28.02.1927
Neðri deild: 17. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

48. mál, notkun bifreiða

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Mjer skilst, eftir orðalagi frv., að ætlast sje til, að ný grein komi á eftir 4. gr. bifreiðalaganna. En nái þessi breyting fram að ganga, sje jeg ekki betur en að 2. málsgr. 4. gr. hljóti að falla burtu. Mjer skilst, að þessir skoðunarmenn eigi að bera ábyrgð á því, að bifreiðar sjeu skoðaðar nógu oft og nógu vel, og eigi þeir að ljetta þeim störfum af lögreglustjóra. Jeg held því, að rjett væri að láta frvgr. koma í stað 2. málsgr. 4. gr. En vitanlega er þetta aðeins formsatriði.

Annars er það svo, að samkvæmt 4. gr. 2. málsgr. er lögreglustjóra heimilt að láta skoðun fram fara hvenær sem hann vill, og ef því ákvæði væri framfylgt af krafti, ætti það að vera nóg. En það er rjett hjá hv. 1. flm. (HjV), að nú er þessi skoðun ekki framkvæmd nema einu sinni á ári, og þá hafa menn fyrirvara til að láta gera við bifreiðar sínar. Þó finst mjer heldur ólíklegt, að margar ónothæfar bifreiðar sjeu í gangi, því að þá hljóta eigendurnir altaf að hafa hitann í haldinu um það, að slys verði.

Þá gat hv. 1. flm. um, að allmargir þeirra, sem stjórna fólksflutningabifreiðum, hefðu ekki þau viðbótarskírteini, sem til þess þarf. Þetta mun vera alveg rjett hjá hv. þm. (HjV), og með brjefi 15. þ. m. hefir stjórnarráðið brýnt fyrir lögreglustjórum að gæta þessa betur en verið hefir. Ástæðan til þessa brjefs er, að vegamálastjóri, sem annast þessi mál fyrir landsstjórnarinnar hönd, hafði komist að því, að ólag er á skírteinunum. Hugsa jeg, að þetta atriði komist í lag með vorinu, þegar lögreglustjórar hafa haft tækifæri til að rannsaka það.

Frv. gerir ráð fyrir að löggilda þrjá skoðunarmenn hjer á Suðvesturlandi. En mjer sýnast vera nokkur vandkvæði á að skifta starfinu með þeim. Vildi jeg, að fram kæmi, hvernig hv. flm. hafa hugsað sjer það atriði, þar sem bifreiðafjöldinn er svo ákaflega mismunandi á ýmsum stöðum á þessu svæði.

Þá mintist háttv. 1. flm. á að takmarka vinnutíma bifreiðastjóra. Mjer virðist mjög örðugt að koma því við að hafa fasta reglu um þetta efni. Ef á að tryggja það, að hvervinni ekki nema vissan klukkustundafjölda á dag, þá þyrfti oft að senda tvo bifreiðastjóra í langferðir, því að þegar lagt er af stað í þær ferðir, er oft ekki unt að segja, hve langan tíma þær taka, eða hvort komið verði aftur samdægurs.

Jeg óska ekki, að þessar athugasemdir mínar sjeu skoðaðar sem mótmæli gegn frv., heldur hefi jeg aðeins viljað benda á, að nái frv. fram að ganga, er eðlilegast, að þessum þrem skoðunarmönnum sje algerlega fengin í hendur sú umsjón með bifreiðunum, sem nú er hjá lögreglustjóra.