19.03.1927
Neðri deild: 34. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í C-deild Alþingistíðinda. (3059)

82. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Hákon Kristófersson:

Það er nú orðið ærið langt síðan mál þetta var á dagskrá. Er jeg því búinn að gleyma mörgum orðum, sem þá voru látin falla og svara þurfti.

Jeg ætlaði ekki að segja mikið um þetta mál. En þar sem mörg ávirðingar- og ófrægðarorð hafa verið sögð, bæði um mig og nefnd þá, er um mál þetta fjallaði í fyrra, og jeg átti sæti í, sje jeg mjer ekki fært annað en segja hjer nokkur orð.

Bæði jeg persónulega og landbn. neðri deildar í fyrra hafa verið borin brigslum, og meðal annars í hinu víðlesna blaði „Tímanum“, sem háttv. þm. Str. er ritstjóri að. Er þar meðal annars sagt um mig og aðra samnefndarmenn mína, að við sjeum skósveinar hæstv. fjrh. þessi ummæli lýsi jeg hjer með alger ósannindi og vísa þeim aftur til föðurhúsanna.

Þá skal jeg snúa máli mínu til háttv. 2. þm. Reykv. En hann mun víst þegar vera búinn að tala tvisvar, og má því ekki samkv. þingsköpum taka aftur til máls; vænti jeg því, að hæstv. forseti leyfi honum að taka enn á ný til máls, ef þess gerist þörf. (MJ: Jeg geng aftur, þó síðar verði.) Þessi háttv. þm. sagði meðal annars, að mál þetta væri einskisvert. En sje svo, þá skil jeg ekki, hvers vegna hann stendur upp og heldur langar hrókaræður í því. Því satt sagt hjelt jeg, að sá mikli gáfumaður færi ekki að leggja mörg orð til einskisverðra mála. Þá sagði hann og ennfremur, að þingdeildin hefði gert sjer vanvirðu í fyrra, og grundvallaðist sú vanvirða á því, að deildin samþ. frv., sem landbn. hafði til meðferðar og fór í svipaða átt og frv. það, er nú er til umr. Hann sagði og, að stjórn búnaðarfjelagsins, sem kosin var í fyrra, hefði verið kosin með það fyrir augum að vinna ákveðið verk. Þetta býst jeg við að sje rjett hjá þessum háttv. þm., og hann hafi að því leyti ekki haggað rjettu máli. Því að það mun svo um kosningu þessarar stjórnar, eins og um kosningar yfirleitt, að þær eru altaf í ákveðnum tilgangi. Þannig var þessi stjórn kosin sem stjórn Búnaðarfjelags Íslands, og þá vitanlega til að vinna hennar ákveðna verkefni, en ekki til þess að fást við alla skapaða hluti milli himins og jarðar.

Þá sagði hann ennfremur, að landbn. neðri deildar í fyrra hefði riði á vaðið með ósæmilegt orðbragð og svívirðingar um þáverandi og núverandi búnaðarmálastjóra, Sigurð Sigurðsson. (MJ: Hvað sagði háttv. 1. þm. Rang.?) Hvað sagði hann? Hann sagði, að landbn. hefði verið harðorð. en það er alt annað en segja hana fara með svívirðingar. (MJ: Jeg sagði, að nefndin hefði byrjað með „þennan munnsöfnuð.“) Jeg verð því að mótmæla, að í nál. því, sem landbn. ljet frá sjer fara í fyrra, hafi verið neinar dylgjur, enda þótt þar sje sagt, að eftir því sje vænst, „að fjelagið hafi þeim framkvæmdastjóra á að skipa“ o. s. frv. þetta eru engar dylgjur og það hefði háttv. 2. þm. Reykv. átt að vera vorkunarlaust að skilja. Annars skal jeg viðurkenna, að það er erfitt að tala um mál, sem geta verið einkamál einstakra manna eins og þetta, þegar búið er að þenja það inn á svona breiðan grundvöll.

Nei, því verður ekki neitað, að það er ekki sæmandi jafn ágætum manni og háttv. 2. þm. Reykv., að viðhafa þau orð um landbn. í fyrra, að framkoma hennar hafi verið óhæfileg og óforsvaranleg í þessu máli, enda þótt svo liti út frá hans bæjardyrum. (MJ: Það eru þær einu rjettu bæjardyr!). Það má vera, að þm. finnist það sjálfum, en svo finst mönnum ekki alment. Hafi framkoma nefndarinnar verið óforsvaranleg í máli þessu, þá er það sökum þess, að við nefndarmenn höfum ekki vitað betur, sem þá hefir stafað af því, að við höfum ekki fengið rjettar upplýsingar. Er því síst ástæða fyrir háttv. 2. þm. Reykv. að vera að slá slíkum sleggjudómum fram.

Þá kem jeg að háttv. þm. Str. Hann mintist rækilega á þetta mál, eins og við mátti búast og honum bar skylda til, því hann er ekki óverulegur aðili, hvað málið snertir. Fyrst talaði um, að hinn rjetti vettvangur fyrir mál þetta væri ekki á Alþingi. Á það atriði lítur hann öðruvísi nú en hann gerði í fyrra, því að þá var það hann, sem kom með málið til þingsins. Leit hann ekki þá svo á, að Alþingi væri hinn rjetti vettvangur? Hann sagði og ennfremur, að bæði hann og aðrir búnaðarþingsfulltrúar hefðu góða samvisku fyrir meðferð sína á málinu. Það er nú svo, að það er ábyggilegasta hrós hvers manns, þegar samviskan segir honum, að hann hafi gert rjett. Hvort slíku sje til að dreifa hjer, skal jeg ekki um segja, nema frá mínum bæjardyrum sjeð, býst jeg við, að annaðhvort sje samviskan hvað þetta mál snertir ekki góð, eða hún sofi.

Mál þetta hefir vakið mikla eftirtekt út um land, og menn hafa því fylgt með athygli öllu, sem í því hefir gerst. Margir hafa litið svo á, að ráðist hafi verið að ósekju á Sigurð Sigurðsson búnaðarmálastjóra. Aftur hafa aðrir litið svo á, að honum hafi verið vikið frá af eðlilegum ástæðum, af því að það hafi best hentað. Þegar svona stendur, er ekki nema eðlilegt, að menn óski, að úr deilunni sje skorið og hið rjetta verði upplýst. Það er kunnugt, að ásakanir hafa gengið á víxl, en það virðist vera orðið lítið úr þeim með þessum svokölluðu griðum eða þessari sætt, sem hv. þm. Str. talaði með svo miklum fjálgleik um. Út af fyrir sig er það vel farið, þegar sættir eða grið komast á, en þá mega þau ekki verða á þann hátt, að þau verði aðeins stundarfriður; þau mega ekki verða á þann hátt, að saklaus maður fái ekki rjetting mála sinna. Hafi afstaða mín og landbn. Nd. gagnvart Sigurði Sigurðssyni verið ill og rakalaus ofsókn, þá átti hann uppreisn skilda, en skömm að skella á mjer og þeim, sem hefðu viljað sakfella hann að ástæðulausu. Jeg held því nú fram, að sannleikurinn hafi verið vandlega grafinn í búnaðarfjelaginu, og að þá megi lengi bíða þess, að hann komi fram í dagsins ljós.

Auðvitað sagðist hv. þm. Str. ætla að leggja málið í hendur landbn. Alþingis. En það hefði hv. þm. átt að gera áður grið voru sett, svo fremi landbn. kom málið við.

Jeg ætla ekki að tala um úrslit málsins; þau liggja hjer fyrir utan. En jeg segi þetta vegna þeirrar nefndar, sem fjallaði um málið í fyrra. Jeg tel málinu sökt í það djúp, sem vafasamt er, hvort fiska megi það rjett upp úr. Jeg harma það, vegna þess að jeg vil, að hafi jeg gert rangt, þá komi það fram, til þess að það hitni á mjer, en ekki á alsaklausum manni.

Hv. þm. Str. sagði, að grið hefðu verið sett til að varna sundrung. Það er nú altaf rjettdæmi: Sælir eru þeir, sem frið semja. En það er enginn friður, ef lifir í kolunum og sök hvílir á saklausum manni. Með þessari griðasetningu hefir ekki tekist að slá niður sundrunguna, enda er öll meðferð málsins þannig, að slíkt er ekki eðlilegt. Sannleikurinn er ekkert leikfang, sem hægt er að kasta þennan daginn á þessa hlið, en hinn daginn á hina. Sannleikurinn krefst rjettlætisins; hann á að koma fram í hverju máli. Jeg efa það ekki, að það er rjett hjá hv. þm. Str., að afstaða hans hafi verið sú, að koma í veg fyrir sundrung og að ráða málinu sem best til lykta.

Það er nú svo, að þegar mál er hafið, jafnvel á rjettum grundvelli, getur það orsakað sundrungu. En þar sem hver góður maður metur rjettlætið meira en sundrunguna, þá vinnur hann það ekki til griða, að bera sannleikann fyrir borð. Við hv. þm. Str. vorum á einu máli um það, er gerðist í fyrra, þótt við gengjum þess ekki duldir, að það spor, sem þá var tekið, mundi valda sundrung; þá var það aðeins rjettlætið, sem við hugsuðum um að láta hafa framgang sinn. Hv. 2. þm. Reykv. hefir dregið það fram á breiðum grundvelli, að við hefðum talið í fyrra mistök vera á áburðarsölunni. Jeg held mjer við þá skoðun enn; griðin í Bfj. Ísl. villa mjer þar ekki sýn. Það er líklega tilviljun, frekar en einn liður í þessari keðju, að annar aðili þessa máls, maður í firmanu Nathan & Olsen, Olsen að nafni, hefir orðið fyrir þeirri linkind, að þurfa ekki að greiða það gjald, sem hann átti að greiða.

Jeg verð að slá því föstu, að þótt grið virðist hafa verið sett, þá má alls ekki breiða yfir sannleikann, en það er gert, ef hv. þm. Str. gerir ekki betur grein fyrir þessu máli en orðið er. Og gagnvart mjer ber honum skylda til þess.

Þá sagði hv. þm. Str., að ekki væri forsvaranlegt að kasta Sigurði Sigurðssyni út á gaddinn. Þar kom nú betri maður hans fram! Jeg er hv. þm. sammála um þetta. En höfum við þá batnað þetta síðan í fyrra? Það má nú gleðja sig við það, að batnandi manni er best að lifa. Jeg vil nú lifa í þeirri trú, að við, hv. þm. Str. og hv. þm. Barð., förum ekki versnandi með aldrinum.

Þá sagði hv. þm. Str. einkennilega setningu, sem jeg vona, að hann hafi mist óvart af munni sjer. Hann taldi sig aðeins fulltrúa annars pólitíska flokksins í stjórn Bfj. Ísl. Jeg lít nú svo á, að hv. þm. sje fulltrúi allra lands manna í stjórn fjelagsins. Jeg hjelt, að hv. þm. Str. ætti að vera það allra manna ljósast og hugleiknast, sem form. Bfj. Ísl., að halda fjelaginu fyrir utan hið pólitíska dægurþras.

Hv. 2. þm. Árn. taldi óþarft að fara mörgum orðum um málið. Það er nú merkilegt, að mestu menn eins og hv. þm. (JörB) skuli skjálfa við það, að drepa fingri á sannleikann. Það er eins og að sum mál verði að draga inn í skuggann. Jeg man ekki betur en að hv. þm. liti með mestu hrifningu á málið í fyrra, sem eitthvert stórmál. Það sannar það, að hann hefir bundið öðrum þær byrðar, sem hann vill ekki leggja á sjálfan sig. Hv. þm. er í landbn. og átti að telja sjer skylt að halda uppi svörum fyrir hana, þótt bæði jeg og hv. 2. þm. Skagf. höfum verið bornir sjerstökum brigslum. Hv. 2. þm. Árn. sagði, að skoðanir hefðu verið skiftar um þetta mál í landbn. í fyrra. Svo var nú ekki. Það sýnir nál., sem við skrifuðum allir undir. — Þá sagði hv. þm. nokkuð, sem mjer þótti merkilegt — það gat ekki verið af vitsmunaskorti — að landbn. hafi í fyrra farið nærri um, hver niðurstaðan yrði í málinu. Jeg get nú ekki áttað mig á því, hvernig hann hefir getað litið svo á, að eftir þann mikla útblástur, sem varð í málinu, að því yrði sökt í gleymskunnar djúp í Bfj. Ísl. Jeg býst við því, að svo verði litið á, að sökin sje hjá stjórn búnaðarfjel. og landbn., en sje svo, átti það að koma í ljós. Og þetta álit verður enn almennara við það, að eini maðurinn, sem hafði lagaþekkingu í stjórn Bfj. Ísl., er látinn fara. Það er nú svo sem altítt, að skift er um menn í stjórnum. Jeg vil nú ekki viðhafa það tískuorðalag, að viðkomandi sje rekinn. En nú vill svo til, að þetta á sjer stað, að því er virðist í sambandi við áburðarmálið, en þar var hlutaðeigandi maður einna harðastur á móti Sigurði Sigurðssyni.

Þá sagði hv. þm. (JörB), að sjer og öðrum andstæðingum hv. 2. þm. Reykv. væri óviðkomandi orð og athafnir Magnúsar Þorlákssonar í stjórn Bfj. Ísl. Það er merkilegt að heyra þetta. Það sannar, að víða viðgengst Pílatusarþvotturinn, en það merkilega við hann er það, að hversu svo sem hver og einn þvær sig þeim þvotti, þá verður hann altaf jafnskítugur eftir sem áður. Nei, þessir menn þora ekki að standa við orð sín eða gerðir, heldur svínbeygja sig, þegar þeir verða fyrir einhverjum utanaðkomandi blæstri. Hv. þm. Str. segist að eins vera fulltrúi síns flokks í stjórn Bfj. Ísl. Svo kemur annar hv. þm. og segir, að ítaka Magnúsar Þorlákssonar í stjórn fjelagsins sje líka pólitísk. Það er þannig sýnilegt, að hjá þessum góðu mönnum er það ekki í einlægni gert að halda þessi grið, heldur hrein og bein yfirborðsblekking. Jeg ímynda mjer, að að því verði dyggilega unnið að smeygja svo mikilli pólitík inn í Bfj. Ísl. sem frekast er mögulegt. Þetta, sem jeg tala, eru ekki ósannindi, og jeg býst ekki við, að nokkur maður geti nokkuru sinni hrakið þessi orð mín, enda sýnir kosning sú, sem nýlega fór fram í stjórn fjelagsins, þar sem maður með lögfræðislega þekkingu er látinn fara, enda þótt góður maður kæmi — að þar er eitthvað talsvert af flokkareiptogi.

Þá sagði hv. þm. (JörB), að hann óskaði ekki eftir neinum upplýsingum um málið; hann hefði fengið þær í fyrra, hefði bygt á þeim upplýsingum, er hann skrifaði undir nál. fræga. Hann um það. Síðan sagði hann, að hann óskaði ekki eftir trausti frá andstæðingum sínum. Þetta átti að heimfærast til hv. þm. Str.

Það er nú satt að segja einkennilegt, að hverjum manni skuli ekki æfinlega þykja lofið gott, þykja gott að heyra traustsorð, sjerstaklega frá andstæðingum sínum, nema þar sje um að ræða menn, sem maður virðir einskis í öllu tilliti og er alveg sama um hvað segja. Svo rak hv. þm. á endahnútinn með því að segja, er hv. 2. þm. Reykv. hafði togað það upp úr honum, að eiginlega hafi Sig. Sigurðsson ekki verið settur inn aftur. Annað segir nú stjórn Bfj. Ísl. Og þar hefir hv. þm. Str. gengið gott til. En hann hefir brostið þrek til þess að halda málinu það langt, að það sæist, hvor hefði haft rangt fyrir sjer. Og, jeg endurtek það: Hafi jeg gert það sem er rangt, þá vil jeg, að sökin skelli á mjer, en ekki á Sigurði Sigurðssyni saklausum.

Hv. þm. (JörB) talaði um, að verkaskifting sú, er leiddi af griðunum, væri góð í alla staði, þar sem hlutaðeigendur væru góðir hvor á sínu sviði. Það getur vel verið, en þetta er nýtt atriði, sem ekki var ráðgert í fyrra.

Niðurstaða mín er því þessi: Í fyrsta lagi, að stjórn Bfj. Ísl. hafi ekki efnt það, sem hún lofaði í sumar, að leggja málið í hendur landbn. Alþingis, og í öðru lagi, að hún hafi ekki látið þjóðina vita hið rjetta í málinu. Almenningi er lítt kunnugt, hvernig í því liggur, sem ekki er von til, þar sem ekki einu sinni við, sem hjer sitjum, vitum það, hvað gerst hefir fyrir luktum baðstofudyrum.

Jeg held jeg láti nú útrætt um þetta mál að sinni. En jeg hefi vil enda mál mitt með því að fella þann dóm í því, að þetta sje einhver sú allra aumasta niðurstaða í máli, sem maður veit á seinustu tímum. Hún ber vott um tilhneigingu annaðhvort til þess að vera ekki rjettdæmur eða til kjarkleysis; hvort er, veit jeg ekki; held það sje það síðarnefnda.