15.03.1927
Neðri deild: 30. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í C-deild Alþingistíðinda. (3039)

79. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það er óþarft, vegna þessarar ræðu. að svara hv. þm. Str., því að hann tók sjálfur fram það, sem þurfti, til þess að sýna, að tölur þær, sem hann nefndi, sýna ekkert um áhrif gjaldeyrishækkunarinnar 1925; því að verðlagsskráin, sem er samin haustið 1925, miðast við verðlag í fardögum það ár, en gengishækkunin varð langmest haustið 1925.

Háttv. þm. sagði, að hæstv. forsrh. mundi vera flúinn af fundi, frá þessari umr. En jeg hygg, að hann muni vera hjer í næsta herbergi, og sjálfsagt hafa heyrt mest af því, sem hv. þm. Str. og fleiri hafa sagt. Og þótt hæstv. forsrh. víki sjer frá, þá er það engin goðgá. Jeg man t. d. eftir því, að framan af þessu þingi stóð stóll hv. þm. Str. oft auður, af því að hv. þm. var þá á öðru þingi, og auk þess finst mjer oftast óþarfi að sitja og hlusta á það, sem hv. þm. (TrÞ) segir. Hvað snertir þá spá hv. þm., að hæstv. forsrh. muni verða farinn að fullu úr stól sínum á næsta þingi, þá hygg jeg best fyrir hv. þm. (TrÞ) að láta sjer hægt um slíkar spár, því að það getur farið svo, að aðrir stólar losni fyr en stóll hæstv. forsrh.