31.03.1927
Neðri deild: 43. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í C-deild Alþingistíðinda. (2951)

72. mál, fiskimat

Sigurjón Jónsson:

Mjer þykir leitt, að jeg þarf að standa upp til að leiðrjetta dálítinn útúrsnúning hjá hv. 3. þm. Reykv. Hann sagði sem sje, að jeg hefði talað um, að matsstjóri ætti að gefa fyrirskipanir um, hvernig verka skyldi fiskinn. (JÓl: Jeg skrifaði þetta upp eftir hv. þm.) Það getur ekki verið. Jeg hafði hvert orð skrifað, sem jeg sagði, og get því sannað, að þetta var ekki í ræðu minni. (PO: Hv. þm. hefir bara vikið frá skriftinni!). — Jeg sagði, að þessi maður ætti að gefa yfirfiskimatsmönnunum leiðbeiningar og hafa heildaryfirlit yfir, hvernig fiskur væri verkaður í þeim ýmsu landshlutum, hve mikið af stórfiski er verkað fyrir Suður- Spán og hve mikið fyrir Norður-Spán o. s. frv., og er það nokkuð annað en að gefa skipanir. Það er leitt að þurfa, hvað eftir annað, að leiðrjetta svona útúrsnúninga, sem ekki geta sýnt annað en rökþrot hjá þeim, sem gripa til slíks.