23.04.1927
Neðri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í C-deild Alþingistíðinda. (2888)

53. mál, strandferðaskip

Halldór Stefánsson:

Það er nú svo mikið búið að ræða þetta mál, að það er varla vert að fara að rifja upp verulega þau andmæli, sem borin hafa verið fram á móti því.

Jeg stóð upp aðallega til þess að gera fyrirspurn til hæstv. atvrh. (MG) út af því, sem hann hefir sagt við umr. og telur nú vera aðalástæðurnar til andstöðu sinnar við frv., sem sje það, að það verði að láta samgöngubætur á sjó bíða eftir því, að það komist á viðunandi samgöngubætur á landi. En nú vitum við það um samgöngur okkar, bæði á sjó og landi, að þær eru ekki sambærilegar við þær samgöngur, sem aðrar þjóðir eiga við að búa. Þetta stafar að ýmsu leyti af eðlilegum ástæðum; bæði er það, að skamt er síðan farið var að vinna að þeim, og svo er land okkar stórt og erfitt yfirferðar; þegar á það er litið, hversu margt og mikið er ógert til samgöngubóta á landi, til þess að það geti heitið með nokkrum rjetti, að þær sjeu komnar í viðunandi horf, þá verðum við að gera okkur það ljóst, að það hlýtur að líða langur tími áður en það verði gert, og eigum við þá að bíða þess svo lengi, að bættar verði samgöngur á sjó?

Einmitt vegna þess, að okkur eru nauðsynlegar samgöngur bæði á sjó og landi, vegna þess að það er miklu auðveldara að koma í framkvæmd viðunandi samgöngum á sjó, af því að þar er vegurinn til, strendur landsins umflotnar af sjó, og að með einni hyggilegri ráðstöfun er hægt að gera þær umbætur, sem menn mundu vel við una um langan tíma, þá eigum við einmitt að byrja á því. Og það á alls ekki að þurfa að tefja fyrir því, að við getum gert samgöngubætur á landi í þeim mæli, að sæmilegt sje, þó að þetta hafi verið gert áður, því að bættar samgöngur örva atvinnulífið og greiðslumáttinn, og mundu styðja svo efnalegar framfarir, að atvinnuvegirnir mundu ekki eiga erfiðara með að leggja það fram, sem þyrfti til samgöngubóta á landi, þó að þetta væri gert.

Það skilja allar þjóðir, nema ef til vill Íslendingar, að viðunandi samgöngur eru lífæðar atvinnuveganna, og ef neitað er um fje til þeirra, þá er það sama og að halda niðri atvinnulífinu. Þess vegna er það, að öll þau andmæli, sem komið hafa fram gegn þessu frv., það eru andmæli skilningsleysis á því, hvað er það fyrsta nauðsynlega. Það er náttúrlega erfitt við það að etja, á meðan menn eru af því haldnir, en það er ekki ásökunarvert, þótt reynt sje að brinda því af.

Það hefir verið rætt hjer um annað fyrirkomulag á strandferðum, heldur en nú er. Nú er það svo, að ríkið rekur strandferðirnar með Esju og greiðir auk þess Eimskipafjelagi Íslands styrk til þess að annast þær að nokkru leyti. Það hefir verið lýst þeirri hugsun, að það mundi æskilegt, að Eimskipafjelagið tæki að sjer strandferðirnar, og þess vegna ekki rjett, að ríkið færi nú að efna til annars skips. Jeg skal ekkert um það segja, nema það geti verið gott að fá fjelag eins og Eimskipafjelag Íslands til þess að reka strandferðirnar. En mjer finst, að það þurfi ekkert að hamla því, að það yrði gert, þó að ríkið efndi nú til annars strandferðaskips, því að það mundu þá verða gerðir þeir samningar, að fjelaginu yrðu fengin þau tvö skip, og svo samið um árlegan styrk til fjelagsins. Og fjelagið mundi ekki ófúsara á að taka við tveimur skipum en einu, því að hver sem vildi leysa þær viðunanlega af hendi, gerði það ekki með minna en tveimur skipum.

Þá er annað atriði, sem borið hefir verið fram á móti frv., þótt hæstv. atvrh. vildi ekki kannast við það sem sína höfuðástæðu, og það er kostnaðarástæðan. Það er auðvitað nokkuð erfitt að tala um hana, því að slíkt er ekki nema áætlun. En jeg verð að láta í ljós það álit mitt, að það mundi alls ekki víst, að tiltölulega meiri rekstrarhalli yrði, þótt tvö skip væru notuð heldur en eitt. Athugum, hvernig nú er. Til strandferða höfum við eitt skip, tiltölulega stórt og dýrt, sem er aðallega fólksflutningaskip, og þessu skipi er ætlað að hafa marga viðkomustaði og sigla oft þangað, sem lítið er að gera, bæði vegna fólksflutninga og vöruflutninga. Vegna þess, hvað skipið kemur víða við, er það svo lengi á leiðinni, að menn nota það ekki til ferðalaga, ef nokkur kostur er betri ferða, og af því leiðir náttúrlega, að það getur ekki kept um fólksflutninginn við önnur skip, sem koma á miklu færri hafnir. En ef við hinsvegar höfum tvö skip, þá ætti minna skipið að sigla á smærri hafnirnar, þar sem verkefnin eru minni, en stærra skipið ætti að fara fleiri ferðir kringum land, og mundi þá geta kept við hin skipin, sem oft sigla með fullfermi af fólki.

Af þessu álít jeg, að rekstrarhalli stóra skipsins minkaði, ef hægt væri að láta annað lítið skip annast smáflutninga, og þar að auki má benda á það, að ef tvö skip væru höfð til strandferða, þá er líklegt, að það gæti fallið niður eða að minsta kosti minkað mikið sá styrkur, sem veittur er til Eimskipafjelags Íslands, og um flutningsgjaldið vildi jeg hugsa mjer það, að komist gæti á það, sem kallað er „gegnumgangandi fragtir“, og þá væru smáu hafnirnar tiltölulega vel settar, eftir því sem hægt er. En það er eins og jeg hefi sagt áður, að það er ekki til neins að vera að ræða um þetta, á meðan menn hvorki vilja eða geta skilið þörf þá og ástæður, sem eru fyrir þessu máli.

Viðvíkjandi dagskrá þeirri, sem fram er komin, vil jeg taka það fram, að þó að hún sje svo að efni til, að það megi sætta sig við hana, ef hvort sem er á að skjóta málinu á frest, þá getum við, sem ekki viljum fresta þessu þýðingarmikla máli, alls ekki verið með dagskránni, og greiði jeg því atkvæði á móti henni.