23.04.1927
Neðri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í C-deild Alþingistíðinda. (2878)

53. mál, strandferðaskip

Hákon Kristófersson:

Jeg þakka vini mínum, hv. 1. þm. S.-M., fyrir þá umhyggju, er hann sýndi mjer í ræðu sinni. Hann hjelt, að einhver uggur væri í mjer um það, að jeg mundi fá mótstöðu í hjeraði mínu út af þessu máli. Og á röddinni var að heyra, að hann tæki þetta ákaflega sárt. Þótt jeg efist að vísu um, að umhyggjan sje rjett nema á yfirborðinu, verð jeg víst að þakka hana. En það verða vonir, sem svíkja, að þetta mál verði mjer að falli. Jeg býst ekki við, að jeg komi heim í hjerað með andstöðu meiri hluta kjósenda minna út af þessu. Hitt er vitanlega alt annað mál, að þeir, sem undir róa, geta magnað einhver versleg eða geistleg smámenni til mótstöðu gagnvart mjer, bæði hvað þetta og önnur mál snertir. En jeg er nú orðinn veraldarvanari en svo, að jeg verði uppnæmur fyrir slíkum smápjesum.

Annars þótti mjer gaman að heyra hjá hv. þm. (SvÓ) — að alt í einu eru komnar svo ágætar samgöngur í Suður-Múlasýslu. (Hlátur). Manni hefir nú stundum fundist kveða við ögn annan tón úr þeirri átt, og að ekkert hjerað væri eins báglega statt og kjördæmi míns kæra vinar, hv. 1. þm. S.-M. En það er eflaust öllum gleðiefni að heyra, að nú er bætt úr þessu.

Mjer skildist á hv. þm., að mjer bæri skylda til að vera með þessu máli, vegna einhverra sjerstakra landshluta. En svo sem áður er tekið fram, er skoðun mín sú, að þótt einhver aukin þægindi mætti af þessu hljóta, þá sje fjárhagsmáttur ríkissjóðs ekki til þess fær áð takast þetta á hendur, nema því aðeins, að hann sníði af einhverjum öðrum framkvæmdum í staðinn. Og í því eru litlar samgöngubætur, ef komið er í veg fyrir að brýr verði bygðar á foráttuvatnsföll, sem oft verða að tjóni á lífi og limum bæði manna og dýra. — Hv. frsm. (SvÓ) þótti óviðurkvæmilegt, að jeg kallaði þetta mál kosningabeitu, og e. t. v. hefði jeg líka getað komist öðruvísi að orði. En sú er spá mín — og ef hún rætist ekki, skyldi engin maður trúa mínum spádómum framar — að sumir Framsóknarmenn munu segja í blöðum sínum við næstu kosningar eitthvað á þessa leið: Kæru kjósendur! Við vildum útvega ykkur strandferðaskip, en ólukkans Íhaldsskarfarnir voru á móti því. Blessaðir, fellið þið nú nú alt Íhaldið! — Menn mega reiða sig á, að þessi klausa kemur, kanske ögn betur orðuð, en efnið verður áreiðanlega hið sama. Þessu máli mínu til stuðnings skal jeg geta þess, að tiltölulega merkur Framsóknarflokksmaður, sem jeg ber nokkra virðingu fyrir, nema þegar hann skrifar um Íhaldsflokkinn, sagði við mig í gærkveldi: „Þetta mál skal verða þjer að falli, Hákon, reiddu þig á það!“ Jeg var því ekki með fullyrðingar út í bláinn, frekar en mín er venja. (TrÞ: Spá er spaks geta!) Ja — var það nú svo spakur maður, sem sagði þetta við mig? Mjer finst hann hafa fengið orð fyrir eitthvað annað fremur. — Jeg vil enda mál mitt með því að þakka hv. frsm. (SvÓ) enn á ný umhyggjuna fyrir mjer — og yfirlýsinguna um hinar góðu samgöngur í hans kjördæmi!