11.03.1927
Neðri deild: 27. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í C-deild Alþingistíðinda. (3049)

82. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Tveir hv. þm., hv. 2. þm. Reykv. og hv. 2. þm. N.-M., hafa gert frv. að umtalsefni í löngum ræðum. Jeg vil geta þess, að jeg verð að gera skýran greinarmun á ræðum þessara tveggja hv. þm. Síðasti ræðumaður tók það fram, að hann hefði ljett á samvisku sinni, og jeg get vel trúað því. Jeg álít sem sje, að það hafi ekki fyrst og fremst verið umhyggja fyrir Búnaðarfjelagi Íslands eða ást hans til landbúnaðarins, sem hafi hvatt hv. þm. (MJ) til að tala. Aftur á móti um hinn ræðumanninn, hv. 2. þm. N.-M., geri eg ekki ráð fyrir öðru, en hann tali af umhyggju fyrir landbúnaðinum, frá sínu sjónarmiði. Þetta, sem skilur ræðumennina, hefir áhrif á það, hvern veg jeg svara þeim hvorum um sig. Jeg get sagt það, að jeg var í talsverðum vafa, hvort svara skyldi. Í fyrsta lagi vegna þess, að frv. var áður þrautrætt, bæði á þingi og í blöðunum. Og um það atriði, er hv. 2. þm. N.-M. dró inn í umræðurnar og hv. 2. þm. Reykv. gerði að aðalumtalsefni sínu, þ. e. hið svonefnda áburðarmál, er það að segja, að bæði hefir það verið mikið rætt utan þings, enda ekki vettvangur þess hjer, fyr en málið kemur til landbn.

Þá er hin þriðja ástæða til þess, að jeg vildi ekki rökræða þetta mál hjer nú, sú, að jeg er sannfærður um, að hvatir flestra þeirra manna, sem mesta óánægju hafa látið í ljósi yfir gerðum búnaðarþingsins, eru ekki fyrst og fremst þær, að vinna landbúnaði vorum gagn. Hinsvegar er mjer óhætt að segja, að við, sem að því stóðum, höfum góða samvisku af að hafa sett niður vandræði, og láta gott úr verða því, er komið var. Af þessum ástæðum öllum gat jeg látið vera að svara. En vegna annara, sem við málið eru riðnir, en ekki eiga sæti í þessari samkundu, finn jeg ástæðu til að fara um það nokkrum orðum.

Um einstök atriði get jeg geymt mjer að tala, þar til á rjettum vettvangi hjá landbn., ef þess verður óskað, því að hv. þm. (ÁJ) er jeg beini orðum mínum að, á sæti í þeirri nefnd og hefir því aðstöðu til að geta kynt sjer þau þar.

Ræða mín mun nú skiftast í tvent: 1) um frv., 2) um áburðarmálið.

Háttv. 2. þm. N.-M. og jeg höfum átt ritdeilu um þetta mál, meðan hann stýrði hjer blaði einu í höfuðstaðnum. (ÓTh: Hvaða blað var það?). Það var aðalmálgagn Íhaldsflokksins. (ÓTh: Hvað heitir það?). Það heitir „Vörður“. Jeg býst við að þetta minnisleysi hv. þm., ef hann er búinn að gleyma nafni blaðs stjórnmálaflokks síns, stafi af áhugaleysi hans um þessi mál, og hafi hann ekki lesið greinarnar. (ÓTh: Jeg þakka upplýsingarnar; vildi aðeins fá að heyra rjett nafn blaðsins af vörum hv. þm.).

Jeg er mjög ánægður yfir því, hvernig sú ritdeila fór fram okkar í milli, og sje jeg ekki ástæðu til að draga hana inn í umræður. En mjer þykir rjett að víkja að einstökum atriðum. Hv. 2. þm. N.-M. fanst standa annað í 3. gr. nú en í 2. gr. í fyrra. Það er rjett, að því leyti, að komið er inn orðið ókeypis. Tilætlunin er sú, að ríkið eigi að sjá um, að áburðurinn sje fluttur ókeypis með skipum ríkissjóðs eða Eimskipafjelagsins á allar hafnir. Ef um samning við fjelagið væri að ræða, og það vildi fá borgun fyrir flutninginn, hefði stjórnin heimild til að greiða kostnaðuinn úr ríkissjóði. — Hv. þm. hafði eftir mjer, að jeg teldi notkun tilbúins áburðar hið eina nauðsynlega, og eigi gæti verið um ræktun að ræða án hans. Það er auðvitað alt of bókstaflegur skilningur á ummælum mínum. Jeg hefi aðeins viljað leggja áherslu á, að bændum yrði kent að nota tilbúinn áburð, og jeg held því fast fram, að það sje eitt aðalskilyrðið fyrir aukinni ræktun. Hinsvegar hefir mjer aldrei dottið í hug að stuðla að því, að bændur slægju slöku við hirðing húsdýraáburðar. En jeg er sannfærður um, að skriður kemst ekki á almenna aukna nýrækt hjer, fyr en farið verður að nota tilbúinn áburð til muna.

Þá sagði hv. þm. (ÁJ), að þetta vari ekki mál bænda yfirleitt; aðeins fáeinir bændur í grend við kaupstaðina notuðu tilbúinn áburð svo nokkru næmi. Þetta síðara er rjett. En það er einmitt það, sem jeg vil færa í lag með þessu frv. Núverandi ástandi vil jeg breyta og gera sjerstakar ráðstafanir til þess að koma áburðinum til allra bænda út um land. Og til þess að koma því í verk, finst mjer mjög aðlaðandi hugsun, að hægt sje að kaupa tilbúinn áburð á öllum höfnum sama verði.

Þá sagði hv. þm., að ekki lægi nú fyrir nein áskorun frá búnaðarþingi, um að samþykkja þetta frv. það er rjett. En í fyrsta lagi var búnaðarþingið áður búið að samþykkja slíka áskorun, og því ekki ástæða til að leita til þess í annað sinn. Og í öðru lagi var áburðarmálinu vísað til nefndar, og var meiningin að halda því innan þeirrar nefndar. En það var, sem kunnugt er, ekki leitt til lykta fyr en einum degi áður en búnaðarþingi var slitið, svo að eigi gafst tími til að taka þetta fyrir. Urðum við að ljúka afgreiðslu þeirra mála, er ekki þoldu neina bið.

Þá kem jeg að áburðarmálinu. Jeg verð að segja það, að mjer fanst hv. 2. þm. N.-M. fara rjett af stað í upphafi máls síns. Hann mintist á, að við, búnaðarfjelagsstjórnin, hefðum talað um að leggja málið fram á rjettum vettvangi, búnaðarþingi og landbn. Alþingis. Út frá því finst mjer, að hann hefði átt að halda sig innan þess ramma, einkum þar sem hann er sjálfur í landbn.

Það, sem við höfum gert, hinir alþingiskjörnu fulltrúar í stjórn Búnaðarfjelags Íslands, er þetta: Við höfum fyrst og fremst komið fram með málið á búnaðarþingi. Er það svo nýlega afstaðið, að það mætti vera mönnum í fersku minni. Og hinn aðili þess máls, Sigurður Sigurðsson, átti þar líka sæti. Á þessum vettvangi mættumst við allir, og hv. 2. þm. N.-M. veit vel, hvernig búnaðarþingið tók í þetta mál, að þar urðu allir aðilar sammála. Frá búnaðarþingsins hálfu var málið algerlega lagt á vald okkar í búnaðarfjelagsstjórninni.

Jeg skal hjer geta þess, að bæði í fyrra og nú átti jeg tal við landbúnaðarnefndir Alþingis um þetta mál, og hefi engar ásakanir fengið frá þeim. Og loks skal jeg lýsa yfir því, fyrir mína hönd og minna samstarfsmanna, að við teljum okkur skylt að leggja málið undir dóm landbúnaðarnefnda, ef þær óska þess. Jeg get bætt því við fyrir sjálfan mig, og jeg hygg líka fyrir hönd samverkamanns míns, að ef menn vildu fá aðra menn í okkar stað í stjórn Búnaðarfjel. Íslands, þá værum við fúsir til þess að leggja starfið niður nú þegar. Þannig getur hv. 2. þm. N.-M. átt fullan aðgang að okkur, ef hann vill.

Þá skildi jeg hv. 2. þm. N.-M. svo, að við hefðum báðir brugðist trausti Alþingis, fulltrúar þess í stjórn Bfj. Ísl. Jeg læt mjer í ljettu rúmi liggja, þótt hv. þm. (ÁJ) vantreysti mjer í þessu efni. Jeg skoða mig ekki sem fulltrúa hans nje hans flokks, hvorki í stjórn Bfj. Ísl. nje á öðrum sviðum. Beini hann

vantrausti sínu að sínum flokksmanni, ef hann vill. Jeg tek ekki á móti neinu slíku frá hv. 2. þm. N.-M.

Ef mínir flokksmenn, sem eru mínir umbjóðendur, óska þess aftur á móti, skal jeg þegar leggja niður starf mitt hjá búnaðarfjelaginu. En jeg hefi eigi fengið neina vantraustsyfirlýsingu frá þeim, heldur eingöngu yfirlýsta samúð með starfi mínu. Jeg hefi meira að segja orðið var við alveg sjerstaklega mikla samúð út af þeirri hlutdeild, sem jeg átti í lausn áburðarmálsins. En ef það á að liggja í orðum hv. 2. þm. N.-M., að hann vantreysti manni Íhaldsflokksins í stjórninni, þá kemur mjer það að vísu ekki við sem þingmanni, en jeg skal lýsa yfir því, að það er óverðskuldað, ef hann hygst að bera slík orð fram, því að hjer er um einn hinn merkasta og besta bónda að ræða, athugulan og merkan mann. Jeg er sannfærður um það, að það, sem hann hefir gert í þessu máli, hefir hann gert af sömu hvötum og jeg, til þess að láta ekki starfskrafta búnaðarfjelagsins sundrast. Jeg veit líka, að hið sama vakti fyrir Sigurði Sigurðssyni; það var sú ábyrgðartilfinning, að sundra ekki kröftum þeim, sem að búnaðarfjelaginu standa. Um okkur alla gilti það, að við vissum hvaða ábyrgð hvíldi á okkar herðum. Og þegar svo er, þá setjum við grið. Við höfum því ekki brugðist trausti Alþingis. Við höfum aðeins hugsað um það, að fjelagið geti unnið vel sitt starf.

Jeg taldi það mína skyldu, að stuðla að því, að fulltrúi Íhaldsflokksins í stjórninni sæi sjer fært að starfa þar með forsjá og aðgæslu. Jeg vil hafa góða samvinnu við slíkan mann. Og jeg vil leggja áherslu á, að mjer þótti vænt um, að Sigurður Sigurðsson fjekst til þess að starfa fyrir fjelagið áfram, vegna dugnaðar hans og mikilla áhrifa út um land, eins og mjer líka þótti vænt um, að Magnús Þorláksson hjelt áfram að starfa með mjer í stjórn búnaðarfjelagsins.

Hv. 2. þm. Reykv. (MJ) ætla jeg ekki að svara, því að það var málinu alveg óviðkomandi, sem hann sagði, og af engri góðgirni í landbúnaðarins garð. En jeg vona það, að hv. þm. (MJ) fái álíka mikið fylgi við sinn málstað í framtíðinni og áður hefir verið; jeg læt það, sem hann sagði, fara inn um annað eyrað og út um hitt.