29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í C-deild Alþingistíðinda. (2902)

53. mál, strandferðaskip

Tryggvi Þórhallsson:

Það er eingöngu út af ræðu hv. síðasta ræðumanns, að jeg stend upp. Hann meinti það víst í spaugi og háði til mín, að jeg ætti ekki að vera að minnast á austankarlana gömlu, því að jeg vildi ekki járnbraut. Jeg veit ekki, hvaðan honum kemur sú viska, nema hann marki það af afstöðu minni til frv. þess, er hann og ýmsir aðrir hafa viljað grímuklæða sem járnbrautarfrv., en er fyrst og fremst sjerleyfi til útlends gróðafyrirtækis, ef það er nokkuð. Jeg segist vera hissa á þeirri ósvífni, að kalla þetta járnbrautarmál, þegar búist er við, að allar framkvæmdir fjelags þess, til stofnunar, er hjer um ræðir, eiga að kosta nálægt 100 miljónum króna, en járnbrautin varla nema 6 miljónir. Það er næsta undraverð blekking, að kenna málið við 6%, en láta 94% að engu getið í nafni þess. — Jeg greiddi atkvæði með því, að ríkissjóður kostaði járnbrautina að nokkrum hluta, en jeg greiddi atkv. á móti öllu frv., og þar með á móti þeirri breytingu, sem jeg hygg að af þessu geti stafað í þjóðlífi Íslendinga. — Og hv. 3. þm. Reykv. var ærið óheppinn, er hann líkti mjer við austankarlana, sem komu til Magnúsar Stephensen. Einmitt í þessu máli, er hann vitnaði til, er það jeg, sem stend í sporum Magnúsar Stephensen. Það var hann, sem kom í veg fyrir það, er útlendingar ætluðu að leggja undir sig öll bankamál Íslendinga í heila öld. (KIJ: Marghrakið!). — Hv. 3. þm. Reykv. var með einhverjar glósur til mín um ást á Austfjörðum. Hann var víst búinn að gleyma því, að jeg er þingmaður Strandamanna. Því að eflaust má ætla hann fróðari en svo í landafræði, að hann hyggi Strandir á Austfjörðum. En þetta strandferðaskip á líka engu síður að vera til gagns fyrir allar hinar dreifðu bygðir meðfram ströndum Íslands. Það er eflaust rjett reiknað, að strandferðaskip munu ekki gefa mikla beina vexti í ríkissjóð. En hvar eru beinu vextirnir af Ölfusárbrú, Hellisheiðarveginum o. s. frv.? Það má einnig vel vera, að satt sje, að sumstaðar á landinu sjeu fjallabýli að leggjast í eyði og að það stafi meðfram af samgönguleysi. Þó er það svo um eina afskektustu sveit þessa lands, þá sem einna hæst liggur yfir sjó, Mývatnssveit, að þar hefir fólki fjölgað á síðustu árum. — Já, það er rjett hjá hv. þm. (JÓl), að við höfum í mörg horn að líta. Og við höfum svo takmarkað fjármagn, að við verðum altaf að gera það vandlega upp við okkur, hvert best er að beina því. Og þetta mál álít jeg svo þarft og gott, að jeg hika ekki við að greiða því atkvæði, og taka það fram yfir flest annað.