28.02.1927
Neðri deild: 17. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í C-deild Alþingistíðinda. (2994)

49. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Þessir tveir hv. þm., sem nú hafa talað, hafa gert nokkrar athugasemdir við frv. þetta. Það er ekkert við því að segja, en jeg saknaði þess, að hvorugur þessara hv. þm. leysti úr þeim vanda, að gera meðferð jarða og ábúð sæmilega trygga. Það er rjett hjá hv. 2. þm. Skagf., að ákvæðin um sölu heys eiga aðeins við í fáum tilfellum og í einstöku sveitum. Þetta var okkur flm. ljóst. En þessi heysala kemur svo illa niður á einstöku sveitum, að ekki er við unandi. Þetta ákvæði er sett til þess að koma í veg fyrir, að svo verði víðar.

Þá skal jeg víkja nokkuð að hv. 4. þm. Reykv. Honum þótti frv. vera til bóta, en gerði athugasemd við ákvæðið um heysöluna og taldi það mundu koma í veg fyrir heyflutning til bæjanna og áleit það því varhugarverðara nú, þar sem bannaður væri innflutningur heys frá útlöndum. Þótt það kunni nú að sýnast svo, að þetta frv. muni hefta heysölu til bæjanna, þá er því þó alls ekki svo varið, ef sú sala er bygð á heilbrigðum grundvelli. Frv. er stefnt gegn þeim mönnum, sem kaupa jarðir til þess að stunda þar rányrkju og flytja afurðirnar burtu, svo að jarðirnar ganga úr sjer og komast í órækt og hverfa sveitarfjelögunum sem tekjulind. Frv. er fyrst og fremst stefnt gegn svona meðferð. Jeg tel vafalaust, að kaupstaðarbúum gangi jafngreiðlega að fá hey, þótt þetta frv. verði að lögum. Jeg treysti sveitarstjórnunum vel til þess að koma sanngjarnlega fram í þessum málum. En hinsvegar er með þessu ákvæði verið að stemma stigu fyrir, að Reykvíkingum eða öðrum heppnist að leggja jarðir í eyði með rányrkju.

Hv. 2. þm. Skagf. drap á fleiri atriði, og verð jeg því að víkja nánar að ræðu hans. Hann sagði, að hundruðum eða jafnvel þúsundum manna væri órjettur ger með þessu frv., til þess að koma í veg fyrir misnotkun jarða í fáum tilfellum. Jeg verð að segja, að hv. þm. ber lítið traust til sveitarstjórnanna, ef hann heldur, að þær gæti ekki hagsmuna sveitarinnar og ábúendanna í þessum tilfellum. Jeg treysti þeim vel til þess, og jeg kvíði ekki þeim sveitadrætti, sem hann talaði um. Jeg þekki hann ekki. Jeg fullyrði, að sveitastjórnirnar mundu haga sjer eins og sveitarfjelaginu og ábúendunum er fyrir bestu, en hinsvegar ekki líða það, að jarðir yrðu eyðilagðar. Þá fanst þessum hv. þm. hæpið, að það væri rjettarbót, að ekkja og börn gangi fyrir öðrum með ábúð jarða, og taldi það verða til þess, að jarðir yrðu bygðar til skemri tíma. Þessi skoðun minnir mig á bónda, sem býr rausnarbúi á jörð, sem hann á ekki. Hann býr þar eftir föður sinn og hefir gert þar miklar áveitur, túnasljettur, bygt hús o. fl., alt án nokkurs styrks frá jarðeigandanum. Þegar hann svo spyr jarðeigandann, hvort hann megi ekki hugsa til þess, að drengirnir sínir fái jörðina eftir hans dag, fær hann þetta svar: Þeir síður en nokkur annar. Það sem kann að hafa valdið þessu svari er það, að ábúandinn vildi ekki borga margfalt hærra afgjald heldur en er hann tók við jörðinni, en vildi hinsvegar ganga inn á að borga nokkru hærra.

En jeg verð að segja, að ef menn eru alment þeirrar skoðunar, að bygt yrði til skemri tíma, aðeins í þeim tilgangi að varna börnum leiguliða að taka við jörðinni, þá harma jeg, hve margir einstakir menn hjer í landi eiga jarðnæði, sem þeir leigja. Það styður þá það, sem jeg hefi áður sagt, að það hefði verið betra, að ríkið hefði ekki látið jarðir sínar, og frekar bætt við sig jörðum.

Þá drap hv. 2. þm. Skagf. á takmarkanir þær, sem frv. setur á sölu heys, og þótti honum mjög athugavert, að þessar skorður væru reistar gegn athafnafrelsi manna. Þó vildi hann ekki mótmæla þeim rökum, er jeg benti á að rjettlættu þessar hömlur. Og ef hv. þm. gæti bent á ráð til að hefta misnotkun jarða, án þess að baka annari notkun þeirra nokkur óþægindi, þá mundi það gleðja okkur flm. þessa frv., því að þá er tilgangi okkar algerlega náð. En jeg hugsa, að erfitt verði að fulltryggja jarðirnar gegn misnotkun, án þess að snerta þá menn, sem heilbrigða heysölu vilja stunda. Jeg fæ ekki heldur sjeð, að það sje nein frágangssök fyrir menn að leita í þessum efnum til sveitastjórnanna, því að jeg er sannfærður um, að þær gefa ætíð heimild til heysölunnar, þegar rjett rök mæla með því.

Hv. þm. sagði, að ef farið væri að takmarka svo mjög frelsi manna, þá mætti eins banna mönnum að selja kindur eða hesta. Þetta er fjarstæða, sem engri átt nær, og það veit hv. þm. sjálfur. En geti hann bent á annað heppilegra fyrirkomulag eða orðaval um þetta efni, þá endurtek jeg, að jeg er fús til að fallast á það. En það verður að vera sjeð fyrir því, að ábúðarrjetturinn verði ekki misnotaður.

Sú mótbára, að þetta snerti umráð manna yfir eignum sínum, er harla lítils virði. Þegar almenningsheill og hagsmunir einstaklinga rekast á, þá verða einstaklingarnir að víkja. Enda eru þess mýmörg dæmi í lögum, að takmarkanir eru settar á umráðarjett manna yfir eignum sínum, og verður ekki hjá því komist.

Þá drap hv. þm. á ákvæði 4. gr. Jeg tók það nú fram, að jeg teldi litlu máli skifta ákvæðið um votheysgryfjurnar, a. m. k. að þessu sinni. Hv. þm. Str. skaut því að mjer, að búnaðarþingið vildi koma þessum fyrirmælum inn í jarðræktarlögin. Ætti þá líka að verða hægt að fá styrk til þessara bygginga. Hv. 2. þm. Skagf. sagði, að þessi fyrirmæli gætu orðið til þess, að leigjandi jarðar gæti ráðist í stórbyggingar á henni og jafnvel yfirbygt hana, án þess að eigandi fengi að segja eitt orð um. Jeg held, að á því sje engin hætta. Menn mundu oftast ekki ráðast í meiri mannvirki en þeir nauðsynlega þurfa á leigujörðunum. Annars mætti gjarnan koma því svo fyrir, að leitað væri álits jarðeiganda og sjeð væri fyrir því, að byggingin væri við hæfi jarðarinnar. En frá aðalatriðinu vil jeg ekki hverfa, að ábúanda sje heimilað að gera þessar byggingar, innan þeirra takmarka, að jörðin verði ekki yfirbygð.

Þá þótti hv. þm. ekki sanngjarnt, að ábúandi, sem hefði bygt safnhús, t. d. 30 árum áður en hann færi af jörð, ætti þá kost á að fá byggingu þess endurgreidda af jarðeiganda. Hví þá ekki? Hvað hefir jarðeigandi unnið til þess, að honum sje gefið þetta? Í langflestum tilfellum leggja eigendur jarða ekkert til endurbóta þeirra, sem ábúendur láta gera. Sje jeg litla sanngirni í því, að þeir eigi svo að ganga slyppir og snauðir frá jörðunum, er þeir hafa eytt kröftum sínum og fjemunum til að endurbæta þær.

Það má vel vera, að eins og nú er ástatt, geri menn meiri endurbætur á ábýlisjörðum sínum, ef þeir eiga þær sjálfir, en það sannar einmitt það, að betur þarf að sjá fyrir kosti leiguliða en nú er gert. Er því ekkert annað en fylsta sanngirni, sem mælir með því, að þeir fái endurgreiðslu fyrir þau mannvirki, er þeir gera, að frádregnum opinberum styrk og fyrningu. Það er áreiðanlegt, að jarðeigandi mundi græða stórkostlega á þessum umbótum, þótt hann yrði að borga þær, þegar ábúandi færi af jörðu.

Hv. þm. sagði, að þetta gæti orðið til þess, undir sumum kringumstæðum, að fátækar ekkjur yrðu að sjá af eignarjörðum sínum, af því að þær gætu ekki greitt álag á þær. En við flm. getum fúslega sætt okkur við að draga úr þessu, t. d. um votheysgryfjurnar, og vel mætti setja í lögin ákveðna upphæð, sem safnhúsin mættu kosta mest. Aðalatriðið er, að leigjandi jarðar fái rjettinn til að gera þessi mannvirki, og að honum sje trygt, að fá þó nokkrar bætur fyrir fyrirhöfn sína og kostnað. Þetta yrði ekki að eins leigjendum til hagsbóta heldur öllum landslýð. Um helmingur allra jarða í landinu er í leiguábúð.

Meðan ekki er betur sjeð fyrir hag leiguliða í landinu, er ekki að vænta mikilla framfara eða umbóta í ræktun landsins.