31.03.1927
Neðri deild: 43. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í C-deild Alþingistíðinda. (2937)

72. mál, fiskimat

Jón Ólafsson:

Það er þegar búið að tala svo mikið um þetta mál, að það fer að verða að bera í bakkafullan lækinn að tala meira um það, ekki síst á þeim grundvelli, sem nú er farið að ræða það.

Jeg hafði hugsað mjer að halda mjer við tillögur hv. sjútvn. Þessi mikli þóknunarlegáti hv. nefndar er alt í einu orðinn að miklum fræðara, þegar það endanlega skipulag er komið á. Málið er nú komið svo út fyrir þann upphaflega grundvöll, að nefndin er farin að byggja á spádómsgáfunni einni um það, sem verða muni. Jeg held, að hv. sjútvn. hefði átt að vita, að sú litla fjárhæð, sem veitt er til yfirfiskimatsmanna, er svo lítil, að margsinnis hafa komið fram kvartanir um, að þeir fengju ekki nóga peninga til þess að ferðast innan síns eigin umdæmis. Fyrst og fremst á auðvitað að samræma mat í hverjum fjórðungi fyrir sig, og yfirleitt er alls ekki um samræmi milli fjórðunganna að ræða. Það er t. d. ekki hægt að samræma mat í Vestmannaeyjum og á Vestfjörðum. Fisktegundir eru aðrar og markaður annar. Jeg álít því, að alt þetta samræmistal sje mjög svo fljótfærnislegt, og því hefir nefndin tekið þann kostinn, að tala um þetta sem barn í reifum, sem hún ætlar að láta leiða sig í allan sannleika seinna. Jeg hjelt, að hv. nefnd mundi ekki fara svona undan í flæmingi, að hlaupa inn í einhvern hugsjónaheim, en frá tillögum sínum.

Jeg hugsa, að hv. 2. þm. G.-K. viti, að ekki er hægt að koma því svo fyrir, að þessi maður geti fengið samræmi á mati. En það er ef til vill orðið um seinan að benda á þetta. Nú er komið kapp í málið. En jeg tel hv. 2. þm. G.-K. bera ábyrgðina á frágangi þessa máls. Það er ómögulegt að ætlast til, að menn, sem aldrei hafa komið nálægt fiski á æfinni. geti neitt um það vitað. Þess vegna verður hv. 2. þm. G.-K. að bera ábyrgðina.

Það er ekki verið að hossa þessum manni sjerlega hátt. Hann á að fá þóknun, sem aldrei getur orðið há, nema fram komi tillaga um hækkun á fjárhæð þessari, er ætluð er til ferðakostnaðar matsmanna landsins. Það lítur því út fyrir, að fyrir hv. nefnd vaki, að hafa þennan mann einnig í öðrum erindum, því að ekki getur hann lifað á ferðakostnaðinum einum saman. Jeg get ekki annað sjeð, eftir þeim plöggum, sem fyrir liggja, en að þetta sje „sporsla“, sem megi fela einhverjum og einhverjum. En hv. nefnd hefir forðast að geta þess, að ómögulegt er að samræma fiskimat frá veiðistöð til veiðistöðvar. Nú veit hv. þm. (ÓTh), að þegar þessi flugfiskur kemur inn á þennan og þennan fjörð og er sýndur fiskur, sem er nýkominn í hús og finst hann vera fullharður, getur hann eftir þrjá daga verið orðinn svo linur, að hann sje ekki matsfær. (SigurjJ: Hvað verða nöfnin mörg? Nú eru þegar komin þrjú: ferðalangur, farfugl og flugfiskur!) — Jeg læt hv. nefnd um það, enda býst jeg við, að ekki sje endanlegt samkomulag um nafnið í nefndinni. (KlJ: Það ætti að heita verðlaunum fyrir besta nafnið!). — Nefndin borgar af ferðapeningum matsmanna!

Hv. 1. þm. S.-M. er hálfhissa á öllu því moldviðri, sem gert hefir verið um þetta frv., og það er ósköp eðlilegt, því að jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi lagt fram þetta frv., eins og aðrir hv. nefndarmenn, í bestu meiningu. En það er ekki nóg að gera eitthvað í bestu meiningu; það verður líka að gera það af bestu fyrirhyggju. Mjer heyrðist helst á hv. þm., að hann vildi láta þennan sendimann hafa eitthvað af sýnishornum í poka með sjer. En ef hann hefir þau í poka með sjer, þá er vafasamt, að það sje svo holt fyrir sýnishornin, ef deyfutíð er, því að þá er hætt við, að þetta aðhald með þurkstigið vildi breytast í samræmi við tíðarfarið.

Það er vitanlega rjett hjá sama hv. þm., að kröfurnar breytast frá ári til árs. En hvaðan koma þær kröfur? Koma þær ekki frá þeim löndum, sem við seljum fiskinn til? Jeg hefi ekki orðið var við, að þær kæmu annarsstaðar frá, og það er það eðlilegasta við brtt. hv. þm. Borgf., að gera ráðstöfun til þess að yfirfiskimatsmenn sæki þær breytingar á kröfunum, sem verða frá ári til árs, þangað, sem á að sækja þær, nefnilega til neyslulandanna, en ekki til þeirra manna, sem versla með fiskinn, og sem aðeins geta dæmt eftir því, hvernig kaupandi þeirra lítur á vöruna í það og það skiftið. Jeg er ekki í neinum vafa um það, að þessa þekkingu er ekki hægt að sækja í annan stað en til neyslulandanna, svo að um það er ekki neitt að deila.

Hv. 1. þm. S.-M. sagði, að þetta væri líkt og um íþróttamenn, sem sendir væru út um lönd til þess að sýna íþróttir. En jeg held, að þetta sje miklu meira um vert heldur en þó að við sendum einhverja glímukappa út yfir pollinn. Það má nú líta tvennum augum á þetta, og jeg hefi áður skýrt frá því í fyrri ræðu minni, að slík sendiför til Spánar mundi bera meiri árangur og sennilega gera miklu meira gagn, heldur en sú glímumannafrægð mundi veita, þó að til slíkrar sendingar væri stofnað.

Það var alveg rjett hjá hv. 2. þm. G.-K., að jeg las í ógáti skakt upp ártalið í þeirri grein, sem jeg vitnaði til, en þetta breytir málinu ekki neitt, enda var það ekki viljandi gert. En jeg hafði lesið alveg rjett upp annað atriði, sem máli skifti, og það var, að það komst alls ekki skipulag á þetta þurkstigsmat fyr en eftir þessa för.

Það er að vísu svo, að sá fisksölumaður, sem jeg skifti við árið 1921, fjekk töluvert af linþurrum fiski, og man jeg eftir því, að hann hafði mjög mikið fyrir því, að fá yfirfiskimatsmanninn til þess að skrifa upp á skjölin, og það er alveg rjett hjá hv. 2. þm. G.-K., að það var ekki farið að senda linþurran fisk fyr en árið 1921. En hvað skeður þá? Hann verður þá að fá kröfu frá Barcelona um það, að þeir vilji hafa þetta svo, og mjer er kunnugt um það, og hefi enda heyrt, að maður, sem hefir með þessi mál að gera, að hann sje reglulega hræddur við þetta og geti aldrei verið öruggur fyr en hann er búinn að fara þangað suður og fá að vita, hvað á að gera. Og jeg er viss um það, að þó að þetta eina firma hafi fengið þetta gert, þá hafa ekki allir orðið þess aðnjótandi. Jeg álít, að það eigi maður úr hverjum landsfjórðungi að sækja sína þekkingu til þess staðar, þar sem hana er að fá, en ekki sækja hana til neinna útflytjenda, því að jeg er ekki viss um, að það sje óhætt að treysta öllum firmum, sem fást við útflutning á fiski. Sami hv. þm. hjelt, að jeg væri á móti þessu, af því að jeg hefði ekki átt frumkvæðið að þessu máli (ÓTh: Það sagði jeg ekki). Jú, jeg hefi skrifað þetta orðrjett hjá mjer eftir hv. þm., að við andstöðumenn frv. værum á móti því, af því að við hefðum ekki átt frumkvæðið að þessu. Jeg gæti tekið nokkuð djúpt í árinni um þá tilgátu, því að það er alls ekki af neinni öfundssýki, að við erum á móti hv. nefnd, heldur af megnustu fyrirlitningu á því skilningsleysi, sem lýsir sjer hjá henni, og jeg verð að ætla hv. 2. þm. G.-K. sinn skerf af því, þar sem hann á að leggja til mikið af sinni þekkingu í starf nefndarinnar. Hv. þm. þótti ekki mikið varið í minn stuðning í þessu máli. En jeg veit nú ekki, hvað segja má um það með rjettu, því að jeg er nú búinn að vera í 30 ár annaðhvort við að veiða fisk, verka fisk, eða selja fisk, og býst þess vegna við að hafa dálitla þekkingu á þessu máli, og kannske alveg eins mikla og hv. 2. þm. G.-K.

Þá gerði hv. þm. ekki mikið úr því, sem við höfum fram að færa okkar máli til stuðnings. Jeg gerði grein fyrir því frá minni hlið, hvað jeg hefði fram að færa. Jeg vil gera þetta svo úr garði, að það sje hægt að hafa eitthvað gott upp úr því, vil ekki búa til neina „sporslu“ fyrir nokkurn mann, sem ekki getur orðið að verulegu liði í framtíðinni, og jeg hefi lýst yfir því, að jeg hefi enga trú á því, að þetta geti orðið fiskimatinu til gagns. Hitt er annað, að nefndin átti að vinna að því og leggja aðaláherslu á það, að það er ekki hægt að búa til góða vöru úr þeim fiski, sem er illa með farinn frá byrjun. En það mundi fiskimatsmaðurinn ekki fræðast um. En þetta hefir ekki verið gert, en það sem gert hefir verið í Sunnlendingafjórðungi í þessu máli, það hefir gert verulega mikið gott, og jeg held, að ef hv. nefnd hefði borið þetta virkilega fyrir brjósti, þá hefði hún átt að reyna að fá menn til þess að vanda sjerstaklega vöruna, og þá helst frá því að fiskurinn er tekinn úr sjónum. En þær hugmyndir, sem fram hafa komið í ræðum hv. nefndarmanna og hv. flm. brtt. (PO), get jeg ekki verið að eltast við, að maðurinn ætti að hafa yfirburði yfir fiskimatsmenn, en hjá hv. þm. Ísaf., að hann ætti helst að standa þeim jafnfætis, en það hefir hvergi verið gert ráð fyrir þessu, fyr en nú við þessa umr. Og svo er hvergi gert ráð fyrir því, hvert hann á að sækja þessa þekkingu. (SigurjJ: Það á að vera hæfur maður.) Já, en hver á að dæma um það? Þetta á að vera maður með þekkingu, hann á að hafa heldur góða þekkingu, segir hv. 2. þm. G.-K. Það er nú fyrst, að hv. þm. (ÓTh) finst, að hann eigi að hafa heldur góða þekkingu. En eins og tekið var fram í framsöguræðu hv. þm. Borgf., verður hann að sækja þekkingu sína til neyslulandanna, og hv. sjútvn. hefir gengið inn á það, að það eigi að verða svo á sínum tíma, þegar fengin er sú góða reynsla, sem verður af því að láta hann hafa þóknun og ferðakostnað; það er svo sem ekki eyðslusemin, sem hjer á að ráða til að byrja með; það á að fika sig áfram smátt og smátt með þetta. Annars held jeg, að það ætti að verja meira fje til eftirlits í hverjum landsfjórðungi, því að það verður aldrei gagn að þessum eftirlitsferðum, ef ferðakostnaðurinn er sparaður. Mjer er t. d. kunnugt um það, að það varð ekki gagn að eftirlitsferð hjer í Sunnlendingafjórðungi, af því að maðurinn fjekk ekki nægan ferðakostnað. Maðurinn varð að sleppa ferð þangað, sem fisksending var í undirbúningi, og kom sendingin skemd fram, af því, að ætla má, að honum gafst ekki færi til að eftirlíta hana.

Annars veit hv. 2. þm. G.-K. það, að aðfinslur eru altaf mestar, þegar dauft er yfir markaðinum, því að þá koma aðfinslurnar hvaðanæfa, og oft til þess eins að fá verðið niður. En þegar líf er í markaðinum, þá koma engar aðfinslur frá kaupendunum. En líklega eru nú þessar umkvartanir hv. nefndar komnar til af því, að illa gengur með söluna í ár og kaupendurnir vilja þess vegna fá sem mestar tilslakanir.

Hv. 2. þm. G.-K. gerði ráð fyrir, að þessi sendimaður færi með hraðferðum kringum land. Jeg hefi ekki gætt að því, hve margar þessar hraðferðir eru, en jeg veit, að hraðferðir geta því aðeins átt sjer stað, að viðstaða skipanna sje sem styst á hverri höfn, og hygg jeg, að það sje ekki til að styrkja málstað hv. nefndar, að þessi maður eigi þá að leggja úrskurð á og segja fyrir um starfið á slíkum ferðum, á meðan þetta hraðferðaskip stendur við. Jeg hefi reyndar heyrt, að hraðferðaskip muni fara hjeðan tvisvar í mánuði. En þó að þessi maður komi tvisvar í mánuði á þá staði, þar sem skipið kemur við, þá getur hann ekki á neinn hátt sagt til um sendingarnar, þegar á að senda þær af stað til neyslulandanna.

Hv. þm. Ísaf. gengur út frá því, að þessum matsmönnum muni æfinlega koma saman, og jeg get líka hugsað mjer, að svo verði að nafninu til, vegna þess, að þegar hann er búinn að breyta þessum hraðferðabendingum úr sjer. Þá verður hann að trúa hinum venjulegu matsmönnum fyrir öllu saman, eins og áður. En að hann geti haft auga með nokkru, það get jeg ekki sjeð. Þá var sami hv. þm. einna frekastur í því að hlaða störfum á þennan mann, því að það kom upp úr kafinu hjá honum, að þessi ferðamaður skyldi segja fyrir um það, hvort verka skyldi fisk í „Labrador“ eða fullverka hann. Jeg get sagt hv. þm. (SigurjJ) það, að jeg held, að jeg færi ekki mjög mikið eftir þessum manni. Því ef hann ráðlegði Ísfirðingum að verka allan sinn smáfisk í „Labrador“, þá sæi jeg mjer leik á borði, að verka ekki minn fisk í „Labrador“; því að þá yrði, eins og menn geta hugsað sjer, of mikið af þeirri vöru í það sinn, og hygg jeg, að við þurfum engan skipaðan mann til þess að kenna okkur að hafa vit á að verka ekki of mikið af fiski í „Labrador“, og held því, að best sje að láta menn fá að vera sjálfráða um það, hvort þeir eiga að hætta sjer út í þetta eða hitt. Enda get jeg ekki hugsað mjer, hvaða völd hv. þm. (SigurjJ) ætlar að fá manninum til að ráða fyrir öðrum í þessu; skal jeg svo láta útrætt um þetta atriði að sinni.

Þá lagði hv. þm. mikið upp úr því, að Sveinbjörn Egilson hefði gefið bestu meðmæli með þessu fyrirkomulagi. En með allri virðingu fyrir þeim manni, þá verð jeg að segja það, að jeg veit ekki til þess, að hann hafi hugsað neitt um fisksölu um sína daga. Hann hefir aðeins verið siglingamaður, og veit jeg, að hann hefir góða þekkingu í þeirri grein. En mjer er ekki kunnugt um, að hann hafi lagt neitt sjerlegt til um fisksölumál, svo að þetta skiftir ekki máli hjer.

Þá vil jeg að lokum benda á það, að það verður alveg sama með afturúr-flattan fisk og útúr-flattan fisk. Það getur þessi maður ekki sagt okkur neitt um. Hann getur sagt okkur það, sem allir landsmenn reyndar vita áður, að Suður-Spánn vill hafa fiskinn afturúr-flattan, og að eitt fisksölufirma í Genúa vill hafa hann afturúr-flattan, en mörg hinna útúr-flattan. En þetta getur hver maður, sem verslar við þessa kaupendur, vitað sjálfur. Um þetta atriði voru einmitt mjög skiftar skoðanir í Genúa árið 1922; sumir töldu, að betra væri að hafa fiskinn útúr-flattan, en firmað Gismondi vildi hafa hann afturúr-flattan, og Labradormenn eru nú farnir að fletja hann æði mikið afturúr.

Jeg mun svo ekki segja meira að sinni, en fæ væntanlega stutta athugasemd, ef þörf gerist. Hv. þm. Borgf. skýtur því nú að mjer, sem hann náttúrlega er mjög fróður um af sinni löngu þingreynslu, að þessi örstutta athugasemd sje nú orðin að hálftíma.