15.03.1927
Neðri deild: 30. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í C-deild Alþingistíðinda. (3038)

79. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Flm. (Tryggvi Þórhallsson).:

Það verða aðeins fá orð. Í þetta skifti ætla jeg að lýsa töluvert miklum tíðindum, sem hjer hafa gerst. — Hæstv. forsrh. hefir flúið frá þessum umr. Hæstv. forsrh. hóf þessar umr. í gær með miklum þjósti, með því að kasta hnútum til beggja handa, en er nú flúinn af fundi, þegar það mál er til umr., sem er hið langstærsta fjárhagsmál þjóðar vorrar, mál, sem mikið hefir verið rætt í öllum löndum, og mál, sem vitað er um, að verður kosið eftir við næstu kosningar. Og þegar umr. eru um það mál, þá flýr hæstv. forsrh. og fjrh. Jeg verð að segja það fyrir mitt leyti, að jeg álít, að sá fjármálaráðherra, sem ekki þorir annað en að fara í burt við slíkar umræður sem þessar, hann eigi að fara alfarinn úr ráðherrastóli. Jeg vil ennfremur geta þess, að það er með öllu óþolandi, að sá ráðherra, sem á að bera ábyrgð á þeim tíðindum, sem gerst hafa í þessu máli, þegar fyrst nú er tækifæri til þess að gera það upp, hver árangur hefir orðið af þeim framkvæmdum, sem hann ljet gera haustið 1925, þegar á að krefja hæstv. ráðh. reikningsskapar fyrir þær, þá skuli hann flýja úr deildinni. Hæstv. ráðh. barði því við, að hann sæi eftir því, að umr. yrðu miklar um þetta mál. En eins og jeg hóf umr. um það í gær, fór jeg ekkert út í þær almennu röksemdir; jeg gerði eingöngu grein fyrir því, hvað gerst hefði síðan í fyrra, og sá, sem dró inn í umr. það, sem rætt var um í fyrra, það var hæstv. fjrh. sjálfur, en ekki jeg. Að svo miklu leyti sem þær umr. hafa orðið endurteknar frá því í fyrra, þá er það sök hæstv. forsrh., sem svo flýr af fundi.

Að svo mæltu get jeg sagt það, að jeg hefði mjög gjarnan viljað svara mörgu, sem hæstv. ráðh. sagði, en jeg kann ekki við að segja það yfir tómum stólnum, sem jeg álít þar að auki, að ætti nú að losna alveg við ráðherrann.

Jeg ætla svo að bæta ofurlítið við það, sem jeg kom að í ræðu minni í gær. Jeg ætla að koma með tölur, sem sýna, hvað það er ákaflega erfitt að framkvæma gengishækkun hjer á landi. Eins og menn vita, er til stofnun, sem kemur saman á hverju hausti hjer á landi. Það er hreppstjórinn og presturinn í hverjum hreppi í landinu, og svo einhver þriðji maður; þeir koma saman til að semja verðlagsskrá. Jeg vil nú alls ekki segja, að þetta mat sje altaf fullkomlega rjett mat á verðlagi á hverjum tíma. En jeg vil halda hinu fram, að þar sem sömu mennirnir meta ár eftir ár, þá muni hlutfallið frá ári til árs vera nokkurnveginn rjett. Frá þessum opinberu stofnunum liggur nú fyrir mat á dagsverkinu frá í fyrra og nú, og jeg vil vekja athygli á því, að á tímabilinu, sem liðið er, þá hafa íslenskir peningar hækkað í verði um meira en 20%. En hvernig þessi verðlagsskrárnefnd metur nú dagsverkin, má sjá með því að athuga mismuninn á þeim fyrir árin 1925–1926 og 1926–1927.

Verðlagsskrá.

frá 10. maí 1925 til jafnlengdar 1926 og

1926–1927.

Dagsverk

um heyannir:

Hækkun:

Norðurmúlasýsla og Seyðisfj.kaupst. . kr. 8.67

kr. 9.08

kr. 0.41

Suður-Múlasýsla — 9.67

— 9.97

— 0.30

Austur-Skaftafellssýsla —7.10

— 8.80

— 1.70

Vestur-Skaftafellssýsla — 8.61

— 8.86

— 0.25

Vestmannaeyjar — 13.00

— 13.00

Rangárvallasýsla — 9.42

— 11.03

— 1.61

Árnessýsla 10.64

— 12.25

— 1.61

Gullbr.- og Kjósars., Hafnarfj. og Rvík 11.14

— 12.39

— 1.25

Borgarfjarðarsýsla 10.50

— 12.44

— 1.94

Mýrasýsla — 10.44

— 12.87

— 2.43

Snæfellsness- og Hnappadalssýsla .... — 7.27

— 8.34

— 1.07

Dalasýsla — 7.67

— 8.33

— 0.66

Barðastrandarsýsla — 7.27

— 7.73

— 0.46

Ísafjarðarsýsla og Ísafjarðarkaupst. . . — 8.72

— 9.50

— 0.78

Strandasýsla — 7.57

— 8.79

— 1.04

Húnavatnssýsla — 9.38

— 11.83

— 2.45

Skagafjarðarsýsla — 8.61

— 10.71

— 2.10

Eyjafjarðarsýsla og Akureyrarkaupst. . — 10.25

— 11.50

— 1.25

Þingeyjarsýslur — 8.62

— 9.79

— 1.17

Alls 174.44

197.21

Meðaltal 9.18

10.38

1.20

Vestmannaeyjar eru eini staðurinn, þar sem verðlagið er jafnt.

Meðaltals-útkoman er sú, að á sama tíma og gengi peninganna hækkar stórkostlega, meta þessar nefndir dagsverkin að meðaltali kr. 1.20 hærra. Jeg vil segja, að þetta er dágóð mynd af því, hvernig hægt er að framkvæma gengishækkun hjá oss. Sá maður er blindur, sem ekki sjer, að þetta er, með öðru, dauðadómur yfir gengishækkunarstefnunni. Því að afleiðingarnar fyrir atvinnuvegina af slíkum tíðindum liggja í augum uppi.