19.03.1927
Neðri deild: 34. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í C-deild Alþingistíðinda. (3069)

82. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Jörundur Brynjólfsson:

Það er nú með samviskunnar mótmælum, að jeg neyðist til þess að bæta nokkrum orðum við umræður þær, sem fram hafa farið um þetta mál. En af því að það hefir verið vikið allmiklu að mjer, þá kemst jeg ekki hjá því að svara. Jeg skal þá byrja á hv. 2. þm. Reykv. En með því að hann mun vera sálaður, þá skal jeg ekki fara mjög langt út í sakirnar, þó jeg að vísu trúi á upprisu og annað líf, ekki síst þar sem hjer á í hlut prestur og guðfræðiskennari. En allur er varinn góður, ef hann skyldi ekki vera með fullu fjöri fyrst eftir upprisuna. Hann gat þess, og það þótti mjer einna grálegast mælt í okkar garð, að við, sem ekki viljum gera veður út af gerðum búnaðarþingsins í þessu máli, vildum dylja allan almenning hinum sönnu málavöxtum, svo að sá aðili, sem fyrir rangri sök væri hafður, ætti ekki viðreisnar von. Það var á honum að skilja, að þingið ætti að skerast í leikinn, því að þó að málalokin hefðu orðið þau, að þessir tveir aðilar hefðu gert með sjer sættir, þá væri ekkert upplýst um það, hvor þeirra hefði haft á rjettu að standa. En slíkt yrði að upplýsast, alveg eins og þessir tveir aðilar væru þess ómyndugir að sættast á málið eða ráða meðferð þess. Nú er hv. 2. þm. Reykv. ekki svo skyni skroppinn, að hann viti ekki, að það er hin mesta fjarstæða, að Alþingi geti verið dómstóll í slíkum málum sem þessum. Það getur ekki gripið inn, nema gegn stjórn landsins, ef því finst hún hafa framið eitthvað aðfinsluvert, og það gerir það þá á þann hátt að stefna henni fyrir landsdóm.

Hv. þm. lagði mikla áherslu á það, að það bæri að upplýsa þetta mál vel og vandlega, það ætti að koma í ljós, þótt sekt Sigurðar Sigurðssonar væri ekki meiri en svo, að hann hefði drepið flugu. Hjer vantar nú svo sem ekki rjettlætistilfinninguna! Enda fer hún prýðilega á gömlum sáttasemjara, presti og nú guðfræðiskennara háskólans. Maður hlýtur að bera miklu meiri virðingu fyrir honum, er maður veit, hvað hann hefir næma rjettlætistilfinningu, og ósjálfrátt verður manni að óska þess, að þjóðin ætti í hverju rúmi jafn ágæta menn sem hann. Jeg vil í sambandi við þetta leyfa mjer að minna á atvik nokkurt, sem gerðist fyrir nokkrum árum og jeg mundi ekki hafa minst á hjer, ef hv. þm. hefði ekki viljað gefa í skyn, að við værum vargar í vjeum, værum að reyna að verjast því, að sannleikurinn kæmi í ljós í þessu máli. Það var sem sje einum kennara vikið fyrirvaralaust frá starfi sínu, og var ekki grunlaust, að þessi hv. þm. (MJ) væri eitthvað við þá frávikningu riðinn. Það var ekki upplýst, að þessi kennari hefði nokkurn skapaðan hlut til saka unnið. Jeg vænti þess nú, að hv. þm. geti fært mönnum heim sanninn um það, að þessi frávikning hafi verið rjettmæt, að hann geti sannað sakir á kennarann. Hann átti engan vettvang, hann gat enga leiðrjetting fengið á máli sínu, nema sannleikurinn kæmi í ljós. Jeg hygg, að hv. 2. þm. Reykv. muni þykja vænt um að fá tækifæri til þess að upplýsa þetta mál, svo að enginn þurfi að efast um hans hárnákvæmu rjettlætistilfinning.

Þá fór hv. þm. eins og áður óvirðandi orðum um þá menn, sem störfuðu á búnaðarþinginu og höfðu þetta mál með höndum. Jeg hefi nú mótmælt því áður, en jeg verð að segja það, að mjer finst það harla óviðkunnanlegt að vera að koma með svona órökstudda sleggjudóma um fjarstadda menn, sem mjer vitanlega eru ekki kunnir að öðru en drengskap og rjettdæmi. Hann sagði, að þeim hefði verið skipað að þegja, og þeir hlýtt því. Þetta þykja mjer mjög óviðurkvæmileg orð um menn, sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sjer. Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um ræðu hv. þm. Það er að vísu margt fleira í ræðu hans, sem hefði þurft að mótmæla, en af því að hann er dauður, þá skal jeg ekki tefja tímann á því og angra hann nú meira.

Þá vil jeg snúa mjer að hv. þm. Barð. Hann talaði afar langt mál, en ekki sje jeg ástæðu til að eltast við nema tvö atriði úr ræðu hans. — Annað er það, að hann kvað mig hafa sagt, að jeg vildi ekki meiri upplýsingar í þessu máli. Þetta er rangt haft eftir hjá hv. þm. Það vita þeir hv. þdm., sem hlýddu á ræðu mína, og þótt þingskrifarar nái ekki hverju orði, sem sagt er, vona jeg að mjer sje óhætt að skírskota til ræðukafla þeirra, er þeir skila af sjer, um að jeg fer rjett með. Jeg sagði — og það vil jeg endurtaka — að ef ekki væri von á neinum nýjum upplýsingum í málinu, þá hefði landbn. annað þarfara við tíma sinn að gera en að taka þetta til meðferðar.

Þá þóttist hv. þm. undrast það mjög, að við Framsóknarmenn vildum tileinka okkur formann búnaðarfjelagsins sem fulltrúa okkar í stjórn þess. Hv. þm. veit það þó ósköp vel, að formaður var kosinn eftir tillögu Framsóknarmanna í landbn., og að við höfðum enga íhlutun um það, hvaða mann íhaldsmenn nefndarinnar tilnefndu. Jeg get um leið skotið því til hv. þm. V.-Sk., að það er alls engin pólitík í stjórnarkosningunni, þótt tveir aðalflokkar þingsins stingi hvor upp á sínum manni, án íhlutunar annara flokka. (JAJ: Það hefir aldrei komið til mála í Íhaldsflokknum að kjósa mann í stjórn búnaðarfjelagsins.) — Fulltrúar flokkanna í landbn. hafa tilnefnt sinn manninn hvor. En þótt formaður búnaðarfjel. sje þannig fulltrúi Framsóknarmanna í stjórn fjelagsins, eða Framsóknarmaður, er það alt annað mál, að í starfi sínu er hann skyldur að láta sjer ant um hag allra landsmanna. Hið sama má áreiðanlega segja um þann mann, Magnús Þorláksson, er Íhaldsmenn í landbn. tilnefndu í stjórn fjelagsins. Jeg veit með vissu, að hann í starfi sínu fyrir fjelagið gerir það eitt, er hann álítur landbúnaðinum fyrir bestu, hver sem í hlut á. (JAJ: Hv. þm. skal fá að standa við það, að stjórn búnaðarfjelagsins sje kosin pólitískt!). Jeg hefi alls ekki sagt það, heldur að flokkarnir hefðu fulltrúa í stjórninni. — Jeg þarf ekki að elta ólar við fleira, sem hv. þm. Barð sagði.

Hv. þm. Str. vjek að ræðu hv. þm. Ak., og virtist mjer henni þar með fullsvarað.

En það er hv. þm. V.-Sk., sem jeg verð að víkja til fáeinum orðum. Hann fór um það mörgum orðum, hve ant sumum hefði verið um að draga þetta mál inn í pólitískar deilur. En hverjir hafa óskað þess, ef ekki þeir, sem hafa þyrlað upp því mikla ryki, sem málið nú er hulið í? Þessum hv. þm. (JK) þótti ekki tryggilega um það búið, hvaða menn yrðu kjörnir á búnaðarþing. Má vera, að svo sje. En það er vandi að haga kosningum svo, að ekki megi að finna. Þótt þingmenn sjeu kosnir eins og menn vita, sjest, að ekki er fyrir það girt, að pólitískir loddarar komist á þing. (JK: Búnaðarþing?). Nei, Alþingi; þar á það við.

Þá var hv. þm. V.-Sk. að heimta skýrslur um málið. Ekki sýndist hann þó þurfa þess sjálfs sín vegna, því að hann hefir þegar kveðið upp dóminn. Hv. þm. er löglærður og ekki ólíklegri til þess en hver annar að komast í dómarasess. Þarna framkvæmdi hann líka dómaraverk, sýknaði annan aðila þegar í stað og sakfeldi hinn. Geri jeg því ráð fyrir, að hann þurfi ekki nýjar upplýsingar handa sjálfum sjer, heldur sje hann aðeins að heimta málsskjölin á borðið handa öðrum. En jeg vil endurtaka það, sem jeg áður sagði, að sje eitthvað nýtt fram komið í málinu, er landbn. að sjálfsögðu fús að taka það til athugunar; annars hefir hún margt þarfara með tíma sinn að gera.

Hv. þm. (JK) sagði, að Bfj. Ísl. hefði undanfarið verið í kviksyndi stjórnleysis og ábyrgðarleysis. Jeg vil nú vona, að hv. þm. hafi óvart varpað fram þessum staðhæfingum. En undir öllum kringumstæðum held jeg, að það ætti vel við að rökstyðja svona orð. Og af því að mjer er hlýtt til hv þm. — við erum háðir Skaftfellingar — vildi jeg mælast til þess, að hann færði þessum orðum sínum stað. Það er æskilegast fyrir hann sjálfan. Hvenær byrjaði stjórnleysið og hvenær byrjaði ábyrgðarleysið í búnaðarfjelaginu? Jeg býst við, að það hafi lent í „kviksyndinu“ ekki löngu seinna.

Hv. þm. V.-Sk. ljet eins og hann talaði í umboði ótal bænda, þegar hann krafðist að fá að vita „hið sanna“ — sem hann þóttist þó vita svo ósköp vel.

— Jeg fæ nú ekki skilið, hvernig þetta umboð á að vera komið til hv. þm., eða hvernig hann fer að vita vilja bænda nú um þetta mál. Reyndar getur verið, að hv. þm. hafi einhverja fjarsýnis- og huglestrargáfu, og hafi þannig fengið þessa vitrun.

Þá held jeg, að mjer væri nú best að gefast upp við að ræða málið við hann.

— En það er nú mín hyggja, að bændur vilji hafa stjórn þessa fjelags sem friðsamasta og eindregnasta að sínum skyldustörfum, og þakki engum fyrir að flytja þangað ósamlyndi og sundurþykkju. Hv. þm.(JK) drap á, að jeg hefði sagt, að Sigurður Sigurðsson væri ekki lengur búnaðarmálastjóri. Þetta sagði jeg aldrei, en þótt jeg hefði sagt það, þá skiftir það ekki máli. Hv. þm. Str., form. búnaðarfjel., sagði, að enn væri ekki fullráðið, hversu störfum yrði skift með búnaðarmálastjórunum. En hvernig sem um það fer, þá stendur það, sem jeg sagði, að Sig. Sig. verður ekki búnaðarmálastjóri á sama hátt og áður var. Við getum tekið hliðstætt dæmi. Hjer voru þrír ráðherrar, þangað til Jón Magnússon forsætisráðherra dó. Þá skiftu hinir ráðherrarnir með sjer störfum hans, en þar fyrir er hvorugur þeirra forsætisráðherra á sama hátt og hinn látni var. Eins býst jeg við að skift verði með búnaðarmálastjórunum þannig, að hvor fái það starf, sem best er við hans hæfi og honum hentar best.

Hv. þm. talaði um, að búnaðarfjelagið hafi verið dregið inn í pólitíska flokkadrætti. Getur hann nú fundið þessum orðum sínum nokkurn stað? (JK: Hv. þm. kallaði formann fjelagsins fulltrúa síns flokks!). Já, jeg sagði, að hann væri kosinn af okkur, en þar fyrir hefði hann skyldu til að vinna fyrir alla jafnt, enda hefir hann gert það.

Hv. þm. talaði um, hve mikilsverð starfsemi búnaðarfjel. væri, og að gegnum það ætti sem flest að fara af því, sem miðaði til framfara í landbúnaði. Jeg er þessu öllu hjartanlega sammála. En heldur hv. þm., að hann vinni þarft verk með því að kveikja eld í þessu fjelagi? (SigurjJ: Hver átti upptökin?). Hver byrjaði umræður um þetta mál í hv. þd.? (ÁJ: Hver bar fram frv.?). Fylgdu því nokkur ummæli, sem gæfu tilefni til svona umræðna? Auk þess var frv. borið fram á þingi í fyrra, og mjer finst ekki til mikils mælst, að hv. þm. geti nú farið að átta sig á efni þess, ári síðar. (MJ: Við skulum vona, að þeir hafi áttað sig fyrir andlátið. — ÁJ: Jeg býst við, að þeir fái tíma til þess, einhverntíma áður en hv. þm. hættir að tala!). Það virðist svo sem hv. 2. þm. N.-M. sje nokkuð upp með sjer, enda er hann höfuðpaurinn í þessum umræðum. Jeg veit nú ekki, hversu vel honum ferst að vera að setja ofan í við aðra, en úr því að hann gerir sjer svo mikið far um að minna á sig, get jeg gert honum ofurlítil skil. Það er algerlega rangt hjá honum, að við Framsóknarmenn höfum haft nokkra íhlutun um það, hvern Íhaldsmennirnir í landbn. í fyrra tilnefndu í stjórn búnaðarfjelagsis af annara hálfu en okkar eigin. Hitt er annað mál, að við bentum í sameiningu hæstv. stjórn á þessa tvo menn í stjórn fjelagsins og berum sameiginlega ábyrgð á þeirri tilnefningu. Og jeg skal síst skorast undan því, að bera ábyrgð á starfsemi þess manns, er Íhaldsmenn í landbn. bentu á frá sinni hálfu. Jeg treysti þeim manni mjög vel. (ÁJ: Alt, sem jeg hefi sagt, er skjallega sannanlegt).

Nú held jeg að jeg geti að mestu látið hjer við sitja, þótt jeg hafi skrifað sitt hvað fleira hjá mjer.

Hæstv. atvrh. sagðist ekki vilja blanda sjer í umræður hjer, og kvaðst halda, að form. búnaðarfjel. mundi eiga nóg með að stýra skútunni undan boðum í höfn, þótt hann væri látinn óáreittur. þetta er nú einstaklega vel meint af hæstv. ráðh. Jeg býst líka við, að það sje fleiri en form. Bfj. Ísl., sem þyrftu að hafa næði við sín stjórnarstörf. Hæstv. ráðh. á nú stjórnarstörfum að sinna. Vel gæti jeg unt honum þess, að honum mætti auðnast að haga sinni stjórnsemi svo, að hann komist klaklaust í höfn og menn megi við hans formensku vel una.