16.02.1927
Neðri deild: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í C-deild Alþingistíðinda. (2961)

25. mál, atvinnuleysisskýrslur

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Sjávarútvegurinn hefir degið fólksfjöldann að sjónum, þannig, að honum standi altaf til boða nægur vinnukraftur, þegar fult fjör er í atvinnuveginum á mestu annatímunum í besta árferðinu. Þar af leiðandi verður í lakara árferði og á minni annatímum atvinnuleysi hjá verkalýðnum; varaliðið verður atvinnulaust. Nauðsynlegt er fyrir bæjar- og sveitastjórnir og ríkisstjórnina að fylgjast ávalt með, hvernig atvinnu og atvinnuleysinu er háttað á hverjum tíma, því að eftir því er hægt að sjá með nokkrum fyrirvara, hvenær verði nauðsynlegt fyrir hið opinbera að gera sjerstakar ráðstafanir gegn yfirvofandi hallæri, sem óhjákvæmilega kemur öðruhvoru, með þeim rekstri atvinnuveganna, sem nú er. Bæjarstjórn Reykjavíkur hefir stundum látið gera slíka skýrslu, síðast í sambandi við verkalýðsfjelögin í Reykjavík, og hafa þær komið að töluverðu haldi. En bæjarstjórnin hefir álitið nauðsynlegt að gera slíkar skýrslur við sjávarsíðuna, þar sem bæjalíf er komið.

Jeg leyfi mjer að leggja til, að frv. þessu verði, að þessari umr. lokinni, vísað til allshn.