23.04.1927
Neðri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í C-deild Alþingistíðinda. (2880)

53. mál, strandferðaskip

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg held, að varla sje hægt að gera ráð fyrir því, að styrkurinn til Eimskipafjelagsins minkaði mikið, þótt nýtt strandferðaskip kæmi. Það er sakir þess, að nauðsynlegt er að sjá um, að skip fjelagsins komi á smáhafnirnar, þegar þau koma frá útlöndum, vegna þeirra hagsmuna, sem þær hafnir hafa af því að fá vörur beint frá útlöndum. Af þessu skapast líka ferðir, sem gera alveg sama gagn og strandferðir, en eru að sumu leyti gagnlegri. — Hitt atriðið, sem hv. 1. þm. Reykv. (JakM) talaði um, að Eimskipafjelagið ætti að taka strandferðirnar alveg í sínar hendur, get jeg fúslega undirskrifað. Það væri að mínu viti æskilegasta fyrirkomulagið. En jeg er hræddur um, að eins og nú er ástatt, muni Eimskipafjelagið tregt til að gera þetta. Að þessu ættum við samt að stefna. Jeg teldi meira að segja borga sig að gefa Eimskipafjelaginu Esju og allháan árlegan styrk að auki, fyrir að taka að sjer strandferðirnar. En jeg vil fastlega vara hv. 3. þm. Reykv. við að greiða frv. atkv. til Ed. í þeirri trú, að það verði felt þar. Fyrir því er engin vissa. Jeg er ekki heldur viss um að það sje rjett, sem hv. þm. sagði, að hjer sje aðeins um heimild að ræða. Jeg hefi frv. ekki við hendina og get því ekki gætt að þessu, en minnir fastlega, að um beina skipun sje að ræða.