23.04.1927
Neðri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í C-deild Alþingistíðinda. (2890)

53. mál, strandferðaskip

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Út af orðum hv. 1. þm. N.-M. áðan vil jeg segja það, að það er auðvitað rjett, að langt er enn þangað til samgöngurnar á landi komast í fullkomið horf. En það er nú svo, að ef við leggjum áfram jafnmikið af mörkum til samgöngubóta og síðastliðin ár, þá mun miða vel áfram. Það er t. d. gert ráð fyrir því, að 1932 verði kominn bílfær vegur milli Norður- og Suðurlands, ef hægt er að halda áfram með sama hraða og síðustu árin. Auk þess eru allir vegir, sem nú eru lagðir, gerðir með það fyrir augum, að þeir sameinist síðar í eitt kerfi. Þessu miðar því vel áfram, þó að auðvitað sje langt þangað til það er komið í hið besta horf. Jeg get líka viðurkent, að strandferðirnar eru ekki eins góðar og þær ættu að vera, en þær eru þó komnar mun lengra áleiðis en samgöngubæturnar á landi. Það er rjett hjá hv. þm. (HStef), að það þarf ekki að leggja veg á sjónum, en það eru ekki allir landsmenn, sem búa við sjóinn. Við verðum líka að hugsa um þá, sem búa inni í landinu, sumir í 1–3 dagleiða fjarlægð frá næstu höfn og hafa margir ljelegar samgöngur. Samgöngurnar á sjó eru dýrar, þó að ekki þurfi að leggja þar vegi. Jeg hefi bent á, að það fari alt að ½ milj. kr. til þess að halda uppi samgöngum á þessum sjálfgerða vegi, sjónum. En til viðhalds allra þeirra vega, sem nú eru, eru ekki ætlaðar meira en 200 þús. kr. á fjárlögum. Það er viðurkent af öllum, að góðar samgöngur eru lífæð atvinnuveganna, en samgöngubæturnar á landi eru líka lífæð landbúnaðarins. Á mörgum stöðum koma menn ekki afurðum sínum til hafna vegna ónógra samgangna á landi.

Þá var vikið að því, hvort skipið mundi tefja fyrir, að samningar tækjust við Eimskipafjelagið. Jeg veit það auðvitað ekki. En út af dagskránni vil jeg taka það fram, að jeg hefi litla von um, að hægt verði að ná samningum við Eimskipafjelagið um strandferðirnar. Að því leyti get jeg ekki mælt með dagskránni, og tel hana þýðingarlitla.

Háttv. 1. þm. N.-M. bjóst við minni halla af tveim skipum en einu. Það undrar mig að heyra þetta af munni manna, sem lítið þekkja til útgerðar, heyra þá staðhæfa þetta, þvert ofan í yfirlýsingu manna, sem kunnugir eru þessum efnum. Jeg staðhæfi ekki, að þeir álíti þetta ekki sjálfir, en jeg staðhæfi, að áætlun þeirra er ekki á rökum bygð. Honum þótti Esja koma of víða við og þyrfti því að fækka viðkomustöðunum. En það er eins og menn gleymi smáhöfnunum, og þetta skip er einmitt til orðið vegna þeirra, því að stóru hafnirnar hafa altaf nægar viðkomur. Það, sem aðallega þarf, er, að smáhafnirnar hafi samband við stóru hafnirnar. Það hafa verið reyndar hraðferðir með Esju, en svo fór, að einmitt þær borguðu sig verst.

Háttv. 4 þm. Reykv. áleit, að það væri best að flýja sem mest af vörum til aðalhafnanna. Þar væru vörurnar fluttar milli skipa í smærri skip og síðan fluttar í þeim til smáhafnanna. Hann hjelt, að vörurnar yrðu ódýrari á þennan hátt. Jeg skil vel, að hann, sem er þm. Reykv., vilji þetta, því að þetta er hagur fyrir Rvík. En fyrir þá, sem álíta, að hugsa beri um hag allra landsmanna, er þetta aðeins Lokaráð. Það verður ekki hægt að setja flutningsgjöldin svo niður, að það svaraði umskipunarkostnaði og auk þess flutningsgjaldinu. Umskipunin er hjer ekki svo ódýr, og þó að hv. þm. haldi, að hún muni verða sett niður, þá hefi jeg enga tryggingu fyrir því, að það verði gert. En hvers vegna beitir hann sjer ekki fyrir því sjálfur, að gjöldin verði lækkuð? Jeg hefi ekki orðið var við, að hann hafi gert neitt í þessum efnum. — Þá sagði hv. þm., að sjóleiðin væri hentugri en landleiðin. Það fer nú eftir því, hvert á að flytja vöruna. Hv. þm. gleymir þeim mönnum, sem búa langt frá höfnum. En það er eins nauðsynlegt fyrir þá að fá vörur fluttar að sjer og frá, eins og fyrir menn að senda smápinkla milli hafna. Það er ekki svo, að ekki sje fyllilega viðurkent, að þörf sje á samgöngum á sjó. En þær eru hlutfallslega lengra komnar en samgöngur á landi. Og sá munur yrði gerður enn meiri, ef hætt væri nú við nýju skipi.

Hv. þm. undraðist það, að jeg vildi gefa Eimskipafjelaginu Esju og veita því þar að auki styrk, ef fjelagið tæki að sjer strandferðirnar. Jeg sagði nú það ekki beinlínis. En jeg sagði, að það borgaði sig, og jeg held fast við það. Og jeg get sagt hv. þm. það, að þótt jeg ætti að semja um það, að fjelagið tæki að sjer strandferðirnar og ríkissjóður ætti að gefa því Esju, þá vildi jeg gera það, að því tilskildu auðvitað, að strandferðirnar yrðu eins góðar og þær nú eru. Jeg geri mjer ekki von um, eins og hann, að hagur verði af strandferðunum. Frá upphafi hefir verið halli á þeim, og sjaldan meiri en síðan Esja tók við þeim. Annars get jeg vel skilið, að hv. þm. vilji ekki láta Esju af hendi, því að hann heldur fram ríkisrekstri á öllum sviðum og vill því eðlilega ekki, að gengið sje aftur á bak á þessari braut. En jeg skil ekki, hvaða keppikefli þetta í rauninni er. Það skiftir mestu máli, að strandferðirnar sjeu í góðu lagi. Jeg skil ekki, hvað háttv. 4. þm. Reykv. átti við, er hann talaði um að „afskrifa“ af skipinu og setja þannig niður kostnaðinn, nema hann gangi út frá, að nokkuð af hinum árlega strandferðakostnaði sje fólgið í því að færa niður verð skipsins. En svo er ekki. Beinn halli af rekstri skipsins var 1926 207 þús. kr., án nokkurrar verðlækkunar á skipinu.