Og slíkur bílvegur verður aldrei að liði, nema snjólítið sje eða snjólaust. Hitt vita allir, að þegar ekki er hafísrek kringum strendurnar, þá getur skipið altaf gengið, jafnvel um hávetur.

Loks benti hæstv. ráðh. á árangur af því að leigja skip til flutningaferða á næstliðnu hausti eins og dæmi, sem ætti að forðast eftirleiðis. Á þetta var dálítið minst af hv. þm. A.-Sk. Það var ekki svo illa til fundið hjá hæstv. ráðh., að gera þetta skip að einskonar grýlu. Skipið var fyrst og fremst mjög lítið og óvistlegt, hafði ekkert farþegarúm og gekk þar að auki áætlunarlaust. Fyrir þessa skuld kom það að sáralitlu liði, en vakti víða hneyksli. Jeg hefi í öðru sambandi haldið því fram, að þetta skip muni hafa verið leigt vegna hagsmuna eigandans, fremur en vegna hagsmuna ríkissjóðs og viðskiftamanna. Skipið var sannarlega óhæft til fólksflutninga og reyndar flestra annara hluta. Það var í fám orðum sagt útgerðinni til skammar, en öðrum til skapraunar. Að vitna til þess í sambandi við áform um byggingu á nýju, vönduðu skipi með farþegarúmi og kæliklefa, á alls ekki við.

Þá vildi jeg minnast á aths. hæstv. ráðh. um nákvæma verkaskiftingu milli tveggja skipa í strandferðum, sem hann taldi fráleita. Við flm. höfum lagt og leggjum áherslu á það, að annað skipið, þ. e. Esja, annaðist sjerstaklega póstflutning og mannflutninga. En slíkt þarf auðvitað ekki þannig að vera bundið, að ekki gæti skipið tekið farm á þær hafnir, sem ekkert tefja afgreiðslu þess; heldur ekki er tilgangurinn, að flutningaskipið forðist alveg að taka farþega. Frv. gerir einmitt ráð fyrir farþegarúmi í skipinu fyrir 40–50 menn. En auðvitað er hugmyndin, eins og komið hefir fram áður, að annað annaðist fyrst og fremst fólksflutning, en hitt aðallega umhleðsluflutning, ásamt vertíðar- og kæliflutningi, og það finst mjer mjög eðlileg verkaskifting milli skipanna. Þar sem hafnir eru góðar eða skip legst að bryggju, er auðvitað hægt að taka og afhenda nokkurn farm tafarlítið. En þar sem landflutningur er erfiður og seinleg afgreiðsla, þar er allsendis óhæfilegt að láta póstskipið, sem á að halda áætlun og skila pósti og farþegum stundvíslega á höfnum, vera að tefjast við smámuni.

Hv. þm. Barð. virðist horfinn hjeðan. Jeg veit heldur ekki, hvort það hefir nokkra þýðingu, að jeg fari að munnhöggvast við hann. Það kom að vísu fram hjá honum ýmislegt, sem jeg hefi ritað niður, en jeg get leitt hjá mjer að minnast á það. Þó var eitt, sem mjer þótti dálítið kímilegt að heyra úr þeirri átt, en það var kvörtun um það, að hvorki mundi Norður-Ísafjarðarsýsla nje Barðastrandarsýsla neitt gott af þessu nýja skipi hafa. Það er einmitt þetta, sem skýrir mótspyrnuna. Mörgum hættir við að horfa svo fast á sitt eigið kjördæmi, að alt annað hverfur, ef þeir sjá ekki hagsmuni þess einhverja í málinu, þá er það óalandi og óferjandi.

Nú er jeg ekki samdóma hv. þm. um það, að ekki mundu báðar þessar sýslur gott af skipinu hafa. Jeg veit, að þær hafa báðar gott af því, jafnvel þótt ekki væri á annan hátt en að póstflutningar allir verða miklu örari og þau viðskifti við aðra hluta landsins, þeim sem öðrum, miklu haganlegri. En þar fyrir utan á jeg einmitt von á því, að þegar búið er að athuga siglingaleiðina fyrir Barðaströnd, að þá komi það í ljós, að slík skip og hjer ræðir um geti átt þar viðkomur víða. Eftir því sem jeg veit best. Þá er það einmitt vöntun á mælingu og athugun á siglingaleiðinni, sem hefir gert torveldar skipagöngur þangað. Væri nú hv. þm. (HK) hjer, mundi hann vilja halda því fram, að hjer væri verið að berjast sjerstaklega fyrir hagsmunum míns kjördæmis. Svo er þó ekki. Það vill svo til, að mitt kjördæmi er þannig sett, að þar eru ágætar hafnir hvor við aðra; og jeg veit, að útgerðarstjórnin telur ekki tapið mikið yfirleitt af þeim höfnum. Þess vegna verður nokkurnveginn sjeð fyrir viðkomum þar. Nei, hjer ræðir um miklu meiri hagsmuni fyrir þær hafnir, sem utan við mitt kjördæmi liggja, svo sem Norður-Múlasýslu, Þingeyjarsýslu, sömuleiðis Strandasýslu og jafnvel Skagafjarðar- og Húnavatnssýslu. Samgöngubótin er ef til vill að minstu leyti til hagsmuna fyrir mitt hjerað. Og eins og hæstv. ráðh. (MG) tók fram, koma millilandaskip oftlega þar við, einmitt fyrir þá skuld, að töfin við það er lítil og kostnaður, en hafnirnar flestar öruggar.

Hv. þm. Barð. vildi gera lítið úr þeim notum, sem mætti hafa af kjötflutningi með þessu skipi til markaðar í Reykjavík frá fjarlægum hjeruðum. Ef auðvelt væri að koma framleiðslunni á markað, þá verður þó auðvitað meira framleitt, og framleiðsluaukinn er þjóðfjelagslegur ávinningur. En það er leiðin til þess að geta notað kjötmarkaðinn, að skip með kælirúmi komi við og við á þær slóðir, sem framleiðsluskilyrði hafa best. Margt fleira kemur einnig til greina um kæliflutning, svo sem beituflutningur milli Norður- og Austurlands á sumrin; ennfremur flutningur á ýmsum matvælum, sem þyrfti að flytja í kælirúmi, t. d. í veg fyrir kæliskipið. Yfirleitt held jeg, að skip með hentugum kæliútbúnaði hefði tiltölulega mikið að gera, þegar landsmönnum lærðist að nota það. Sem stendur fer ekkert slíkt skip með ströndinni, og kemur það sjer oft mjög bagalega. Hv. þm. Barð. furðaði sig mjög mikið á, að jeg líti ekki á kostnaðarhlið þessa máls. Jeg held hann hafi í athugaleysi skotið þessu fram. Jeg hefi einmitt lengst af verið að tala um kostnaðarhliðina. — Það þýðir ekki að tína upp, það sem jeg hefi krotað niður úr ræðu hv. þm., þar sem hann er ekki viðstaddur. Í öðru lagi á jeg von á, að hv. frsm. minni hl. vilji líka gera nokkuru betri grein fyrir sinni stefnu og skoðun í þessu máli en orðið er. Þess vegna vil jeg ekki tefja tímann að mun lengur.

Eitt atriði enn. — Mjer fanst bóla nokkuð á því hjá hv. þm. Barð. og hv. 3. þm. Reykv., að þeir teldu sig geta ráðið því, að þetta frv. kæmist ekki gegnum þingið. Býst jeg við, að svo kunni að vera búið um hnútana, að það strandi í efri deild; en engu að síður verðum við flm., sem sjáum nauðsyn þessa fyrirtækis, að fylgja málinu í lengstu lög, þótt því kunni að vera búin banaráð. Það kemur sá tími — og hann er ekki langt undan landi — að þetta skip kemur, og fleiri jafnvel. Menn una ekki langan tíma úr þessu því skrælingjaástandi, sem nú er. Sannast að segja furðar mig mikið á því oft og tíðum, að heyra skipskaupin talin sjerstaklega eftir af þeim mönnum, sem annars láta sem þeim sje svo einkar ant um sveitirnar og þrifnað þeirra. Jeg álít, að þetta sje framar flestu öðru leiðin að því að spekja fólkið í strjálbygðum sveitum með ströndum landsins að koma því í lifandi, innbyrðis samband, samband milli sveita og landshluta, bæði andlegt og efnalegt. Einangrunin er það, sem veldur útstreymi úr sveitunum framar öllu öðru.