10.03.1927
Neðri deild: 26. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í C-deild Alþingistíðinda. (3001)

55. mál, gagnfræðaskóli á Ísafirði

Flm. (Sigurjón Jónsson):

Mál það, sem hjer er borið fram, er gamalt áhugamál Ísfirðinga. Það eru nú liðug 20 ár síðan þeir stofnuðu hjá sjer unglingaskóla. Sá skóli var lengi ein deild, en hefir nú um nokkur ár verið í tveim deildum. Þetta skólahald, eða þá unglingafræðslu, sem þarna hefir átt sjer stað, hafa Ísfirðingar að mestu sjálfir kostað. Hafa þeir með skólahaldi þessu sýnt, að þeim hefir verið fyllilega ljós þörfin til þess, að unglingar ættu kost á að fá frekari fræðslu en barnaskóli þeirra getur veitt. Þeim hefir verið það ljóst, að yfirleitt gerir fræðsla og mentun unglingana færari til þess að verða að nýtum borgurum þjóðfjelags vors. Aðsóknin að skóla þessum hefir aftur á móti sýnt, að skólans hefir verið fylsta þörf. Það má víst svo heita, að skóli þessi hafi altaf verið fullskipaður, eins og húsrúm hans hefir leyft, og nokkrum sinnum hefir orðið að vísa nemöndum frá vegna plássleysis.

Eins og jeg gat um í greinarg., eru nú 18 eða 19 ár síðan byrjað var fyrir alvöru að hugsa um að fá fullkominn gagnfræðaskóla á Ísafirði. Mun vera til frá þeim tíma teikning af skólahúsi. Held jeg, að sú teikning með kostnaðaráætlun hafi komist hjer í stjórnarráðið með tilmælum um, að stjórnin tæki málið að sjer. Það hefir nú orðið alt minna um það, að stjórnir vorar tækju þetta mál að sjer. Það hefir sem sje oftast við brunnið, að áhugamál Ísfirðinga hafa ekki verið þau málin, er hafa staðið næst huga og hjarta vorra hæstv. stjórna.

Tilmæli eða kröfur frá Ísfirðingum um fullkominn gagnfræðaskóla hafa nú legið niðri um nokkur ár, og hefir það eingöngu orsakast af því, að fjárhag ríkisins hefir verið þann veg farið, að þeir hafa viljað í hvívetna stilla kröfum sínum svo í hóf, að ríkissjóður gæti sem fyrst losnað við sínar verstu og erfiðustu skuldir, en ekki af því, að þörfin væri ekki jafnbrýn og áður, sem ljósast hefir sýnt sig í því, að þeir hafa á þessum árum gert unglingaskóla sinn að tveggja ára skóla. Fræðslumálastjórnir vorar hafa verið ánægðar yfir þeim áhuga, er Ísfirðingar hafa sýnt í verkinu um unglingafræðslu hjá sjer og um það, að þeir kostuðu hann að mestu sjálfir, þótt ríkið kostaði að öllu einn gagnfræðaskóla í hverjum hinna landsfjórðunganna.

Jeg hefi leyft mjer í greinargerðinni fyrir frv. að segja, að Vestfirðingar yfirleitt, og sjerstaklega Ísfirðingar, hafi verið afskiftir um framlag úr ríkissjóði til ungmennafræðslu móts við aðra fjórðunga landsins. Er sjálfsagt, að jeg færi rök fyrir þessum dómi mínum. Til þess að þetta sje sem ljósast, tek jeg til samanburðar unglingaskóla eða gagnfræðaskóla í öðrum landsfjórðungum, tilfæri þann nemendafjölda, er undir vorpróf hafa gengið, og reikna út, hve hár ríkissjóðsstyrkur til skólans hefir verið á hvern nemanda. Jafnframt er tekið tillit til, að námstími sje jafnlangur, með því að reikna út styrkinn, sem veittur er á námsviku hvers nemanda.

Tek jeg námsárið 1924–25, af því að mig vantar skýrslu frá Eiðaskóla 1925–26, enda er árið 1925 síðasta árið, sem við höfum landsreikninga frá .

Eiðaskóli:

20/10–9/5 1924–25 32

19356,00

605,00

20,86

Flensborgarskóli :

1/10–30/4, 1924–25 52

14000,00

258,00

9,92

Akureyrarskóli:

2/10–30/5 1924–25 110

55441,00

504,00

14,40

Ísafjarðarskóli:

16/10/–30/4, 1924–25 45

2600,00

57,78

2,06

Eins og jeg gat um, gat jeg ekki tekið skólaárið 1925–26. En styrkir til skóla þessara eru samkvæmt fjárlögum það ár:

Eiðaskólinn

kr. 75900,00

Flensborgarskóli

— 14000,00

Akureyrarskóli . . .

— 56640,00

Það skólaár eru jafnmargir nemendur í skólanum á Ísafirði, en styrkur greiddur skólanum varð nú 100 kr. minni en árið áður, eða kr. 2500,00. Nemendafjöldi er aftur meiri í Flensborgarskóla þetta ár, eða 63 nemendur, svo að minni verður styrkur á hvern nemanda það ár. Nemendafjöldi Akureyrarskóla er sá sami það ár og árið áður, og sá hlutfallslegi kostnaður því lítið eitt hærri. Aftur er styrkur til Eiðaskóla margfalt hærri, en þar er einnig styrkur til húsa. Sá skóli virðist líka fremur verða dýrari með ári hverju. í fjárlögum fyrir árið 1927 eru honum ætlaðar kr. 39040.00, þar af nokkuð til húsa.

Niðurstaðan af þessu, sem nú er sagt, er sú, að styrkur til unglingaskólans á Ísafirði er nálega fimmfalt minni en styrkur til Flensborgarskólans, sjöfalt minni en kostnaður ríkissjóðs við Akureyrarskólann, og tífalt minni en kostnaður ríkissjóðs af Eiðaskóla. Nú vil jeg spyrja hv. deildarmenn, hvaða sanngirni sje í þessu. Hjer hefir verið beitt því misrjetti, sem löggjafarþingi þjóðarinnar er gersamlega ósamboðið. Jeg vil að svo stöddu máli gera ákveðið ráð fyrir því, að hjer sje athugaleysi um að kenna, jeg vil ákveðið gera ráð fyrir því, að háttv. löggjafar vilji láta þá skóla, sem eru hliðstæðir, njóta jafnrjettis um styrk úr ríkissjóði, þegar slíkir skólar hafa sýnt, að þeir eigi fylsta tilverurjett.

Þó gæti nú verið hjer um eðlilegar orsakir að ræða. Setjum svo, að eitthvað sjerstakt ólag væri á þessum Ísafjarðarskóla, annaðhvort hvað kenslu snertir og aga eða skólafyrirkomulagið yfirleitt. Svo mikið ólag gæti verið á skóla þessum, að auðvelt væri að verja það misrjetti, að þessi unglingafræðsla fengi fimmfalt minni styrk úr ríkissjóði en sama fræðsla í Flensborgarskólanum, sjöfalt minni en unglingafræðslan í Akureyrarskóla og tífalt minni ríkissjóðsstyrk en nákvæmlega sama fræðsla í Eiðaskólanum. Það mundi nú heldur handhægt fyrir háttv. Alþingi og fræðslumálastjórnir, ef hægt væri að tilfæra þessa afsökun fyrir misrjetti því, er hjer hefir verið framið. En þessu er ekki hjer til að dreifa. Svo vel vill nú til, að núverandi fræðslumálastjóri, háttv. þm. V.-Ísf., á sæti í nefnd þeirri, er þetta mál fer í, og mun hann bæði þar og sömuleiðis í þessari hv. deild skýra frá áliti sínu á þessum skóla. En mín persónulega skoðun á unglingaskóla Ísafjarðar er sú, að hann standi ekki að baki þeim skólum, er jeg hefi nefnt, svo langt sem kensla hans nær. Hann er 2 ára skóli, en tveir hinna 3 ára skólar.

Að endingu vil jeg aðeins segja það, að jeg hefi síst ástæðu til að vera kvíðinn fyrir, að þessu máli verði ekki vel tekið hjer á háttv. Alþingi. Jeg býst miklu fremur við, að háttv. þm. verði mjer þakklátir fyrir, að þeim gefst tækifæri til þess að bæta fyrir það misrjetti, er átt hefir sjer stað undanfarið. Engin ástæða er heldur til þess að ætla, að nokkur flokkarígur slæðist inn í mál þetta, því að annarsvegar þekki jeg nú sanngirnina, rjettsýni og rjettdæmi hjá mínum háttv. flokksbræðrum, sem mun sýna sig í þessu máli sem öðrum. Því síður ætti að vera ástæða til þess að efast um fylgi þeirra manna, sem senda legáta um landið, til þess að prjedika fyrir alþjóð, að þeir sjeu þeir einu og sönnu vinir allrar alþýðumentunar hjer á landi. Jeg hefi fulla ástæðu til þess að ætla, að þeir taki frv. þessu opnum örmum og afsanni með því, að umhyggja þeirra fyrir alþýðumentuninni sje bundin við einhver ákveðin hjeruð landsins.

Jeg vil svo leyfa mjer að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og mentmn.