02.05.1927
Efri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í C-deild Alþingistíðinda. (3107)

120. mál, gjöld af fasteignum í Hafnarfjarðarkaupstað

Björn Kristjánsson:

Háttv. samþm. minn í Nd. (ÓTh) hefir flutt þetta frv., eftir ósk meiri hl. bæjarstjórnarinnar í Hafnarfirði. Er það borið fram af því, að bærinn er kominn í hina mestu fjárkreppu, svo að starfsmenn kaupstaðarins hafa jafnvel ekki getað fengið laun sín greidd nú í fleiri mánuði.

Fjárkreppa þessi mun meðal annars stafa af því, hversu útsvör þar í bænum greiðast illa, en það stafar aðallega af gjaldþolsleysi manna. Eins og nú stendur á, hygst bæjarstjórnin að geta trygt sjer betur tekjurnar með því að leggja skatt á fasteignir, eins og gert var fyrir nokkrum árum hjer í bænum. Var því þá heitið hjer, að útsvörin skyldu lækka það, sem svaraði húsaskattinum, en sú hefir ekki orðið raunin á. Þessi skattur mun því verða viðbótarskattur á þá, sem eiga þak yfir höfuðið á sjer, alveg eins og hjer hefir orðið.

Þó að jeg sje þessari stefnu andvígur, eins og jeg var þá, vil jeg þó ekki bera ábyrgðina á því að mæla á móti frv., þegar svona stendur á. Vil jeg því mælast til, að frv. fái að ganga áfram, og að því verði, að umr. lokinni, vísað til allshn.

Þá eru það tilmæli mín, að hin hv. allshn. greiði sem fljótast fyrir þessu máli.