19.03.1927
Neðri deild: 34. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í C-deild Alþingistíðinda. (3061)

82. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Flm. Tryggvi Þórhallsson):

Það eru nú liðnir 8 sólarhringar síðan 1. umr. hófst, og hefir mál þetta komið 6 sinnum á dagskrá. Það hafa oft verið látin falla orð um óþarflega mælgi hjer á þinginu, en jeg verð að láta í ljós, að þau orð eiga hvergi betur við en einmitt hjer. Síðan jeg talaði síðast, fyrir 7 sólarhringum, hafa ekki nema örfá orð verið töluð um sjálft frv., og það var, þegar síðasti ræðumaður, hv. þm. Ak. vjek ofurlítið að því. Annars hefir annað mál verið rætt hjer, sem eins vel hefði mátt koma að við umr. um fjárlögin. En eins og jeg hefi áður sagt, er vettvangur þess alls ekki hjer, heldur í landbn. Jeg sje því ekki ástæðu til að svara mörgu af því, sem fram hefir verið borið.

Jeg vil þó fyrst víkja lítillega að ræðu hv. þm. Ak., enda er það eina ræðan í þessu máli, sem snertir frv. Hv. þm. fann allþunglega að því, hvað frv. væri illa orðað. Tók hann t. d. 2. gr. og talaði um, að verið væri að ginna Alþingi til þess að fella hjer dóm. En þm. hefir verið nokkuð fljótfær, því að það er ekki jeg, sem hefi orðað þetta, heldur landbn. Frv. var borið fram í fyrra af landbn. Nd., þar á meðal hv. þm. Barð., og var hv. 2. þm. Skagf., flokksbróðir hv. þm. Ak., frsm. nefndarinnar. Þeir eiga þetta orðalag, en ekki jeg. Eins er um hitt, þar sem er heimildin til þess að framselja einkasöluumboðið. Það er tekið orðrjett, eins og það var í frv. nefndarinnar. Það var ekkert annað en kurteisi við hv. deild, að breyta hjer engu, þar sem hún samþ. frv. þannig í fyrra með yfirgnæfandi meiri hl. atkv. Geta skal jeg þó þess, að hv. þm. Ak. var á móti því, en hann áleit það þó ekki næri eins heimskulegt þá og hann nú gerir. En hann má fella eins þungan dóm yfir frv. og hann vill. Jeg hefi aðeins prentað það upp, eins og landbn. bar það fram og deildin samþykti.

Hv. þm. (BL) vjek í þessu sambandi að frv. því, sem jeg hefi borið fram, um breytingu á vörutollslögunum. Það fer fram á að ljetta tolli af fóðurtegund, sem er bændum mjög nauðsynleg. Jeg hefi ekkert verið að flagga með þetta frv. Jeg hefi aðeins borið það fram, samkv. eindregnum óskum búnaðarþings. Mjer er bæði ljúft og skylt að bera það fram, sem samkunda bænda æskir, þó að jeg fái álasanir fyrir. Jeg skal taka það fram, að þótt háttv. þm. (BL) telji sig bónda, þá er hann þó fyrst og fremst annað. — Þetta var nú það eina, sem vikið var að frv. og einstökum atriðum þess.

Síðan jeg talaði, hafa 4–5 þm. úr andstæðingaflokki mínum hjer í deildinni látið í ljós óánægju yfir þeim tíðindum, sem gerðust á síðasta búnaðarþingi. En jeg vil benda á það, að af hálfu þeirra, sem jeg verð að telja umbjóðendur mína sem fulltrúi í stjórn Búnaðarfjelags Íslands, hafa ekki komið fram neinar aðfinslur, heldur þvert á móti. Það væri nær fyrir andstæðingana að beina aðfinslum sínum til þess manns, sem fer með umboð þeirra. En þótt þeir vildu nú gera það, þá væri það algerlega rangt. Eins væri það líka miður farið, ef þeir vildu nú lýsa vantrausti á honum, því að þeir hafa fulla sæmd af þeim manni sem fulltrúa sínum og mega óefað treysta honum. En jeg vil spyrja: Af hverra manna hálfu koma þessir háttv. þm. fram með aðfinslur sínar? Er það af hálfu Sigurðar Sigurðssonar búnaðarmálastjóra? Jeg vil fullyrða, að það sje ekki af hans hálfu. Er það af hálfu Magnúsar Þorlákssonar á Blikastöðum? Jeg er viss um, að það er ekki af hans hálfu, enda beinast þessar ásakanir þeirra einna helst að honum. Er það af hálfu þeirra manna, sem sátu á búnaðarþinginu? Jeg er viss um, að svo hefir ekki verið. Hver er þá tilgangurinn með öllu þessu? Er hann sá, að greiða fyrir starfsemi Búnaðarfjelags Íslands og efla landbúnaðinn? Jeg neita því. Enginn góður tilgangur er í því að þyrla upp þessu moldviðri. Það er verið að reyna það eitt, að spilla starfsemi mjög merkrar stofnunar.

Jeg vil mótmæla því, að kastað sje á óviðeigandi hátt hnútum að mönnum þeim á búnaðarþinginu, sem sátu í rannsóknarnefndinni. Það var yfirgnæfandi meiri hluti, eða ¾ búnaðarþingsfulltrúanna, sem afgreiddu málið þannig og mótatkvæðalaust, með það fyrir augum, að fjelagið gæti haldið áfram starfi sínu. Jeg tel mjer sóma að því, að standa við hlið þeirra manna, og þó raunar í fylkingarbrjósti, sem með samþykt sinni á búnaðarþinginu stuðluðu að því, að starfsemi þessa þjóðnýta fjelags gæti orðið til sem mests gagns fyrir hinn íslenska landbúnað.

Mjer þykir rjett, þar sem háttv. þm. V.-Sk. og háttv. 2. þm. Reykv. hafa beint til mín nokkrum spurningum, að svara þeim að einhverju leyti, ef jeg get. Háttv. þm. V.-Sk. spurði, hvaða fjárhagsafleiðingar hin nýja skipun á búnaðarmálastjórastöðunni hefði í för með sjer. Um það er ekki hægt að segja með alveg fullri vissu enn, þar sem ekki er endanlega gengið frá þessu af hálfu stjórnar búnaðarfjelagsins. Búnaðarþingið gekk auðvitað frá fjárhagsáætluninni, áður en því sleit. En jeg geri ráð fyrir að þessi skipun verði ekki til neins kostnaðarauka og jafnvel fremur til sparnaðar í samanburði við fjárhagsáætlunina.

Þá spurði háttv. þm., hvort álítast mætti, að heimild væri til þess að skifta búnaðarmálastjórastarfinu. Jeg er ekki lögfræðingur. En þar sem spurningu þessari var beint til hæstv. atvrh., býst jeg við, að hann svari henni. Jeg vil þó benda á það, að þessi skipun var samþ. með þeim meiri hl., sem þarf til að koma fram breytingum á lögum Búnaðarfjelags Íslands. Út frá því, meðal annars, hika jeg ekki við að byggja á þessari samþykt.

Háttv. 2. þm. Reykv. spurði, hvort Sigurður Sigurðsson hefði verið settur inn í embættið aftur. Það er ekki orðið formlega, en jeg tel víst, að það komist í kring, og persónulega skoða jeg það sem þegar orðið. (HK: Þá hefir landbn. haft rangt fyrir sjer í fyrra). Háttv. þm. Barð. er sjálfur í landbn., og á þeim vettvangi mun hann geta fengið þær upplýsingar, sem hann æskir. (HK: En hversvegna ekki alveg eins hjer?).

Þá spurði háttv. 2. þm. Reykv., hvort búið væri að skifta verkum milli búnaðarmálastjóranna. Það er ekki búið til fulls. Einnig spurði hann, hvor þeirra yrði látinn fara með áburðarsöluna fyrir hönd fjelagsins. Jeg er hjer aðeins einn af þrem úr stjórn Bfj. Ísl. En ef háttv. þm. les frv., þá sjer hann, að þar er gert ráð fyrir, að fjelagið hafi heimild til þess að framselja einkasöluumboðið öðrum í hendur. Jeg býst við, að þessi heimild verði notuð, enda gerði landbn. ráð fyrir því, að búnaðarfjelagið framseldi það bændafjelögunum.

Annars mega andstæðingarnir kljást um þetta mál eins og þeir vilja og beina spjótum sínum til mín. Einum gengur þetta til og öðrum hitt. Jeg tel mjer ekki skylt að standa þeim reikningsskap, eins og nú standa sakir. En jeg mun gera frekari grein fyrir málinu, er það kemur til landbn., og svo ítarlega sem nefndin frekast óskar.