29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í C-deild Alþingistíðinda. (2913)

53. mál, strandferðaskip

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg hefi alls ekki á móti því, að frv. þetta fái að fara til 2. umr. og nefndar, enda tel jeg sjálfsagt, að það verði athugað þar mjög rækilega og kæmi alls ekki á óvart, að sú rannsókn leiddi í ljós, að eins og sakir standa, sæi nefndin sjer ekki fært að halda málinu til streitu.

Um flóabátastyrkinn er jeg sömu skoðunar og áður. Jeg veit með vissu, að á honum er ekkert hægt að spara, nema þá með stórri afturför um samgöngur hlutaðeigandi hjeraða. Svo er t. d. um „Suðurland“, „Skaftfelling“ og Ísafjarðarbátinn. Ætti að spara styrk við þessa báta, þýðir það ekki annað en að samgöngur þessara hjeraða, sem þar eigi hlut að máli, yrðu langt um verri. Og sama er að segja um ýmsa aðra flóa- og fjarðabáta. Enda mundi það ekki borga sig fyrir ríkissjóð að fækka þessum ferðum, því að þessir bátar annast póstflutning og fleira ríkinu viðkomandi.

Út af því, sem hv. 4. landsk. sagði um styrkinn til Eimskipafjelagsins, þá er jeg þeirrar skoðunar, að hann eigi að haldast, og að nauðsynlegt sje, að skipin komi á smáhafnirnar, er þau koma frá útlöndum. Ef athugaðar eru áætlanir millilandaskipa Eimskipafjelagsins, þá sjest, að þau koma allajafna beint upp til Djúpavogs og rekja svo þaðan hafnir kringum land og flytja vörurnar beint til kaupenda. Þetta fyrirkomulag verður því að álítast mjög hagkvæmt fyrir almenning. Og þó að hægt sje að koma á sambandi milli Eimskipafjelagsins og strandferðaskipanna með góðum kjörum, þá verður ekki komist hjá því, að vörurnar hljóta að verða talsvert dýrari við það, að þurfa að umskipa þeim. Það getur því ekki komið til neinna mála að fella niður styrkinn til Eimskipafjelagsins, því að það eru einmitt þessar ferðir skipanna inn á smáhafnirnar, sem þorra landsmanna þykir vænst um og mundu lítt við una, ef feldar væru niður.