29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í C-deild Alþingistíðinda. (2901)

53. mál, strandferðaskip

Frsm. minni hl. (Jón Ólafsson):

Mjer þótti vænt um að heyra þessi fáu orð hv. þm. Str. Þau minna menn svo undur þægilega á, hve hliðhollur hann er hinu mesta nauðsynjamáli austursveitanna, járnbrautarmálinu. Honum svipar þar raunar til gömlu mannanna, sem komu til Magnúsar Stephensen, um að þykja samgöngurnar nógu góðar. Þeim þóttu hestar nógu góð farartæki handa sjer, og voru þar í samræmi við háttv. frsm. meiri hl. (SvÓ), sem þykja hestar nógu hraðfara farartæki handa Suðurlandi, enda þótt hann sje öðru hverju að tala um flugsamband við Austfirði. — Hv. þm. Str. vill ekki neita Austfirðingum og öðrum um þessa samgöngubót, til að greiða fyrir afurðasölunni, að hann segir. Jeg held, að hv. þdm. ættu fyrst að líta á, hvað er að flytja frá þessum mönnum, sem í raun og veru hafa ágætar samgöngur. Jeg hefi gert nokkurt yfirlit um þetta, og hefi komist að því, að nú er ekki meira að flytja kringum land en árið 1914. Að fiski frátöldum, en hann taka oftast sjerstök skip, hefir framleiðslan ekki aukist svo, að þess vegna sje ástæða til að fá nýtt skip, til að sigla umhverfis land í kjölfar annara skipa. Jeg hugsa, að hv. þm. Str. fengi nokkra hugmynd um nauðsynina á þessu, ef hann nenti að kynna sjer rekstur „Nonna“ sl. ár. Hann var á ferðinni um sláturtíðina, þegar mest var að gera, en gat samt ekki argað upp nema 21 þús. kr. í farmgjöld. Á sama tíma eyddi hann 50–60 þús. kr. Jeg held það sje misskilin föðurlandsást að eyða öllu þessu í Austfjarða-samgöngur, sem bersýnilega eru aðalatriðið. Þá liggur nær að eyða hinu sama fje til að hjálpa samgangnalausum hjeruðum, eins og jeg hefi oft sagt áður. En þar kalla jeg samgöngulaust, sem ekki er hægt að koma við öðru flutningatæki en klyfjahestinum, og þannig er nú víða ástatt á Íslandi. Enda eru nú mörg góð fjallabýli að leggjast í eyði. Í Árnessýslu eru t. d. stórjarðir, sem í mínu ungdæmi höfðu 300 sauða, auk annars kvikfjenaðar, að fara í auðn af samgönguleysi. Jeg fæ ekki skilið afstöðu þeirra manna, sem ekki vilja líta á þetta jafnframt strandferðunum, sem eru í mjög góðu lagi, eftir því sem menn eiga hjer alment við að búa. Það er auðvitað æskilegt að hafa sem flest skip á hringferð um landið. En það er aðeins þetta: Leyfir fjárhagurinn það? — Jeg veit, að síðar, þegar hv. þm. Str. athugar þetta mál á ný, hlýtur hann að sjá, að ríkissjóður hefir í fleiri horn en þetta eina að líta.