23.03.1927
Neðri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í C-deild Alþingistíðinda. (3085)

95. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Flm. (Ingólfur Bjarnarson):

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði um það, að þessar eyjar, sem hjer um ræðir, hafi orðið fyrir minna misrjetti við drátt þann, sem orðið hefir á bygging loftskeytastöðvanna, en sum önnur hjeruð landsins hafa orðið að þola í þessum efnum, skal jeg taka fram, að mjer er ekki kunnugt um, að fje hafi verið veitt til símalagninga í þeim hjeruðum, sem hann átti við. Það má vel vera, að það sje rjett, að önnur hjeruð eigi eldri loforð óuppfylt um símalínur. En það afsannar á engan hátt það, sem jeg sagði, að drátturinn á byggingu loftskeytastöðvanna væru mjög harðir kostir og ósanngjarnir fyrir hlutaðeigendur, þar sem nauðsynin er jafn knýjandi, og hinsvegar tvisvar búið að ætla fje til þeirra á fjárlögum.

Hæstv. atvrh. (MG) hefir nú gefið þau svör viðvíkjandi loftskeytastöðvunum, að það væri ekki meiningin að draga byggingu þeirra lengi, og að hinsvegar muni slíkar stöðvar taka framförum frá því, sem nú er. Það er vitanlega gott, ef hægt er að fá fullkomnari stöðvar en nú er kostur á, og nokkur ástæða getur verið til að bíða, ef sá dráttur verður ekki of langur. Og eftir orðum hæstv. atvrh. að dæma, tel jeg mig geta átt von á því, að ekki verði mjög langt að bíða framkvæmda í þessu máli. Sennilega ekki nema til næsta árs. Og í því sambandi dettur mjer í hug að varpa því fram, hvort hæstv. atvrh. sýnist máske þörf á, að endurnýjuð sje fjárveitingin til byggingar þessara loftskeytastöðva.

Annars vil jeg benda á það, að mjer og öðrum sem hlut eiga að máli, finst raunar fremur veigalitlar ástæður þær, er rjettlæta eiga frestun á framkvæmd þess, að byggja loftskeytastöðvarnar í ár, svo sem til var ætlast, og að þær sömu ástæður hafi í raun rjettri verið jafnt fyrir hendi í fyrra, er bæði hæstv. stjórn og Alþingi ákváðu, eftir tillögum landsímastjóra, að stöðvarnar væru bygðar í ár. En jeg geri hinsvegar ráð fyrir, að þessi hjeruð sætti sig við að bíða eitt ár. En alls ekki, ef um óákveðinn tíma ætti að vera að ræða. Jeg vænti líka, að það sje ekki meiningin, heldur verði hjer aðeins um stutta bið að ræða.