10.03.1927
Neðri deild: 26. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í C-deild Alþingistíðinda. (3020)

76. mál, fasteignamat

Flm. (Halldór Stefánsson):

Jeg þarf ekki margt að segja um frv. þetta á þskj. 123. Höfuðástæðan fyrir frv. er tekin fram í greinarg., og hún er sú, að eins og matið 1916–19 var undirbygt, virðist skattgrundvöllurinn ekki hafa orðið nægilega tryggur. Eins og matsnefndirnar voru skipaðar, var ekki heldur líklegt, að gott yfirlit fengist og samræmi milli hinna einstöku hjeraða. Frv. þetta er borið fram til þess að ráða bót á þessu. Eins og menn munu hafa tekið eftir, er farið fram á aðra skipun, þannig, að það sjeu þrjár undirmatsnefndir, hver fyrir ákveðinn flokk fasteigna í landinu, með þeirri nánari tilhögun, sem segir í frv. Formenn sjeu stjórnskipaðir, og eigi þeir aftur sæti í nefnd fyrir yfirmat allra fasteigna í landinu, hver fyrir fasteignir þess flokks, sem hann hefir fengist við að meta í undirmatsnefnd. Með því móti næst, svo sem unt er að fá, yfirlit og samræmi í matið, fyrst innan hvers flokks og svo á milli flokkanna. Öll tilhögunin stefnir að því, að fá sem best samræmi í matið. Annar maðurinn í undirmatsnefndinni, kosinn af sýslunefnd, á að vera fyrir allar fasteignir sýslunnar; með því er trygt samræmi í matið á milli fasteigna innan sýslunnar; þriðji maðurinn sje kosinn af hreppsnefnd, og eigi hann sæti í nefndinni fyrir fasteignir síns hrepps. Með því er trygður staðlegur kunnleiki. Um yfirmatið er lagt til, að á sameinuðu Alþingi sjeu kosnir tveir menn í nefndina. Það má teljast eftirlit þingsins á því, að matið sje sem rjettlátastur grundvöllur undir skattálögunum. Formenn þessara þriggja undirmatsnefnda er ætlast til að eigi sæti á víxl í yfirmatsnefnd, hver fyrir þann flokk fasteigna, sem hann hefir átt þátt í að meta, og fæst með því svo góð yfirlitsþekking sem þörf er á, til að samræma matið á milli fasteignaflokkanna. Þetta kann að verða álitið tímafrekt, en jeg tel alls ekki komið svo nærri þeim tíma, sem mati á að vera lokið, að það sje ekki enn nægur tími til stefnu. Það mundi þá verða stjórnarráðið, sem skipaði fyrir, hvenær byrjað yrði á matinu. Síðasta mat tók þrjú ár, frá 1916–1919, en þá var það meira verk en nú mundi verða, þar sem verkið var þá unnið alveg frá byrjun, en nú mundi að nokkru mega byggja á því, sem þá var gert, svo að það ætti ekki að þurfa að taka lengri tíma nú. Mesta verkið yrði að vinna að betra samræmi og endurskoðun og breytingum á matsverði, þar sem verulegar breytingar hafa orðið á verðgildi eignanna.

Jeg get búist við, að ef til vill sje ekki nægilega vel gengið frá brtt. mínum. En ef menn vilja annars gefa þeim gaum, þá er vissulega hægt að athuga þær og lagfæra í nefnd. — Ætla jeg svo ekki að fjölyrða frekar, en vænti þess, að frv. fái að ganga til 2. umr. og nefndar.