28.02.1927
Neðri deild: 17. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í C-deild Alþingistíðinda. (2992)

49. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Hjeðinn Valdimarsson:

Mjer virðist margt í frv. þessu miða til bóta frá því sem verið hefir. Þó vil jeg gera athugasemd við 3. gr., 2. málsgr. Jeg álít það mjög vafasamt að mæla svo um, að óheimilt sje að selja eða flytja hey af jörðu, án samþykkis viðkomandi sveitarstjórnar. Það getur komið mjög illa niður á þeim, sem búa í kaupstöðum og kauptúnum. Nú hefir nýlega verið bannaður innflutningur heys frá útlöndum, og það gæti haft alvarlegar afleiðingar, ef nú væri tekinn upp sá siður, að banna útflutning heys úr sveitunum. Það má nú segja, að sveitarstjórnir mundu oft leyfa slíka sölu, en eigi að síður mundi með þessu móti verða örðugra að ná í heyið. En það munu allir viðurkenna, að nauðsynlegt er fyrir kauptúnin og kaupstaðina að fá hey að, og áburðurinn kemur að gagni þar, engu síður en í sveitunum.