11.03.1927
Neðri deild: 27. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í C-deild Alþingistíðinda. (3009)

65. mál, vegalög

Flm. (Jón Guðnason):

Jeg þarf ekki að tala hjer langt mál, því að þótt greinargerðin á þskj. 98 sje stutt, gefur hún þó til kynna helstu ástæðurnar fyrir frv. þessu.

Eins og kunnugt er, liggur vegur sá, sem hjer um ræðir, frá Búðardal til Borðeyrar og tengir þannig saman landsfjórðungana. Hann hefir verið mjög fjölfarinn, sjerstaklega á þeim árum, er samgöngur hafa verið góðar inn á Hvammsfjörð. Er hann þá mikið notaður af Norðlendingum, sjerstaklega Vestur-Húnvetningum og Strandamönnum, er þeir hafa þurft að komast á og af skipi í Búðardal. Er því vaxandi áhugi þar vestra um að fá þennan veg tekinn í þjóðvegatölu, því að þá er trygging fengin fyrir góðum vegi á góðum stað milli landsfjórðunganna. Enn er ekki komið fram, hve fjölfarinn þessi vegur kann að verða, einkanlega er bifreiðarnar koma hjer til greina og fara að ná lengra norður í land en nú er. Verða þá mikil þægindi að vegi þessum.

Þá er annað atriði mikilsvert í þessu máli, sem sje það, hve nauðsynlegt það er fyrir Norðlendinga að hafa hjer góðan veg í ísaárum. Það hefir oft komið fyrir og getur líka þráfaldlega borið við, að hafís loki öllum höfnum Norðurlands, og er þá styst fyrir Norðlendinga að sækja kaupstað í Búðardal. En þær ferðir eru erfiðleikum háðar, eins og nú standa sakir.

Jeg skal svo ekki tefja fundinn með lengri umræðum um málið á þessu stigi, en óska þess, að því verði vísað til 2. umr. og til samgmn. Verður það þá athugað þar í sambandi við viðaukatill. þá, sem fram er komin.