23.04.1927
Neðri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í C-deild Alþingistíðinda. (2884)

53. mál, strandferðaskip

Björn Líndal:

Jeg get að mörgu leyti tekið undir það, sem hv. 1. þm. Reykv. hefir sagt í þessu máli, þótt jeg sje honum ekki að öllu leyti sammála. Jeg er hv. þm. sammála í því, að það væri miklu æskilegra, að Eimskipafjelagið tæki að sjer reksturinn, heldur en að ríkið kostaði hann, og sjerstaklega þar sem það fjelag fær talsverðan styrk fyrir að annast vissar ferðir hjer við land. En jeg vil ekki láta fara neina hótunarleið að Eimskipafjelaginu, því að slíkt á það ekki skilið, og mjer er óhætt að fullyrða, að Eimskipafjelagið hefir, síðan það byrjaði, miklu fremur siglt fyrir þjóðina en fyrir hluthafana, og jeg álít, að þessi styrkur sje ekki meiri en svo, að það væri jafnvel mikla betra að vera laus við hann og geta siglt eftir sínum eigin geðþótta. En aðalástæðan til þess, að jeg vil halda mig að því fjelagi, er þó það, að það verður miklu eðlilegra, að sama fjelagið hafi flutningana til landsins og frá því, og strandferðirnar í sambandi við þær, heldur en tvö fjelög hafi það. Og þó að svo kynni að verða, að samningar um þessar strandferðir tækist með hæstv. stjórn og Eimskipafjelaginu, þá er ekki þar með sagt, að þeir haldist altaf. Það gæti viljað svo til, að samvinnan færi út um þúfur, hvorttveggja til stórtjóns. Háttv. deild afgreiddi þetta mál í fyrra með rökstuddri dagskrá, sem fór í þá átt, að leita hófanna hjá Eimskipafjelaginu um að það tæki þessar ferðir að sjer, og eins og kunnugt er, þá er heimild til um það, að ríkissjóður megi kaupa hluti í Eimskipafjelaginu fyrir 400 þús. kr., en hingað til hefir ekki verið keypt nema fyrir 100 þús. kr. Jeg vildi þess vegna heldur leggja það til, að ríkið hjálpaði Eimskipafjelaginu með því að kaupa þessa hluti, heldur en að ríkið færi að kaupa sjer skip, og jeg get vel tekið undir það með hæstv. ráðh. (MG), að það væri hreint og beint gróði fyrir landið að gefa fjelaginu Esju, til þess að losna við strandferðirnar. Jeg ætla að vísu ekki að fara að hrósa þeirri stjórn, sem verið hefir á Eimskipafjelaginu, en jeg held þó, að hún verði betri en sú, sem yrði á skipunum, ef ríkið færi að annast þetta.

Mjer virðist fara best á því fyrir þessa hv. deild, að afgreiða þetta mál á sama hátt og í fyrra, með rökstuddri dagskrá, því að jeg sje ekki, að neitt hafi komið fram, sem rjettlæti það, að hv. deild hafi skift um skoðun í þessu efni. Jeg vil því leyfa mjer að bera fram rökstudda dagskrá, í þessa átt, og lesa hana upp með leyfi hæstv. forseta. Dagskráin er þannig:

„Í trausti þess, að stjórninni takist hagkvæmir samningar við Eimskipafjelag Íslands um það, að það taki að sjer strandferðirnar og noti til þeirra að minsta kosti tvö hentug skip, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“