11.03.1927
Neðri deild: 27. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í C-deild Alþingistíðinda. (2981)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg hefi athugað, að um 8. dagskrármál, frv. til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá konungsríkisins Íslands, þskj. 132, sem var til 1. umr. hjer í gær, er bókað þannig í gerðabókinni.: „Frv. vísað til 2. umr. með 11 shlj. atkv., og stjórnarskrárnefndar með 12 shlj. atkv.

Nú mælir 49. gr. stjórnarskrárinnar svo fyrir:

„Hvorug þingdeildin getur gert samþykt um mál, nema meira en helmingur þingdeildarmanna sje á fundi og greiði þar atkvæði“ — og í þingsköpunum er 1. málgr. 44. gr. þessu samhljóða að efni.

Jeg leyfi mjer að leiða athygli að því, að þess er ekki beint getið í gerðabókinni, að ekki fengjust greidd nægilega mörg atkvæði um málið til þess að það næði að ganga til 2. umræðu, og ekki heldur til þess að því sje vísað til nefndar. Hinsvegar sýnir gerðabókin það greinilega, hve mörg atkvæði komu fram, ekki nema 11 alls við fyrri atkvæðagreiðsluna, og ekki nema 12 við hina síðari, en þetta er samkvæmt áðurnefndum greinum stjórnarskrárinnar og þingskapanna ónógur atkvæðafjöldi í þessari þingdeild til þess að gera samþykt um nokkurt mál. Tel jeg því, að þrátt fyrir ógreinilegt orðalag, sýni bókunin það nægilega skýrt, að ekki hefir náðst löglegt samþykki þingdeildarinnar til þess að málið mætti halda lengra áfram, og geri því enga tillögu um breytingu á bókuninni.