19.03.1927
Neðri deild: 34. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í C-deild Alþingistíðinda. (3065)

82. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er aðeins stutt athugasemd. Jeg þarf ekki að svara hv. þm. Ak. miklu — finn ekki ástæðu til að elta ummæli hans um stjórnendur Búnaðarfjelags Íslands. Jeg læt hann tala um sameiginlegt skálkaskjól með stjórnendum búnaðarfjelagsins, en jeg skal leyfa mjer að segja hv. þm. (BL) það, að jeg vil heldur vera í þeim hóp, þó að hann kalli alla þá menn skálka, heldur en að vera í hópi þeirra manna, er hv. þm. Ak. telur sig til. Jeg uni því hlutskifti vel.

Hæstv. atvrh. ljet þau orð falla í ræðu sinni, sem jeg get ekki verið honum sammála um. Hann kvaðst líta á búnaðarfjelagið svo, að það væri einkafjelag. Jeg lít aftur á móti svo á, að búnaðarfjelagið sje opinber stofnun. Fyrst og fremst fær fjelagið fje sitt nálega alt frá ríkinu, og auk þess er því gert að vinna ótal opinber störf fyrir ríkið, það eru sett lög um starf þess af Alþingi, og ef fjelagið yrði leyst upp, tel jeg engan vafa geta leikið á, að ríkið ætti eignir þess.

Mjer þótti vænt um að heyra það frá hæstv. atvrh., að hann ætlaði ekki að ónáða oss í búnaðarfjelaginu í tilraun vorri til þess að sigla fjelaginu út úr skerjunum, og vænti jeg þess, að hæstv. ráðh. sje í því atriði ekki í ósamræmi við, flokksbræður sína í þessari háttv. deild.

Hv. 2. þm. N.-M. sagði í ræðu sinni, að jeg vildi ekki svara spurningum hans viðvíkjandi þessu máli. Jeg skal taka það fram, að jeg hefi þegar svarað þeim spurningum í hv. landbn. þessarar deildar. Þá varpaði hv. þm. fram þeirri spurningu, hverja jeg skoðaði sem umbjóðendur mína í búnaðarfjelaginu, og gat þess í því sambandi, að meðal annara hefðu 2 Íhaldsmenn kosið mig í stjórn fjelagsins. Þessu er því til að svara, að þessir menn kusu mig ekki í stjórn búnaðarfjelagsins til þess í raun og veru að tryggja kosningu mína, heldur til þess að tryggja kosningu annars; mína kosningu þurftu þeir ekki að tryggja. Þá beindi hv. þm. þeirri spurningu til mín, hvaða umboð jeg hefði haft til þess að jarða þetta mál í búnaðarþinginu, og er því til þess að svara, að yfir moldum óeiningarinnar í Bfj. Ísl. stóðu allir starfsmenn þess, stjórnendur og aðrir, og fulltrúar á búnaðarþingi sameinaðir.