19.03.1927
Neðri deild: 34. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í C-deild Alþingistíðinda. (3071)

82. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Jakob Möller:

Það kann að þykja slettirekuskapur af mjer, að blanda mjer í kosningaundirbúning Íhalds og Framsóknar, þann, er hjer hefir farið fram. En mjer þykir rjett að lýsa minni skoðun, þar sem hvorugur aðili getur talist hlutlaus.

Jeg geri ráð fyrir, að úrslit þessa máls sje um land alt skoðuð sem uppreisn fyrir Sigurð Sigurðsson, og jeg verð að telja það góð endalok. Enda þótt ekki sje um fulla uppreisn að ræða, þá hefir Sigurður þó sjálfur sætt sig Við málalokin, og er hann meiri maður í mínum augum fyrir að vilja falla frá sínum fylsta rjetti. — Um afstöðu hins aðilans, sem er ekki aðeins Framsóknarmaðurinn, hv. þm. Str., heldur og tveir Íhaldsmenn, — um afstöðu þessa aðila verð jeg að segja, að það sjest, að hann hefir borið meira fyrir brjósti hag Búnaðarfjel. Ísl. heldur en sína eigin þykkju.

Jeg get tekið undir kröfuna um að heimta málið fullkomlega upplýst. En mjer þætti svo sem heimta mætti upplýsingar frá allri stjórn fjelagsins, Íhaldsmönnunum ekki síður en Framsóknarmanninum. En hjer hafa aðeins verið heimtaðar skýrslur af Tryggva Þórhallssyni, hv. þm. Str. — Ef Magnús Þorláksson á Blikastöðum hefði átt sæti í þessari hv. deild í stað hv. þm. Str., þá efast jeg ekki um, að hjer hefði verið skift um hlutverk. Þá hefðu Framsóknarmenn krafist þess, að fá málið „upplýst“, og íhaldsmenn varist allra frjetta. (HStef: Getsakir!). Ójá, víst eru þetta getsakir. En jeg þekki Íhaldsflokkinn alls ekki að því, að vera neitt ófyrirleitnari að kosningameðulum heldur en Framsóknarflokkinn. Þar get jeg ekki gert upp á milli.

Jeg vil aðeins slá föstu, að öll ræðuhöldin og málalengingarnar um þetta frv. eru ekki annað en kosningaundirbúningur.