06.04.1927
Neðri deild: 48. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

5. mál, iðja og iðnaður

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg þarf ekki að segja nema örfá orð. Allshn. leggur til, að hv. deild samþykki þetta frv. með tveim litlum breytingum á 18. gr. Nefndinni þótti tryggara, að leyfi þau, sem lögreglustjóri veitti, væru bundin einhverju tímatakmarki, og nefndin hefir stungið upp á 5 árum. Því vildi nefndin hafa leyfið skilorðsbundið, að á þessum tilskilda tíma gæti það komið í ljós, hvort sá, sem leyfisins æskti, væri fær um að rækja starf sitt. Ef svo væri ekki, þá fjelli leyfið úr gildi og yrði ekki aftur veitt. Síðari breytingin leiðir af hinni fyrri. Jeg vænti, að hv. deild geti fallist á þessar breytingar, þó þær hafi það í för með sjer, að frv. verði að fara aftur til Ed.