11.03.1927
Neðri deild: 27. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í C-deild Alþingistíðinda. (3051)

82. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Jón Sigurðsson:

Í tilefni af ummælum, sem hv. flm. ljet falla, vildi jeg segja nokkur orð. Hann gat þess, að Magnús á Blikastöðum mundi hafa borið sig saman við mig um lausn áburðarmálsins. Þetta er rjett, Magnús skýrði mjer frá gangi áburðarmálsins á búnaðarþinginu og frá þeim samkomulagshorfum, er þá voru og síðar komust á, án þess að jeg gæti fallist á þær sættir, því jeg taldi eðlilegast, að málið yrði fullrannsakað og úrskurður fengist, bygður á þeirri rannsókn. En þrátt fyrir þennan skoðanamismun, eða tillátssemi hans við búnaðarþingið, vil jeg lýsa því yfir, að það haggar ekki því trausti, er jeg hefi borið til þessa manns, og sem var þess valdandi, að jeg studdi kosningu hans í stjórn búnaðarfjel. á síðasta þingi. Jeg trúi Magnúsi flestum betur til þess að vinna landbúnaðinum gagn í framtíðinni, ef búnaðarfjelagið verður svo heppið að njóta krafta hans. Sá maður hefir sýnt það í verkinu heima fyrir, að mikils má vænta af tillögum hans, er landbúnað snerta, nú, þegar hann er þannig kvaddur til þessara mála.

Jeg hefði raunar getað látið þessa athugasemd nægja. En ræða hv. 2. þm. Reykv. gaf mjer tilefni til að bæta nokkrum orðum við. Hann rakti að nokkru ræðu sína frá í fyrra og byrjaði með því að staðhæfa, að alt sem þar hefði verið sagt, væri nú staðfest, en endaði með því að segja, að alt væri þetta á huldu, og enginn vissi, hvað rjett væri í málinu. Jeg ætla að lofa þessu tvennu að stangast hjá háttvirtum þm. Jeg þarf því ekki að fást við þetta skraf, heldur þau ummæli hans, áð landbúnaðarnefndin í fyrra hefði riðið á vaðið með illan munnsöfnuð. Það vill nú svo vel til, að ummæli landbúnaðarnefndar eru eingöngu bygð á skýrslu frá stjórn búnaðarfjelagsins. En þá stjórn skipuðu þeir Vigfús Einarsson, Tryggvi Þórhallsson og Valtýr Stefánsson. Allir þessir menn komu á fund landbn. og gáfu henni skýrslu, samhljóða þeirri, er birtist í blöðunum í sumar, og geta hv. þdm. borið saman nefndarálit landbn. og skýrslu búnaðarfjelagsstjórnarinnar, og munu þá allir sjá, að þar er ekkert orð ofsagt. Einn þessara manna, Valtýr Stefánsson, hefir síðar staðið framarlega í því að draga taum Sigurðar, svo að það verður að álíta, að hann hafi þó ekki fært mál hans til verra vegar; og að sú skýrsla, sem hann gaf ásamt hinum stjórnarnefndarmönnunum, sje í öllum aðalatriðum rjett, og þá einnig nefndarálitið, — því jeg vil ekki gera ráð fyrir, að hann hafi gert sig sekan í þeim heigulshætti að þegja, þegar saklaus maður, að hans áliti, var sakborinn. Jeg ætla honum ekki slíkan heigulshátt. Skýrsla búnaðarfjelagsstjórnarinnar er því samkvæmt því, sem áður er sagt, staðfest bæði af andstæðingum og meðhaldsmönnum Sigurðar, sem svo eru kallaðir. Það er því ekki vert fyrir hv. 2. þm. Reykv. að viðhafa mjög stór orð. Að stjórnin hafi verið sjerstaklega valin til þess að hrinda búnaðarmálastjóra, er aðeins sleggjudómur. Að sjálfsögðu ætlaðist nefndin til að hún rannsakaði málið og gerði þær ráðstafanir, er hún teldi nauðsynlegar, en það eru svo mikilvæg og margháttuð störf, sem búnaðarfjelagið hefir með höndum, að ekki er hægt að velja menn í stjórn þess til neins eins sjerstaklega. Í stjórninni er nauðsynlegt að hafa menn með víðtækri þekkingu og reynslu. En þar var enginn, sem rekið hafði landbúnað sjálfur, og því ekki of mikið, að einn bóndi tæki þar sæti, maður, sem með lífi og sál hefir sýnt, að hann skilur fullkomlega, hvert stefnir í landbúnaðarmálunum.

Þetta var aðeins lítið innskot. Annars ætla jeg mjer ekki að svo stöddu að taka þátt í deilum um áburðarmálið. Það er þegar búið að ræða það allmikið, og eg hygg, að enginn ávinningur verði að því að ræða það öllu meira.