31.03.1927
Neðri deild: 43. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í C-deild Alþingistíðinda. (2948)

72. mál, fiskimat

Hákon Kristófersson:

Jeg hafði hugsað mjer að láta þetta mál afskiftalaust, en hiti sá og ofurkapp, sem komið er í umræðurnar hjer, gefur mjer tilefni til þess að standa upp og gera grein fyrir atkvæði mínu. Jeg skal taka það fram, að jeg hygg, að fyrir báðum aðilum, sem hjer berast á banaspjót, vaki hið besta. En þeir vilja fara sína leiðina hvor. Við, sem eigum að greiða atkv. um þetta mál, verðum að gera okkur grein fyrir því, hvora leiðina við viljum heldur fara. Annar aðilinn vill hafa þekkinguna á einum stað, en hinn aðilinn vill dreifa henni á fleiri staði. Hv. 2. þm. G.-K. segir, að allir yfirburðirnir sjeu í till. hv. sjútvn. En jeg verð að segja, að það sjest ekki á frv. því, sem fyrir liggur. Jeg sje ekki annað en báðir vilji ná því sama, en greini á um leiðirnar, eins og jeg gat um áðan. Öryggishugmynd hv. sjútvn. vill hv. þm. Borgf. tryggja með sínum brtt. Jeg sje ekki, hvernig hægt er að slá því föstu svona fyrirfram, að fundir, sem fiskimatsmennirnir eiga með sjer hjer í Reykjavík, muni engan árangur bera. En því hefir hv. sjútvn. slegið föstu. En er þá að búast við meiri árangri, þó þessi eini maður ferðist í kringum landið með hraðferðaskipi og tali við fiskimatsmennina út um landið? Jeg fæ ekki sjeð, að það muni hafa happadrýgri afleiðingar í för með sjer en að fiskimatsmennirnir komi hjer í Reykjavík á fund saman. Jeg fæ ekki betur sjeð en till. hv. þm. Borgf. miði að því, að gera marga menn starfi sínu vaxna, en till. sjútvn. miðast aðeins við þennan eina mann. Jeg mun því greiða atkv. með till. hv. þm. Borgf. Vænti jeg þess, að hv. sjútvn. taki það ekki illa upp fyrir mjer, því að eigi að síður ber jeg fulla virðingu fyrir skoðunum hennar í þessu máli. En jeg álít betra öryggi náð með till. hv. þm. Borgf., þar sem þekkingin er dreifð á fleiri hendur.

Hjá hvorugum aðila liggur nokkuð fyrir um kostnaðarhlið þessa máls, enda er það aukaatriði, ef góður árangur fæst. Inn í þetta mál hafa fljettast ýms atriði, sem jeg ætla ekki að blanda mjer inn í, og umræður hafa orðið allheitar. Jeg hefi sagt þessi fáu orð til þess að gera grein fyrir atkvæði mínu. En jeg vil taka það fram, að jeg geri það ekki af meinbægni við hv. sjútvn. Eins og jeg tók fram áðan, þá efast jeg ekki um það, að gott eitt muni fyrir henni vaka, en hún hefir ekki leyfi til þess að gera lítið úr skoðunum annara í þessu máli, þótt þær falli ekki saman við skoðanir hennar. Jeg get talað ósköp rólega og hitalaust um þetta mál, og þótt einhver kunni að kasta að mjer hnútum út af því, þá mun jeg láta slíkt sem vind um eyrun þjóta.