19.03.1927
Neðri deild: 34. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í C-deild Alþingistíðinda. (3063)

82. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. þm. Str. minti mig á það, að hv. þm. V.-Sk. hefði beint þeirri spurningu til mín, hvort það væri löglegt að hafa búnaðarmálastjórana tvo, og hvort stjórnin mundi gera nokkuð til þess að leiðrjetta það.

Jeg lít svo á, að Búnaðarfjelag Íslands sje fjelag einstakra manna, og að ríkisstjórnin hafi því eigi neinn íhlutunarjett um það, hvernig fjelagið hagar starfsmannahaldi sínu. Ennfremur skal jeg geta þess, að mjer hefir skilist það á hv. þm. Str., að af þessari breytingu leiddi engan aukinn kostnað fyrir fjelagið, þar sem báðir búnaðarmálastjórarnir gegni að auki ráðunautastarfi í fjelaginu. Ef jeg fer ekki rjett með, þá vænti jeg, að hv. þm. Str. gefi nánari skýringu á þessu.

Það var ekki ætlun mín að blanda mjer inn í umr. þessa máls. Hv. þm. Str. hefir stýrt búnaðarfjelagsskútunni inn á milli skerja, og það er því hans að sigla henni út aftur. Skal jeg ekki ónáða hann í þeirri starfsemi hans, enda geri jeg ráð fyrir, að hann búist ekki við aðstoð minni í því efni, nje vilji þiggja hana.