31.03.1927
Neðri deild: 43. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í C-deild Alþingistíðinda. (2950)

72. mál, fiskimat

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg er ekki fyllilega ánægður með till. hv. sjútvn., ekki af því, að þær sjeu ekki spor í rjetta átt stigið, heldur af því, að sporið er ekki fullstigið. Það er nauðsynlegt að fá einn yfirfiskimatsmann yfir alt landið, til þess að koma samræmi á matið í landinu. Það er öllum kunnugt, að matið er framkvæmt mjög mismunandi víðsvegar á landinu. Það, sem í Reykjavík er kallað 7/8-verkaður fiskur, er á Vestfjörðum kallað ¾, og enn annað á Austurlandi og Norðurlandi. (PO: Þetta má alt lagfæra eftir mínum tillögum.) Það þarf ekki annað en tala við fiskútflytjendur hjer í bænum til að sannfærast um, að matið er mjög misjafnt, einnig að því er snertir gæði fiskjarins. Á þessu fæst aldrei leiðrjetting, nema einn maður sje settur yfir alla fiskimatsmenn, til þess að koma samræmi á matið. Yfirmatsmennirnir hafa komið hjer saman tvisvar eða þrisvar, en enginn sýnilegur árangur orðið. — Ef koma ætti samræmi á fiskimatið í landinu, án þess að skipa einn mann yfir það, yrði að flytja undirmatsmennina milli umdæma, þannig, að hingað væru t. d. fluttir undirmatsmenn af Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum o. s. frv. En jeg hefi enga trú á, að nokkur rjetting fáist, nema skipaður sje einn yfirmatsmaður yfir alt landið.