29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í C-deild Alþingistíðinda. (2898)

53. mál, strandferðaskip

Frsm. minni hl. (Jón Ólafsson):

Jeg stend ekki upp til þess að reyna að sannfæra hv. 1. þm. S.-M., enda hefir hann lýst yfir því, að það muni vera illkleift, og hygg jeg, að það muni ekki ofmælt. En jeg fæ ekki orða bundist, er hv. þm. vill halda því fram, að skip, slíkt sem þetta, muni ekki kosta nema 450 þúsundir króna. Jeg ljet síðastliðið ár byggja skip, sem kostaði 450 þúsundir. En það var bara einfalt fiskiskip, sem er laust við allan þann útbúnað, sem þessu skipi er ætlað að hafa, svo sem kælirúm, rúm fyrir 50 farþega, sennilega í yfirbyggingu skipsins, því að ella yrði lestarrúmið of lítið. Ef það er nú svo, að farþegarúmið eigi að vera í yfirbyggingunni, og annað hefir ekki verið upplýst, þá er mjer sama hvað hver segir, það getur ekki komið til mála, að slíkt skip geti kostað minna en um 600 þús. kr. Jeg þarf engar ágiskanir um þetta. Jeg hefi látið rannsaka það og get því slegið þessu föstu. Það er leiðinlegt að þurfa að vera að deila um þetta við menn, sem ekkert vit hafa á þessu, og jeg sje ekki, að sú þekking sje á þessu máli hjer í þessari hv. deild, að það þýði að fara að útskýra þetta nokkuð nánar. Þá sagði hv. 1. þm. S.-M., að það væri eitt hið fákænlegasta, sem fram hefði komið í þessu máli, að bera það saman við samgöngur á landi. En hann hlýtur þó að kannast við það, ef hann hugsar um það, að það liggur við borð, að heil hjeruð leggist í auðn vegna samgönguvandræða. Þau hafa sum ekki aðgang að öðru en þessu gamla farartæki, hestinum, sem hv. þm. finst vera fullboðlegur handa sveitakörlunum. En það er erfitt og seinlegt og á eftir tímanum, að þurfa að draga að sjer langar leiðir flutninga til heimilisins, t. d. timbur, á hestum. Því flýr fólkið þangað, sem samgöngurnar eru betri. Það hafa Hreppamenn í Árnessýslu og menn úr sumum hreppum Rangárvallasýslu sagt mjer, að nærri liggi, að þessar sveitir sjeu að leggjast í auðn, vegna samgangnanna. Jeg hafði með rökum sýnt fram á það við 2. umr. þessa máls, að firðir landsins hefðu allgóðar samgöngur, þar sem eimskipin koma þar við frá 15–50 sinnum. Auk þess er allur fiskur tekinn með sjerstökum leiguskipum, sem fiskkaupmennirnir senda, og ennfremur flóabátar altaf á verði, þar sem flutningaþörfin er mest. Þeir fá vitneskju um það í gegnum símann og eru óbágir á að fara og rjetta fólki hjálparhönd, þar sem þörfin er mest. Jeg hefi altaf haldið því fram og held því fram enn, að þegar beðið er um bættar samgöngur, þá eigi fyrst og fremst að líta þangað, sem samgöngulaust er, en ekki að vera að hrúga samgöngubótum þar ofan á, sem góðar samgöngur eru fyrir. Og jeg er þess fullviss, að fjarðarhjeruðunum stendur ekki samgönguleysi fyrir þrifum. Jeg vil hvorki eyða tíma þingsins nje pappír til þess að lesa upp þá „statistik“, sem hjer liggur fyrir um það, hvað sumir firðirnir greiði í flutningsgjöld og fargjöld. En það er svo aumlegt sumstaðar, að skip, sem hefir farið 15 sinnum inn á einn fjörðinn, hefir fengið fyrir það 300 kr., og á öðrum firði með 12 ferðir hefir fengist 80 kr. fyrir ferð. Hugsa jeg, að ekkert skip sje ofhaldið af þessu fyrir að sigla inn á firðina og stoppa þar. En þetta sýnir, að ekki er mikil nauðsyn á því, að senda dýrt skip í kjölfar þessara skipa. Hv. þm. N.-Ísf hefir nú í sinni ræðu tekið margt fram af því, sem jeg vildi hafa tekið fram, svo jeg get sparað mjer það. Jeg skal aðeins geta þess, að jeg skil ekki í hvaða barnaskóla hv. 1. þm. S.-M. hefir gengið til þess að fá vitneskju um viðhaldskostnað skipa. Viðhaldskostnaðurinn eykst ár frá ári. Það er talið, að hann tvöfaldist á 8 árum, þrefaldist á 12 árum o. s. frv. Lagarfoss hefir nú verið endurnýjaður um svo að kalla fult skipsverð, og viðhaldskostnaður Esju var síðastl. ár rúm 40 þús. kr. Það sjest af þessu, að þessi liður er ekki neitt smáræði. Jeg tek undir það með hv. þm. N.-Ísf., að margar sýslur landsins hafa ekki minstu not af þessu skipi. Allar þær sýslur, sem hann nefndi, eru útilokaðar, og þó að Árnes- og Rangárvallasýsla hafi viðkomustaði, þá kemur varla fyrir, að þar úti fyrir sje svo dauður sjór, að skip geti komið við á höfnunum þar. Þó að gott veður sje í dag, þá mundi mjer ekki detta í hug að senda flutning austur þangað með skipi, því að það er eins líklegt, að þar sje ófært veður á morgun, svo að ófært sje að skipa vörum upp.

Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar. Jeg vil halda fast við það, að með þeim tekjum, sem ríkissjóðurinn hefir nú og fyrirsjáanlegar eru í framtíðinni, þá höfum við engin efni á því að fara að leggja út í fyrirtæki, sem fyrirsjáanlegt er um að gefa mikinn tekjuhalla. Jeg sýndi fram á það við 2. umr., að hann mundi tæplega verða minni en á 8. hundrað þús. kr. Ríkissjóðurinn þarf af fá vexti og fyrningu af skipinu, til þess að geta endurnýjað það á rjettum tíma. Ef þetta er ekki tekið með, þá er verið að fara í felur með sannleikann. Jeg býst við, að hv. flm. (SvÓ) hafi ekki tekið þetta með, vegna þess að hann hefir ekki talið það heppilegt. En það er öllum, sem vit hafa á, kunnugt, að skipið endist ekki nema ákveðið tímabil, en þá þarf að endurnýja aðalparta þess. Jeg er sannfærður um það, að þess verður langt að bíða, að þetta skip verði bygt. Engum flokki mun detta í hug að ráðast í það, að athuguðu máli.