26.03.1927
Neðri deild: 39. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í C-deild Alþingistíðinda. (2932)

72. mál, fiskimat

Pjetur Ottesen:

Mjer virtist, að hv. frsm. sjútvn. (SvÓ) í þessu máli væri allsendis ókunnugt um, hvað rætt var um málið hjer á dögunum. Mjer skildist það á þeim skilaboðum, sem hann bar mjer frá sjútvn., að hún mundi verða á móti brtt. mínum á þskj. 175, vegna þess að með þeim væri stofnað til óþarfa kostnaðar. Þetta voru einu mótmælin, sem hann kom fram með gegn þessum brtt., og er jeg ber þau saman við ræðu hv. 2. þm. G.-K. hjer á dögunum, þá kemur mjer það harla undarlega fyrir sjónir, að fá slík skilaboð frá honum, og reyndar öðrum nefndarmönnunum líka, þar sem hann þóttist þá tala í nafni allrar nefndarinnar. Jeg ætla því að leyfa mjer að rifja upp gang þessa máls, svo og hvernig það hefir borið að hjer í deildinni, til þess að það skýrist fyrir hv. frsm. (SvÓ), hvað fram fór, er málið var hjer áður til umræðu. En þá var hann fjarstaddur sökum veikinda.

Samkvæmt þingsköpunum er svo fyrir mælt, að hverju lagafrv. skuli fylgja greinargerð, þar sem tekinn sje fram tilgangur þess yfirleitt og skýring á höfuðákvæðum. Auk þess er venja, að framsögumaður taki fram við 1. umr. hvers frv., sem flutt er hver tilgangurinn sje með lagasmíðinni og hvaða verk hún eigi að vinna, ef slíkt er eigi nógu skýrt fram tekið í greinargerðinni. Þetta finnur hver einstakur þingmaður, sem frv. flytur, skyldu sína að gera. En þegar það er fastanefnd, sem að flutningi frv. stendur, þá ætti að mega vænta þess, að slík frv. væru ekki síður á þinglegan hátt fram borin, að því er þetta snertir.

En hvernig er nú þessu farið um þetta mál? Jeg sýndi fram á það, að í greinargerð frv. er aðeins talað um, að nauðsynlegt sje, að skipaður sje maður til eftirlits og samræmingar í matinu, og ferðaðist hann um landið í þessu skyni. Þetta tók hv. frsm. sjútvn. einnig fram í ræðu sinni, og mintist ekki á, að neitt meira byggi undir þessu hjá sjútvn. Hv. frsm. sagði meðal annars, þegar hann var búinn að tala um 1. gr. frv.:

„Annars kyns er breytingin í 2. gr., sem er afleiðing af kvörtunum þeim, er fram hafa komið um það, að ósamræmi væri á fiskimatinu í hinum ýmsu landshlutum. Yfirfiskimatsmennirnir ferðast hver um sitt svæði til eftirlits, en þeir hafa ekkert fast samband sín á milli, og því er ekki ætíð samræmi í gerðum þeirra.“

Síðan heldur hann áfram, að tilætlan nefndarinnar sje, að þessi maður ferðist um landið; ferð hans sje nánast rannsóknarferð; síðan leggi hann árangur ferðalags síns fyrir nefnd manna hjer, stjórn Fiskifjelagsins, Fjelag íslenskra botnvörpuskipaeigenda og útgerðarfjelögin. Þetta er alveg í samræmi við orðanna hljóðan í frv., og hv. frsm. gat ekkert um annað en að þetta væri frambúðar skipulag. Hann gat ekkert um það, að annað eða meira byggi undir þessu. Samkvæmt frv., grg. og framsöguræðunni var því ekki sjáanleg nein endurbót á því ósamræmi, sem nú er sagt að sje á fiskimatinu, önnur en sú, sem leitt gæti af yfirreið þessa farandmanns, sem er algerlega valdalaus — og um þekkinguna fer auðvitað eftir atvikum — og sem hvorki er fugl nje fiskur til þessa starfs, eins og hv. 2. þm. G.-K. komst að orði um hann í ræðu sinni.

Þannig lá þetta mál fyrir, þegar jeg bar fram brtt. mínar, og það liggur þannig fyrir enn, því hv. sjútvn. hefir ekki komið fram með neinar breytingar við það.

Að jeg hefi gert þetta að umtalsefni, eða rifjað upp, hvernig mál þetta hefir borið hjer að, stafar af því, að þegar jeg var búinn að gera grein fyrir mínum brtt. á þskj. 175 hjer á dögunum, þá reis hv. 2. þm. G.-K. upp og talaði langt mál um þetta frv. sjútvn. Þá sýndi það sig, að þetta frv. gefur ekki nema að örlitlu leyti hugmynd um það, sem vakir fyrir sjútvn. að gera beri til endurbóta á fiskimatinu, eftir því sem marka mátti af orðum þessa hv. þm. Munurinn er hvorki meiri nje minni en sá, að í stað þessa veslings farandfiskimatsmanns, sem er algerlega valdalaus og sem hv. 2. þm. G.-K. tók rjettilega fram um, að hann væri hvorki fugl nje fiskur í þessari mynd. Í stað þessa manns hugsar nefndin sjer að setja á stofn nýtt embætti. Jeg bið hv. frsm. (SvÓ) að taka vel eftir þessu. Í þetta embætti á svo að skipa mann, sem sje hæstráðandi í þessum málum, yfirmaður allra núverandi yfirfiskimatsmanna. Hann á að vera hjer á ferðalagi alt sumarið, en á svo að fara á hverju hausti með farfuglunum til Miðjarðarhafslandanna, koma aftur með þeim á vorin. Munurinn á frv. og því, sem hv. þm. sagði, að fyrir sjútvn. vekti, var hvorki meiri nje minni en þetta! Hv. þm. talaði svo öðrum þræði um þetta frv. sem nokkurskonar inngang að því, að koma stóru hugmyndinni í framkvæmd, en að öðrum þræði talaði hann svo um frv., sem með því væri þetta fyrirkomulag lögfest. En það gerði hann, þegar hann var að gera samanburð á mínum brtt., sem hjer liggja fyrir, og þessu fyrirkomulagi. Hann bar þetta þannig saman, að svo virtist sem hann ætlaðist til að málið yrði afgreitt á þessum grundvelli. En sá samanburður á alls ekki við, eins og málið raunverulega liggur fyrir, og er ekki og getur ekki verið til annars gerður en að villa mönnum sýn. Hjer getur ekki verið um annan samanburð að ræða en þann, að bera saman till. sjútvn., eins og þær eru í frv., og brtt. mínar á þskj. 175. Það er augljóst mál, að við afgreiðslu þessa máls verða menn að taka afstöðu eftir tillögum þeim, sem hjer liggja fyrir. Er þá annarsvegar að ræða um þessa tilraun sjútvn. með farandfiskimatsmanninn, sem raunar á ekki að meta neinn fisk, og hinsvegar brtt. mínar um það, að þegar sjeu gerðar raunverulegar ráðstafanir til þess að ráða bót á því, sem áfátt kann að vera í þessu efni. Með mínum tillögum er lagður grundvöllur að því, að auka raunverulega þekkingu yfirmatsmannanna sjálfra, með því að gefa þeim kost á að fara til Miðjarðarhafslandanna, til þess að sjá með eigin augum, hvaða kröfur neytendur gera um verkun fiskjarins og alla meðferð. Ennfremur eru gerðar þær ráðstafanir, sem langlíklegastar eru til þess, að koma samræmi á matið, með því að kveða svo á í lögunum, að þeir eigi fund með sjer einu sinni á ári til þess að ræða um þessa hluti.

Menn verða því að velja á milli þessara tveggja tillagna, þess annarsvegar, að slá öllum umbótum á fiskimatinu á frest um óákveðinn tíma, eða hinsvegar að fara eftir mínum tillögum og gera þegar í stað raunhæfar endurbætur á þessu sviði. Þannig liggur þetta mál fyrir.

Hv. 2. þm. G.-K. gerði enga tilraun til þess í ræðu sinni að halda því fram, að till. sjútvn., eins og þær eru í frv., jafngiltu að nokkru leyti mínum till. Hann viðurkendi meira að segja, að í mínum tillögum fælust víðtækari endurbætur, svo sem för yfirfiskimatsmanna til Miðjarðarhafslandanna. Þetta er auðvitað rjett hjá hv. þm., og er þetta fullkomin viðurkenning af hans hendi fyrir því, að mínar till. taki langt fram tillögum sjútvn., eins og þær liggja fyrir. En hans ræða gekk öll út á það, að reyna að færa rök að því, að sú tilhögun, sem hann og sjútvn. hefðu komið auga á einhversstaðar úti í framtíðinni, mundi taka mínum tillögum fram og vera raunhæfari en þær. En þar sem engar tillögur í þessa átt liggja hjer fyrir, þá er í raun og veru ekki nein ástæða til þess að fara neitt út í þennan hluta ræðu hans og gera samanburð á mínum tillögum og hinum fyrirhuguðu tilætlunum hans eða nefndarinnar. Það er síður en svo, að sú tilhögun, sem hann hjelt þar fram, raskaði nokkru um þá skoðun, sem jeg hefi myndað mjer um það, hvað tiltækilegast sje að gera í þessu máli og hvað líklegast sje til úrlausnar. Skal jeg nú minnast nokkuru nánar á ræðu hv. 2. þm. G.-K., og kryfja til mergjar ástæður hans.

Hv. þm. gat um, að sölufyrirkomulagið á fiskinum væri þannig, að verð fiskjarins væri greitt hjer í banka, þegar hann væri kominn í skip. Og hv. þm. sagði einnig — jeg bið menn að taka vel eftir því — að aðaltryggingin fyrir kaupanda hlyti jafnan að liggja í matsskjölunum. Nú vil jeg vekja athygli á því, að þótt breyting hv. sjútvn. kæmist á, þá eru það eftir sem áður yfirfiskimatsmennirnir, sem undirskrifa matsskjölin og veita þannig trygginguna fyrir, að fiskurinn sje rjett flokkaður og ástand hans alt svo sem tilskilið er. — Eins og hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) gat um, þá stingur þessi ferðalangur aðeins stafni við, ef til vill á hverri höfn, og getur hvergi staðið við nema skamma stund, þar sem hann hefir alt landið til yfirferðar. — Sú raunverulega trygging, sem alt verður að byggjast á, er því samviskusemi, dugnaður, vandvirkni og áhugi yfirfiskimatsmanna, og að undirfiskimatsmenn, sem aðallega meta fiskinn, sjeu líka þessum kostum gæddir. (ÓTh: Var það ? —). Já, það var það — jafnframt því, sem þeir hafa nána samvinnu við og eru undir eftirliti yfirfiskimatsmannanna.

Þá kom hv. þm. að því, að telja upp kosti þá, er hv. sjútvn. þættu vera á sínum tillögum. Mjer þótti hann raunar frekar vera að telja upp ókosti, því að það tel jeg ókost, að öll tilhögun á starfi þessa umferðafiskimatsmanns sje þannig, að honum verði ekki valið virðulegra heiti en það, að hann verði hvorki fugl nje fiskur í starfinu. En það voru bæði fyrstu og síðustu orð hv. þm. um hann. Mjer finst, að þar sje enn fengin fullkomin játning um, að þessi till. sje ákallega fánýt. Þá talaði hv. þm. um þetta starf sem nokkurskonar rannsóknarstarf. Svo á að leggja rannsóknir þessa manns undir dóm yfirfiskimatsmanna í Reykjavík, og mjer skilst það vera alveg undir atvikum komið, hvernig sá dómur fellur. Jeg vil þegar í stað spyrja hv. 2. þm. G.-K., hvort þetta sje ekki rjett skilið hjá mjer. (ÓTh: Jeg kem að þessu á eftir.) Jeg geri ráð fyrir, að þetta hljóti að vera rjett hjá mjer, úr því að tunguhaftið á hv. þm. er svo óvenjulega stirt, að hann getur ekki svarað þessu strax. (ÓTh: Það verður liðugra á eftir.) — Með öðrum orðum er hjer aðeins verið að gera tilraun, sem víst er, að litla eða enga þýðingu hefir fyrir fiskmatið og alls enga á þessu ári. Það er alveg undir atvikum komið, hvort þessari tilraun verður haldið áfram, og ef aðilar þeir, sem eiga að dæma um þessar rannsóknir, álita till. umferðafiskimatsmannsins einskis virði, þá stöndum við alveg á sama stað og áður. — (ÓTh: Má jeg koma með eina spurningu: Hvaða gagn yrði að till. hv. þm. Borgf. á þessu ári?). Hv. þm. spyr, hvaða gagn yrði að minni till. á þessu ári. Það yrði það gagn, að þegar, er till. hefir náð samþykki Alþingis, mundi hæstvirt landsstjórn telja sjer bæði rjett og skylt að láta yfirfiskimatsmennina koma saman á fund, svo framarlega sem hún álítur þá þörf aðkallandi að gera ráðstafanir til þess að ráða bót á fiskimatinu. Ef hv. þm. (ÓTh) er ekki fullsvarað með þessu, þá getur hann haldið áfram að spyrja.

Þá fór hv. þm. mörgum orðum um, að það yrði aldrei að neinu liði, þótt yfirfiskimatsmennirnir kæmu saman á fundi hjer í bænum. Að vísu dró hann ekki í efa, að þeir mundu geta komið sjer saman um hitt og þetta, en þeir hefðu ekkert úrskurðarvald og enga aðstöðu til að geta skoðað fisk á ýmsu þurkstigi til að geta borið sig saman, þegar þeir væru hjer í bænum. Jeg vil nú benda hv. þm. á, að þeir hafa allir hið æðsta vald, hver í sínu umdæmi. (ÓTh: En hver hefir æðsta vald á sameiginlegum fundi þeirra?). — Til þess að svara þessu, þarf aðeins að benda á, um hvað þeir eru að ræða á þessum sameiginlega fundi. Þeir eru að tala um þær endurbætur, sem hver um sig geti gert á fiskimatinu í sínu umdæmi, og er þar með lagður grundvöllurinn að því fylsta samræmi í matinu, sem hægt er að ná. Það eina, sem til spillis gæti orðið, væri það, ef þeir kæmu sjer ekki saman. En hv. 2. þm. G.-K. fullyrðir, að til slíks muni aldrei koma.

Þá er hitt atriðið, að þeir hefðu ekki fisk á ýmsu verkunarstigi til að athuga, ef þeir kæmu til dæmis hjer saman að vetrarlagi. Þessi mótbára hefði e. t. v. verið einhvers virði fyrir mörgum árum. En nú hafa orðið svo miklar framfarir í fiskverkun, að þessi mótbára nær engri átt. Nú eru komin fiskþurkunarhús í flestum stærri kaupstöðum, og hjer eru þau á hverju strái. Þar má á hvaða tíma sem er fá fisk á flestum eða öllum þurkunarstigum. Hv. 2. þm. G.-K. á t. d. yfir að ráða einu slíku þurkhúsi, og jeg þykist vita, að hann yrði manna fúsastur til að leyfa fiskimatsmönnunum að athuga fisk hjá sjer. (ÓTh: Veit hinn fróði þm. ekki, að sólþurkaður og húsþurkaður fiskur er alveg ólík vara?). Rjett er það, en hjer ræðir ekki um að athuga þann gæðamun, sem er á sólþurkuðum fiski og þeim, sem þurkaður er við kolahita. Hjer á aðeins að athuga herslustig fiskjarins, og þar hygg jeg, að á sama standi, hvor verkunaraðferðin er höfð. Fiskimatsmennirnir geta því altaf haft hjer nægan fisk til athugunar og komið sjer saman um, á hvaða herslustigi 1/10, 7/8 og ¾ þurkaður fiskur eigi að vera. Þar með er tilganginum náð. Það var hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) — elsti og reyndasti maður í þessum efnum af þeim, sem hjer eiga sæti — sem sagði, að það væri einmitt í þessum atriðum, sem fiskverkun væri helst áfátt. Fiskimatsmennirnir gætu m. a., og mundu gera, að taka til athugunar það ósamræmi, sem sagt er að eigi sjer stað um Labradorfisk, ekki einasta um þurkun þessa fiskjar, heldur og, hvernig hann skuli flattur. Þar skiftir miklu máli, hvort fiskurinn er flattur aftur úr eða skorið út úr aftan við gotraufina.

Jeg verð því að álíta, að þetta sje langbesta leiðin, sem enn hefir verið orðuð, til þess að koma lagi á fiskimatið. Óttinn um, að fiskimatsmennirnir hafi ekki fullkomið vald til að ráða sínum ráðum, er ástæðulaus með öllu.

Þá tók hv. þm. (ÓTh) mjög vel þeirri till. minni, að senda fiskimatsmenn öðru hverju til Miðjarðarhafslanda. Hann viðurkendi, að gott væri að þeir sæju með eigin augum þær kröfur, er neytendur gera til fiskjarins, og fann það helst að, að mínar till. færu of skamt, þar sem ekki væri gert ráð fyrir, að nema einn maður færi annað hvert ár eða tveir þriðja hvert ár. Sagði hv. þm., að sjútvn. hefði hugsað sjer, að þessi nýi yfirfiskimatsmaður færi árlega til Miðjarðarhafslanda, og var svo að sjá, sem hv. nefnd áliti það óhugsandi eftir mínum till. En þær eru einmitt svo orðaðar, að yfirfiskimatsmennirnir skuli sendir að minsta kosti svo oft sem þar segir, og er landsstjórninni því heimilt að senda þá oftar, ef henni þykir þörf á.

Mjer kom það nokkuð spánskt fyrir, þegar hv. frsm. kom með þau skilaboð frá sjútvn., að henni þætti stofnað til óþarfa kostnaðar með till. mínum, hvað snertir þessar ferðir til Miðjarðarhafslandanna. Mjer þykir vænt um að sjá það, sem jeg raunar þóttist strax vita, að þessi skilaboð voru ekki frá hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh). Hann ber áreiðanlega svo gott skyn á, hve nauðsynlegur þáttur það er í því, að framleiða góða vöru og við hæfi fiskneytendanna, að yfirmatsmennirnir eigi kost á því að kynnast af eigin sjón og reynd kröfum þeirra um ásigkomulag fiskjarins, þó að honum skjátlist mjög skarpsýnin að öðru leyti í þessu máli.

Nú má benda á, að eftir þeirri till., sem hjer liggur fyrir frá hv. sjútvn., á enginn maður að fara þessar suðurferðir. Og þótt það kæmist í framkvæmd, sem hv. 2. þm. G.-K. vill og segir, að sjeu framtíðarhugmyndir og markmið sjútvn. — en því er nú reyndar mótmælt af öðrum nefndarmönnum — að þessi umferðafiskimatsmaður færi árlega til Spánar eða Ítalíu, þá er þar með gersamlega útilokað, að yfirfiskimatsmennirnir, sem ábyrgðina eiga að bera, sjái með eigin augum, hvaða kröfur neytendurnir gera. En það taldi hv. þm. (ÓTh) einmitt mjög mikilvægt atriði. Þarna stangast þetta framtíðarskipulag hans á við hans eigin skoðun, eins og hún er nú.

Það er öllum kunnugt, hve mikla þýðingu fyrir sjávarútveginn starf Þorsteins heitins Guðmundssonar yfirfiskimatsmanns hefir haft. Að kunnugra manna dómi var grundvöllurinn að starfi hans lagður með för hans til Spánar. Og það hefir verið upplýst af hv. 3. þm. Reykv. (JÓl), að sendiför fiskimatsmanna til Spánar fyrir þrem árum hafi flutt inn í landið miljónagróða. (ÓTh: Þetta voru rangar upplýsingar.) Það geta þeir ást við um, hv. 3. þm. Reykv. og hv. 2. þm. G.-K., sín á milli. Jeg vil aðeins segja, að jeg ber fult traust til hv. 3. þm. Reykv. um að færa rök fyrir sínum málstað.

Hv. þm. (ÓTh) var ennfremur að tala um, að jeg hefði ráðgjafa í þessu máli. Við þekkjum nú úr sögum og æfintýrum frá gömlum tímum margskonar ráðgjafa, og hv. þm. virðist halda, að jeg hafi einhverja af hinum vondu ráðgjöfum, þar sem væru fiskimatsmennirnir. — Ónei, jeg hefi nú enga þessháttar ráðgjafa haft, er jeg samdi till. mínar. Hitt virtist mjer sjálfsagt, að bera tillögurnar undir þá, því að þótt þeir sjeu ekki óskeikulir, frekar en aðrir menn, þá sýndist engin goðgá að leyfa þeim að láta í ljós álit sitt um þetta mál, sem þeim öðrum fremur er kunnugt um og snertir þá mjög mikið. Þessir menn finna fullkomlega til ábyrgðar þeirrar, sem á þeim hvílir í starfi þeirra, og vita áreiðanlega öðrum fremur við hvaða erfiðleika er hjer að stríða. — Fiskimatsmönnum ætti að vera það kunnugast sjálfum, hvar skórinn kreppir. Álits yfirfiskimatsmannanna leitaði jeg ekki fyr en till. mín var komin fram. Niðurstaðan, sem yfirfiskimatsmennirnir hafa komist að við athugun á þessari tillögu, varð sú, að 4 af 5 hafa lýst yfir eindregnu fylgi sínu við mínar till., en til hins 5. hefir ekki náðst. Auk þess liggur fyrir tillaga, sem samþykt var á aðalfundi Fiskifjelagsins, en hann stóð yfir um það leyti, sem jeg kom með till. mínar. Sú samþykt hljóðar svo:

„Aðalfundur Fiskifjelags Íslands skorar á Alþingi að hlutast til um, að fiskimatið verði betur samræmt en átt hefir sjer stað undanfarið. Telur fundurinn það nauðsynlegt, að yfirfiskimatsmenn komi saman á fund einu sinni á ári, hjá atvinnumálaráðuneytinu, og að yfirfiskimatsmennirnir færu til markaðslandanna, einn eða tveir, a. m. k. annaðhvert ár.“

Þetta er nú álit aðalfundar Fiskifjelagsins um þær till., sem hjer liggja fyrir. Virðist mjer undarlegt, ef hægt er að ganga steinþegjandi fram hjá áliti þess aðila.

Jeg geri ráð fyrir, að umræðu verði frestað og fundi slitið, þegar jeg hefi lokið máli mínu. Jeg get búist við, að háttv. 2. þm. G.-K., og ef til vill fleiri flm. þessarar till., hafi eitthvað við það að athuga, sem jeg hefi nú sagt. En jeg hefi talað tvisvar, svo að eftir þingsköpum er jeg „dauður“. Því vil jeg mælast til þess við hæstv. forseta, að hann veiti mjer framsögumannsrjett og leyfi mjer að tala einu sinni enn, er málið kemur aftur á dagskrá. Till. mínar eru þess eðlis, að það virðist rjettmætt að heimila þetta, enda þótt jeg hafi kosið að bera þær fram sem brtt., frekar en í frv.-formi.

Að síðustu vil jeg þakka hv. 3. þm. Reykv., sem um þessi efni hefir meiri reynslu og þekkingu en nokkur annar háttv. þm., hve vel hann hefir tekið till. mínum.