22.04.1927
Neðri deild: 57. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í C-deild Alþingistíðinda. (2873)

53. mál, strandferðaskip

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg þarf að svara fáeinum orðum hv. frsm. meiri hl. (SvÓ), því að í sinni ræðu nú var hann aðallega að svara því, sem jeg hafði sagt áður.

Bæði þessi hv. þm. og fleiri hafa tekið járnbrautarmálið til samanburðar og haldið fram, að það væri ekki mikið að samþ. þetta frv., þegar við greiddum atkv. með því, að veita 2 milj. króna til járnbrautar austur í sveitir. — Jeg verð fyrst að henda á það, að hjer er að ræða um járnbraut til þeirra hjeraða, sem ekki geta notið strandferða, hvað mörg skip sem við kaupum. Í öðru lagi er það, að þetta skip verður dýrara en járnbraut, af því að það kostar 150–200 þús. kr. á ári, meðan því er haldið úti, en járnbraut kemur til með að borga sig mjög bráðlega, eftir þeim útreikningum, sem gerðir hafa verið. Ef hv. þm. vill ekki treysta útreikningum um járnbrautina, þá er ekki fremur að treysta útreikningum um skipið. Þeir eru gerðir af „fag“-mönnum í báðum tilfellum.

Engu hefir verið til þess svarað, sem jeg sagði um það, hvar við ættum að taka fjeð til þess að borga hallann af útgerð þessa skips. Það er ekki von; því að það er ekki hægt að benda á, að við getum tekið kostnaðinn með öðru móti en með því að klípa af verklegum framkvæmdum. Og þær verklegu framkvæmdir, sem fyrir því verða, eru vegir, símar og brýr. Það vita allir, sem kunnugt er um samningu fjárlaga, að það gengur altaf út yfir verklegar framkvæmdir, þegar verið er að samþ. útgjöld, sem hvíla á frá ári til árs. Og við verðum því að vara okkur á að binda okkur ekki of þungar gjaldabyrðar af því tæi.

Hv. þm. (SvÓ) fanst þetta mál ekki ósvipað ábyrgðinni fyrir Landsbankann, sem samþykt var á þessu þingi. Jeg hjelt satt að segja, að varla væri hægt að finna ólíkari mál. Fyrst og fremst var ekki að ræða um annað en ábyrgð fyrir stofnun, sem við allir álítum, að sje fullkomlega fær um að standa við sínar skuldbindingar. Það var því ekkert annað en formsatriði að ganga í þessa ábyrgð. Það er verið nú að ræða um að fela þessari stofnun seðlaútgáfuna í landinu; og er það vitanlegt, að slíkt væri ekki gert, ef stofnunin væri ekki að allra áliti fullkomlega fær að standa við sínar skuldbindingar.

Það er að vísu ágætt, að auka samgöngur á sjó; en við verðum að muna eftir því, að það má ekki eingöngu horfa á þær, það þarf líka að horfa á samgöngur á landi. Og það er það, sem jeg sje í þessu máli, að ef þetta skip verður tekið nú, þá er það baggi — ómagi á framkvæmdum í samgöngumálum á landi — um ófyrirsjáanlega framtíð. Við erum svo skamt komnir í vegagerð og brúasmíðum og símalagningum, að við eigum að sjá um að geta altaf haft allmikið fje fyrir hendi til slíkra framkvæmda. En hvað stoðar að eiga þetta skip, þegar ekki er hægt að koma afurðunum langt innan úr landi á markaðinn. Svo halda menn, að þetta skip haldi í fólkið í sveitunum. En það hagar víða svo til, að fólk býr margar dagleiðir frá viðkomustöðum skipanna. En hv. þm. (SvÓ) miðar mest við sína eigin sýslu, en þó eru þar stór svæði langt frá nokkurri höfn. Það er því ekki rjett hjá hv. þm., að allir landsmenn hefðu gagn af samgöngum á sjó. Þeir hafa svo best gagn af þeim, að þeir hafi líka samgöngur á landi, svo að þeir geti komið afurðunum að sjer og frá. Og það er fyrst, þegar búið er að koma vegagerð á landi í sæmilegt horf, að ástæða er til að auka samgöngur á sjó.

Hv. þm. sagði, að í 13. gr. fjárlaganna væri varið 2 milj. kr. til samgöngubóta. En þar reiknar hann bæði rekstrarkostnað og byggingarkostnað. En hjer ræði jeg aðeins um rekstrarkostnað skipsins, þennan árlega bagga, sem við mundum binda okkur. Þennan kostnað verður að taka frá samgöngubótafjenu. Hv. þm. sagði, að það væri undarlegt, að aðrar þjóðir hefðu tekið þetta fyrirkomulag upp, ef það hefði ekki verið gott. Það er ekki að miða við það, þótt Norðmenn hafi tekið það upp, þar sem þeir hafa svo mikla flutninga á sjó. Þar með er ekki sagt, að við eigum að gera það sama og þeir. Jeg hefi það eftir kunnugum manni, Nielsen framkvæmdastjóra, að engar líkur sjeu til þess, að hin fyrirhugaða verkaskifting milli skipanna reyndist vel hjer á landi, enda halaði hv. þm. (SvÓ) í land og sagði það ekki hafa verið meiningu sína, að skipin ættu aldrei að flytja vörur milli hafna. Hvernig gæti það líka borgað sig, að tvö skip eltu hvort annað, annað með póst og farþega, hitt með farangur, stundum með 1–2 tonn og stundum með minna inn á langa firði, þessi verkaskifting getur ekki borgað sig. Þá væri hitt hagkvæmara, ef skipin ættu að vera tvö, að þau skiftu landinu á milli sín.

Þá taldi hv. þm. það hagræði fyrir Eimskipafjelagið að hafa Esju til flutninga á vörum milli hafna. Það er líka hagræði fyrir Sameinaða fjelagið og önnur skipafjelög. En við höfum Esju ekki til þess að hjálpa fjelögunum, heldur höfum við hana vegna þeirra, sem þurfa að koma vörum frá sjer og að, og þótt það kosti eitthvað, þá fer Esja sínar ferðir til að gera þetta.

Það er satt, að farþegar fælast frá að fara með Esju, vegna þess, hve lengi hún er á leiðinni. En þótt Esja ætti aðeins að koma á aðalhafnirnar, þá verður hún samt af farþegum, vegna þess að hin skipin taka einnig aðalhafnirnar. Eða heldur hv. þm., að t. d. maður, frá Akureyri, sem ætlar að fara til Reykjavíkur, fari ekki heldur með skipi Eimskipafjelagsins, sem fer beint til Reykjavíkur, en með Esju, þótt hún eigi ekki að koma við nema á tiltölulega fáum stöðum?

Þá er tekjuhallinn. Jeg er hissa á því, hvernig hv. þm. finnur það út, að hámark hallans á háðum skipunum yrði fyrir neðan hallann á Esju einni. Hann heldur, að hann yrði ekki nema um 200 þús. kr. á báðum skipunum, þar sem hann er 207 þús. kr. á Esju einni. Hann heldur, að þegar 2 skip eigi að annast flutningana, þá verði kostnaðurinn minni en á einu skipi. Þetta fær hann út með því að álykta sem svo, að Esja losni við meira en helming útgjalda sinna, þegar annað skip komi til að losa hana við flutning og vörur. Þetta er öfugmæli, því að kostnaður verður svipaður, en tekjur miklu minni. Ef Esja á að flytja farþega frá og að minni sem stærri höfnum, þá er ómögulegt, að hún geti kept um farþega við hin skipin. Hún fær ekki aðra farþega en þá, sem taka hana, af því að þeir fá ekki aðra betri ferð.

Hv. þm. áleit, að styrkurinn til Eimskipafjelagsins væri ekki til strandferða, heldur til að flytja vörur frá útlöndum á smáhafnirnar. En styrkurinn á 13. gr. getur ekki verið til annars en strandferða, enda eru það strandferðir, að flytja vörur frá útlöndum á smáhafnirnar meðfram ströndum landsins. En hitt er annað mál, að við þetta koma strandferðirnar að betri notum.

Hv. þm. viðurkendi, að strandferðir Eimskipafjelagsins væru mjög til bóta fyrir sitt kjördæmi, og ætti hann þá að sjálfsögðu að vilja láta fjelagið halda þessum styrk áfram, ekki síst þar sem það líka á í vök að verjast vegna samkepni. Þá hjelt hv. þm., að það liðu margir áratugir, þangað til vegir væru komnir samtengdir milli allra hjeraða á landinu. Jeg held naumast, því að þess er vandlega gætt, að þeir vegarspottar, sem lagðir eru víðsvegar, geti síðan komið saman í eitt kerfi. En ef þessi uppástunga hv. þm. kemst fram, getur þess orðið langt að bíða, að þetta kerfi verði samfelt um land alt. En verði framvegis veitt til vega eins og hin síðari árin, þá líður ekki á löngu, þar til þetta kerfi verður talsvert fullkomið. — Hv. þm. nefndi þskj. 60 frá því í fyrra, og sagðist setja stórt spurningarmerki við það, að Nielsen framkvæmdastjóri áliti það óráð að kaupa skip nú. Þetta þskj. er álitsskjal milliþinganefndar, og skrifaði Nielsen undir það. Nefndin gerði 5 till., og eru 2 þeirra um kaup á skipi. Þar stendur: „Hvað þessar tillögur snertir, þá álítum vjer, að ef til vill sje ekki enn kominn tími til þess að framkvæma þær, vegna þess, hve enn er dýrt að byggja skip.“ — Og síðan hefir byggingarkostnaður sama sem ekkert lækkað. Svona leit milliþinganefndin á þetta, og þetta álit varð ofan á hjer í deildinni í fyrra.

Þá sagði hv. 1. þm. S.-M., að skip það, sem leigt var í fyrra, hefði verið leigt fyrir eiganda þess. Þetta eru þungar sakir á Nielsen framkvæmdastjóra, sem útvegaði skipið og sagði, að við hefðum ekki getað fengið betra skip. Jeg samþykti svo það, sem hann hafði gert. Hann gat þess þá, að ómögulegt hefði verið að fá útlend skip vátrygð inn á sumar þær hafnir, er þetta skip þurfti að koma á.

Að endingu vil jeg svo segja það, að þótt það væri að sumu leyti gott að fá þetta skip, þá sje jeg mjer ekki fært að vera með því að svo stöddu, að það verði gert, af því að jeg sje, að hinn árlega rekstrarhalla þess, um 150–200 þús. kr., yrði að taka af því fje, sem veitt er til verklegra framkvæmda, vega, brúa og síma.