23.04.1927
Neðri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í C-deild Alþingistíðinda. (2883)

53. mál, strandferðaskip

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg vildi aðeins út af orðum hv. 1. þm. Reykv. (JakM) segja það, að jeg vil vara við því, að líta svo á, að við getum sett Eimskipafjelagi Íslands þá kosti, að annaðhvort verði það að taka að sjer strandferðirnar, eða þá við fellum niður strandferðastyrkinn til þess. Við getum þetta sem sje ekki, vegna smáhafnanna, því að við verðum á einhvern hátt að sjá fyrir því, að þær hafi beinar samgöngur við útlönd. Ef Eimskipafjelagið sinnir ekki smáhöfnunum, þá kemur á allar vörur til þeirra stórkostlegur aukakostnaður, vegna umhleðslu í önnur skip, svo að það verður óforsvaranlegt að leggja þær byrðar á smáhafnirnar. Vegna smáhafnanna getum við því ekki afnumið styrkinn til Eimskipafjelagsins.

Hv. þm. nefndi í þessu sambandi járnbrautina og sagði, að það væri undarlegt, að þeir, sem vildu hafa járnbraut, vildu ekki hafa tvö skip til strandferða. En þetta er ekki rjett orðað. Við neitum því ekki, að betra sje að hafa tvö strandferðaskip, en við teljum, að skipskaupin verði að bíða, af því að við álítum, að samgöngurnar á landi sjeu styttra á veg komnar heldur en samgöngurnar á sjóðnum, og að þess vegna sje rjettara að snúa sjer að vegagerðum, símalagningum og brúagerðum, til þess að bæta samgöngurnar á milli þeirra, sem búa uppi í sveitum landsins og við sjávarsíðuna. Þetta er það, sem gerir, að við getum ekki lagt út í að fá okkur skip, en alls ekki það, að við viðurkennum ekki, að samgöngurnar eigi að vera betri en nú er og þurfi að vera það. — Hv. þm. sagði, að stjórnin hefði lagst á móti þessu máli með talsverðum krafti og fengi sjálfsagt sína menn til að vera á móti því í Ed. Jeg skal ekkert um afstöðu þeirra segja, því að það hefir ekki verið neitt við þá talað um þetta mál. En mjer skilst þá, að hv. þm. (JakM) greiði þessu frv. atkv. sitt í þeirri von, að hv. Ed. muni fella það. En ef það nær fram að ganga, þá hefir hv. þm. orðið þess valdandi, en að því er virðist gegn vilja sínum.